Einar Gylfason fæddist 19. júní 1974. Hann lést 31. desember 2018.

Útför Einars hefur farið fram í kyrrþey.

Með söknuð í huga kveðjum við Einar Gylfason, dótturson minn og frænda okkar. Allt frá bernsku hefur verið mikill og góður samgangur milli fjölskyldnanna, sem hefur haldist alla tíð enda systkinabörnin á svipuðu reki. Reglulega hittumst við á heimili afa og ömmu í Kópavogi þar sem allir smituðust af brennandi áhuga afa á náttúrunni og fuglalífi. Var Einar þar ekki undanskilinn eins og ljósmyndir sem hann tók í seinni tíð bera fagurt vitni. Einar var hjartahlýr og einlægur og lét sér umhugað um fjölskylduna.

Einar dvaldi löngum erlendis hin seinni ár og þó oft hefði langt liðið milli þess sem við hittumst heilsaði hann alltaf með hlýju faðmlagi og brosi sem náði til augnanna. Elsku Einar, við biðjum góðan Guð að varðveita þig og sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur til Svövu, Gylfa, Ernu Kristínar og Ragnheiðar Þórdísar og fjölskyldna.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Kristín Árnadóttir, Jóhanna Kristín og Ingibjörg Ásta.

Við Einar erum jafnaldrar og frændur sem fylgst hafa að frá fyrsta degi. Það var alltaf stutt á milli okkar, hann úr Árbænum og ég í Breiðholti auk þess sem við vorum saman um tíma í Versló. Einar var fluggáfaður, skemmtilegur og með sterkar skoðanir. Áhugasviðið var breitt og hann sökkti sér á bólakaf í það sem á annað borð kveikti áhuga hans. Í æsku eru mér minnisstæð ýmis tímabil hjá Einari, t.d. þegar hann vissi allt um risaeðlur, varð öflugur skákmaður, fróður um náttúruna og frá fyrstu tíð fljótur að tileinka sér allar tækninýjungar. Þó hann hafi búið yfir þeim verðmæta eiginleika að geta sökkt sér djúpt í hugðarefni sín sveimaði hugurinn líka oft fljótt burtu í eitthvað annað og meira spennandi. Það fylgdi honum því ákveðið rótleysi en kappsemin og metnaðurinn minnkaði ekkert með árunum. Hann fékk áhuga á hreyfingu og hlaupum. Þar stóð árangurinn ekki á sér og vann hann m.a. það frábæra afrek að hlaupa maraþon á rétt um þremur klukkustundum. Svo fékk hann mikinn áhuga á ferðalögum og ferðaðist víða um heim og tók fallegar myndir á ferðalögum sínum.

Í seinni tíð hittumst við sjaldnar en það skipti aldrei máli þó stundum hefði liðið langt á milli, alltaf var eins og við hefðum hist í gær. Hann hafði frá mörgu að segja enda víðförull og stöðugt að lesa og pæla í nýjum hlutum. Það var sérstaklega gaman að fylgjast með Einari þegar hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki fyrir nokkrum árum. Honum var sölumennska í blóð borin og þeir hæfileikar samtvinnaðir við gáfur, vinnusemi og frjótt hugarfar voru einfaldlega uppskrift að velgengni. Á stuttum tíma náði hann undraverðum árangri í sölu, markaðssetningu og rekstri fyrirtækisins. Eftir þau farsælu viðskipti var spennandi að fylgjast með hvað hann tæki sér næst fyrir hendur því næg tækifæri og möguleikar voru í boði.

Í haust frétti ég síðan af Einari þar sem hann var búinn að afla sér menntunar í nýju meðferðarúrræði og var fullur bjartsýni með áætlanir um að nýta það til að hjálpa öðrum. Þá grípur lífið skyndilega svona óþyrmilega í taumana. Allir hafa sína djöfla að draga og Einar var þar ekki undanskilinn. En eftir standa góðar minningar um kæran frænda og vin sem verður sárt saknað.

Árni Claessen.

Einar frændi minn er nú farinn á nýjar slóðir – þangað sem ég get ekki hitt á hann í efninu. Ég hefði gjarnan viljað hafa hann með mér áfram – í þessum heimi.

Ég hefði viljað geta hitt hann í sundi – eða heyrt í honum í gegnum Skype frá Víetnam. Ég naut þess að vera í kringum hann. Hann hafði lag á að umvefja mann með nærveru sinni – var hvetjandi og kærleiksríkur. Það var heldur ekki annað hægt en að hrífast af drifkraftinum. Hann var svo fróðleiksfús og með eldmóð fyrir því sem greip huga hans. Það eru þekktir sketsar með Pétri Jóhanni úr Svínasúpunni sem gengu út á að karakterinn hans Péturs gat toppað allar sögur sem hann heyrði. Hann sagði alltaf: „Iss, það er ekkert. Einar frændi minn gerði miklu meira...“ Og þannig frændi var Einar frændi minn. Hann gat einhvern veginn allt.

Nú við andlát Einars finn ég svo sterkt fyrir orku hans og krafti. Því þótt hann sé ekki hér í efninu – þá er hann með mér í anda. Öll þau fallegu áhrif sem hann hafði á mig – geymi ég í hjarta mér. Ég er svo þakklátur fyrir hvað hann hefur gefið mér. Á sama tíma og ég sakna hans – stendur hann ljóslifandi í huga mér.

Þannig skrifa ég ekki nú til að kveðja Einar. Ég kalla til hans með einni hugsun og hann er hjá mér. Ég finn fyrir honum – og tilfinningin er mjúkt þakklæti fyrir allt sem hann gaf – og gefur mér enn. Takk fyrir allt, frændi.

Helgi Jean Claessen.