[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þú hefur allt of mikið gert, ungur sem þú ert,“ (e. „You‘ve done too much, much too young“) söng ska-hljómsveitin The Specials. Skilaboð lagsins eiga vel við þróun mála hjá lággjaldaflugfélaginu Norwegian Air að...

„Þú hefur allt of mikið gert, ungur sem þú ert,“ (e. „You‘ve done too much, much too young“) söng ska-hljómsveitin The Specials. Skilaboð lagsins eiga vel við þróun mála hjá lággjaldaflugfélaginu Norwegian Air að undanförnu. Á þriðjudag tilkynnti félagið að ráðist yrði í forgangsréttarútboð fyrir 3 miljarða norskra króna (janvirði 310 milljóna evra), en sú upphæð er á við nærri hálft markaðsvirði félagsins daginn á undan. Grípur flugfélagið til þessa ráðs til að geta staðið við skilmála lánasamninga. Er þetta í annað skiptið síðan í júní sem flugfélagið heldur forgangsréttarútboð. Reikna má með að næst verði ráðist í að skera útgjöld rækilega niður eftir mörg ár í röð þar sem flugfélagið óx af miklum krafti. Eins og ódælum unglingi er búið að banna Norwegian að fara úr herberginu sínu. En samt virðast fjárfestar ekki vilja gefa flugfélagið upp á bátinn.

Kannski er skýringin sú að rekstrarmódel Norwegian virkaði, a.m.k. um skeið. Með því að bjóða upp á ódýr fargjöld á löngum flugleiðum tókst Norwegian að ná til sín ágætum skerf af markaðinum og gera stjórnendum annarra flugfélaga lífið leitt. Var Norwegian t.d. svo óþægur ljár í þúfu að International Airlines Group, eigandi British Airways, reyndi ítrekað að taka flugfélagið yfir á síðasta ári. En eftir því sem meira tap varð á starfseminni, og meiri órói á verðbréfamörkuðum, fór áhuginn dvínandi.

Það að IAG skyldi í síðustu viku ákveða að fúlsa við yfirtökusamningi bendir til að samsteypan óttist að þessi evrópska tilraun með ódýr flugfargjöld á löngum flugleiðum sé senn á enda. Það styður við þessa skoðun að Norwegian greindi einnig frá því á þriðjudag að meira tap hefði orðið á rekstrinum en nokkru sinni áður.

Lággjaldaflugfélög sem þjónusta styttri flugleiðir, s.s. Ryanair, tekst að viðhalda forskoti á keppinauta sína með því að nýta flugvélaflota sinn betur. Samkvæmt útreikningum Bernstein tekst þeim að ná í kringum 11 klst. af fartíma (e. block hours) út úr hverri vél á hverjum sólarhring á meðan hefðbundnu flugfélögin ná 9 klst. að jafnaði. Þetta rekstrarmódel virkar ekki eins vel þegar langt er á áfangastað. Raunar er nýtingin á vélum Norwegian á lengri leggjum svipuð og hjá keppinautum á borð við British Airways.

Bestu fréttirnar sem hluthafar gætu fengið væri ef flugfélagið yrði tekið yfir. Það kann að skýra hvers vegna hlutabréfaverðið lækkaði tiltölulega lítið á þriðjudag, eða um 15%. Nú þegar IAG er ekki lengur inni í myndinni blasir ekki við hver kaupandinn gæti verið. Næst er að sjá hvort Norwegian nær að greiða skuldabréf sem eru á gjalddaga í nóvember á þessu ári. Einhver virðist hafa trú á að það takist því að ávöxtunarkrafa þessara skuldabréfa lækkaði niður í 9% á þriðjudag, en var áður 30%. Að því gefnu að forgangsréttarútboðið heppnist vel þá er Norwegian ekki á förum alveg strax. Þeir sem hafa sínar efasemdir ættu að fylgjast með frá flugstöðinni hvort flugfélaginu tekst að hefja sig á loft.