Að Fjallabaki Landslagið á friðlandinu er stórbrotið og fjölbreytt.
Að Fjallabaki Landslagið á friðlandinu er stórbrotið og fjölbreytt. — Morgunblaðið/Hari
Umhverfisstofnun hefur fyrir sitt leyti fallist á umsókn Hestamannafélagsins Geysis um að byggja áningarhólf fyrir hesta innan friðlandsins að Fjallabaki.

Umhverfisstofnun hefur fyrir sitt leyti fallist á umsókn Hestamannafélagsins Geysis um að byggja áningarhólf fyrir hesta innan friðlandsins að Fjallabaki.

Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að markmiðið með framkvæmdinni sé að stýra því hvar ferðamenn á hestum stoppi hrossarekstra innan svæðisins og minnka þannig rask á viðkvæmu landi. Árið 2018 höfðu viðkomu í Landmannahelli um 30 hópar hestamanna með alls um 1.275 hross á leið sinni í Landmannalaugar. Segir stofnunin, að slíkur fjöldi hrossa geti valdið þónokkru raski á svæðinu og viðkvæmur gróður svæðisins þoli illa slíkan ágang.

Stefnt er að því að setja upp hólfið í sumar við Frostastaðavatn en skipulögð reiðleið liggur þar um. Nákvæm staðsetning liggur ekki fyrir, en miðað verður við að setja hólfið niður þar sem lítill eða enginn gróður er fyrir. Hólfið verður 15x15 metrar að stærð. Reknir verða niður 10 járnstaurar og lína strengd á milli þeirra sem verður fjarlægð yfir vetrartímann. Telur Umhverfisstofnun að uppsetning á áningarhólfi við Frostastaðavatn muni ekki hafa veruleg neikvæð áhrif á svæðið og með þessari framkvæmd sé verið að bæta stýringu á umferð hesta á svæðinu. Um sé að ræða varanlegt mannvirki sem Umhverfisstofnun telur að sé ekki líklegt til að raska ásýnd svæðisins verulega og sé afturkræft.

Á rauðum lista

Umhverfisstofnun gefur út lista á tveggja ára fresti yfir þau svæði sem veita þarf sérstaka athygli og hlúa sérstaklega að. Flokkast svæði á rauðan lista og appelsínugulan lista. Á hinum fyrrnefnda eru svæði sem Umhverfisstofnun telur að séu undir miklu álagi sem bregðast þurfi strax við og er friðland að Fjallabaki talið þar á meðal vegna ágangs ferðamanna.

Stofnunin segir að í friðlandinu sé stórbrotið og fjölbreytt landslag, sérstakt en viðkvæmt lífríki, öræfaauðn og kyrrð. Veikleikar svæðisins sé lífríkið sem sé viðkvæmt. Samfelld gróðursvæði fá, endurheimt gróðurs sem spillist hæg og vaxtartími gróðurs stuttur. Svæðið verji sig illa sjálft fyrir hvers konar umferð. Friðlandið er mikið sótt af ferðamönnum og er í dag vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á hálendi Íslands. Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið liggur ekki fyrir en vinna við hana stendur yfir.