— Morgunblaðið/Þórður
Viðræður um sameiningu SORPU og Kölku nálgast nú lokastig. Á fundi stjórnar Sorpu nýlega var samþykkt að vísa ákvörðun um framhald málsins til bæjarstjórna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Viðræður um sameiningu SORPU og Kölku nálgast nú lokastig. Á fundi stjórnar Sorpu nýlega var samþykkt að vísa ákvörðun um framhald málsins til bæjarstjórna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Rætt hefur verið um sameiningu Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja sf., Kölku, sem er í eigu sveitarfélaga á Suðurnesjum og SORPU bs. í eigu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, frá miðju ári 2016, og auk viðræðunefnda hafa ráðgjafar frá Capacent og stjórnir fyrirtækjanna komið að málum.

Í fundargerð stjórnar SORPU frá því í síðustu viku kemur fram að málið sé nú komið á það stig að góðar upplýsingar og hugmyndir liggi fyrir um á hvaða grundvelli hægt sé að kynna mögulega sameiningu fyrir bæjarstjórnum sveitarfélaganna.

Það yrði síðan eigenda SORPU og Kölku að ákveða næstu skref.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins hefur verið rætt um að við sameiningu myndi eignarhlutur skiptast svipað og íbúafjöldi. Eignarhlutur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu yrði um 90% og eignarhlutur sveitarfélaganna á Suðurnesjum 10%. aij@mbl.is