[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bólusetningar skipta miklu máli og bjarga mannslífum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, áætlar að bólusetningar komi í veg fyrir um 2-3 milljónir dauðsfalla á hverju einasta ári.

Bólusetningar skipta miklu máli og bjarga mannslífum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, áætlar að bólusetningar komi í veg fyrir um 2-3 milljónir dauðsfalla á hverju einasta ári. Afleiðing þess að við náum ekki að bólusetja öll börn eins og best hefði verið á kosið er að um 1,5 milljónir manna deyja árlega af völdum sjúkdóma sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir með bólusetningum.

Áskorun að viðhalda árangri

Á heimasíðu Embættis landlæknis kemur fram að þátttaka í bólusetningum á Íslandi er misjöfn frá ári til árs. Við erum stundum að gleyma okkur og sífellt þarf að minna á mikilvægi bólusetninga. Það er mikil áskorun að viðhalda árangri sem náðst hefur í fækkun sjúkdóma og fá fólk til að mæta í bólusetningar. Búið er að útrýma sjúkdómum með bólusetningum og er kúabóla dæmi um slíkan sjúkdóm. Kíghósti, barnaveiki, rauðir hundar og mislingar sjást varla á Íslandi lengur.

Bólusetning gegn sýklunum sem heita Haemophilus influenzae og meningokokkum hefur skilað árangri og fækkað til muna afleiðingum þessara erfiðu sjúkdóma.

Andstæðingar bólusetninga tala gjarnan um aukaverkanir bólusetninga. Þegar við bólusetjum okkur er verið að setja veiklaðan sýkil undir húð og fá líkamann til að bregðast við með tilheyrandi viðbrögðum. Þetta er í raun alveg það sama eins og við æfum þyrlusveitina, björgunarsveitir eða lögreglu að vera viðbúin uppákomum. Hver vill fá óþjálfaða þyrlusveit eða lögreglu í útköll þegar lífið liggur við? Þá heyrist stundum að fólk verði jafnvel þreytt eða hálfþreytt eftir bólusetningu. Þá spyr maður sig hvort það sé ekki bara gott merki um að líkaminn sé að taka á og virkilega æfa sig í viðbrögðum. Aukaverkanir af bólusetningum eru margfalt minni en ávinningur og alvarlegar aukaverkanir afar sjaldgæfar.

Bjargað 1.000 mannslífum

Það getur verið gott að taka dæmi máli sínu til stuðnings. Það er talað um að við höfum afstýrt um 100 þúsund tilfellum af kíghósta frá því að bólusetningar hófust. Það er í raun þá verið að segja að við getum hafa bjargað um 1.000 mannslífum. Það er talað um að ef við værum ekki að bólusetja í dag gæti það verið að við sæjum 17 dauðsföll á ári vegna kíghósta.

Barnaveiki var á Íslandi mjög alvarlegur smitsjúkdómur og voru það stundum nokkur hundruð börn sem veiktust ár hvert á árunum 1888-1948. Bólusetningar í skólum hófust 1948 og síðan þá hefur ekki greinst barnaveiki á Íslandi. Barnaveiki var á þessum tíma alvarlegur sjúkdómur og um 10% barna sem fengu sjúkdóminn létust

Stífkrampa og mænuveiki útrýmt

Stífkrampi hefur ekki sést á Íslandi eftir að almenn bólusetning hófst 1955 og með betra bóluefni 1959.

Mænuveiki er alvarlegur smitsjúkdómur sem á árum áður olli lömunum. Núna verður þessa sjúkdóms ekki vart á Íslandi og þær 6-7 lamanir sem sáust á hverju ári sjást ekki vegna þessa.

Árið 1989 hófst bólusetning á Íslandi gegn svokölluðum ífarandi HiB-sjúkdómi. Árlega lést eitt barn vegna þessa áður en þessar bólusetningar hófust. Núna deyr ekkert barn vegna þessa og höfum við því bjargað 25 lífum barna síðan 1989. Ert það þú eða barnið þitt sem bjargað var?

Fyrir ykkur sem viljið kynna ykkur málið vel er gott að fara inn á heimasíðu Embættis landlæknis. Þar er til að mynda talað um dánartíðni vegna þessara sjúkdóma sem við bólusetjum við. Hér eru nokkur dæmi:

Stífkrampi, um 50% dánartíðni

Meningokokkar, C 15% dánartíðni og 20% fá heilaskaða eftir þessa sýkingu

Haemophilus influenzae, 10% dánartíðni

Barnaveiki, 10% dánartíðni

Óskar Reykdalsson Sérfræðingur í heimilislækningum og stjórnun heilbrigðisþjónustu og settur forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins

Unnið í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Höf.: Óskar Reykdalsson Sérfræðingur í heimilislækningum, stjórnun heilbrigðisþjónustu, settur forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins