Í dag greinast sífellt yngri einstaklingar með heilabilunarsjúkdóma. Ástæðan er ekki sú að algengi sé að aukast heldur að fólk leitar fyrr til læknis þegar grunur vaknar og greining fæst fyrr. Þá er umræðan að opnast og fordómar og mýtur að eyðast.
Það er því miður of oft svo að vinnuveitandi telji að starfsmaður sem greinist með heilabilunarsjúkdóm verði óvinnufær daginn eftir. Svo er alls ekki. Samt sem áður heyrum við allt of oft af því að fólk er látið hætta störfum og kennum við þar um vanþekkingu vinnuveitandans og almenningsálitinu.
Á Íslandi eru sem betur fer til skilningsríkir vinnuveitendur sem skynja verðmæti þess að halda í góða starfsmenn þrátt fyrir sjúkdóminn. Við þekkjum dæmi þess og sjáum áþreifanlega hversu mikilvægt þetta er fyrir starfsmanninn og framvindu sjúkdómsins. Stundum er það starfsmaðurinn sjálfur sem vill hætta en vinnuveitandinn hvetur hann til að halda áfram. Það er vel. Við þekkjum líka dæmi um að starfsmanni er boðið að starfa áfram og er honum þá veitt sú aðstoð sem hann kann að þurfa. Enn aðrir bjóða starfsmanninn velkominn á vinnustaðinn að vild þrátt fyrir að vera ekki lengur á launaskrá. Þá virðist það vera algengara í smærri samfélögum að stutt sé við hinn veika og hann hvattur til að halda áfram sínum störfum.
Talað er um snemmkomna heilabilun þegar fólk greinist yngra en 65 ára. Flestir á þeim aldri eru ennþá í vinnu. Það að sýna slíkum starfsmanni skilning og hvetja til að starfa áfram getur bæði verið gagnlegt fyrir vinnuveitandann og starfsmanninn. Einstaklingar í þessum sporum eru oft mjög virkir og hafa næga hæfileika til að nýta þekkingu sem fengist hefur eftir áralanga starfsreynslu.
Algengt er að á fyrstu stigum hafi sjúkdómurinn áhrif á skammtímaminni fremur en minningar frá fyrri tíð. Og þó að starfsmaðurinn geti átt erfitt með að muna nýja hluti eða gæti þurft smá aðstoð við að fylgjast með tíma og verkefnum, þá hefur hann áfram getu til að taka góðar ákvarðanir.
Vinnuveitandi getur aðstoðað starfsmann með heilabilun á margan hátt og alltaf er hægt að leita til Alzheimersamtakanna eftir ráðgjöf. Í þessu samhengi geta lítil atriði skipt miklu máli til að aðstoða starfsmanninn. Eitt mikilvægasta verkfæri þeirra sem glíma við gleymsku er til dæmis notkun dagbóka og minnismiða en hver gerir það ekki?
Vissulega eru störf mismunandi og sama á við um ábyrgð. Í flestum störfum er engin ástæða til að ætla annað en að sá sem greinist með heilabilunarsjúkdóm á byrjunarstigi geti haldið áfram að vinna. Og í flestum fyrirtækjum er möguleiki á að nýta krafta starfsmannsins á öðrum vettvangi ef svo ber undir, hægt er að minnka starfshlutfall og fleira þess háttar.
Það er alltaf tjón fyrir fyrirtæki að missa frá sér starfsmann með mikla þekkingu og reynslu. Þótt starfsmaður greinist með heilabilunarsjúkdóm getur hann áfram verið verðmætur og góður starfsmaður ef vinnuveitandinn aðstoðar hann og samstarfsmenn með opinni umræðu, fræðslu og jákvæðni. Niðurstaðan verður ávinningur fyrir báða.
Því miður er það þó oft að fólk er látið hætta störfum. Við viljum breyta þeirri þróun með aukinni umræðu og upplýsingum.
Höfundur er framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna.