[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frakkland Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.

Frakkland

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Ég var aðeins byrjuð að horfa í kringum mig og hvaða möguleikar væru í stöðunni, en þetta gerðist allt saman frekar fljótt,“ sagði Helena Rut Örvarsdóttir, landsliðskona í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið eftir að félagskipti hennar frá Byåsen í Noregi til Dijon í Frakklandi voru gerð opinber.

Helena gekk í raðir Byåsen sumarið 2017 frá uppeldisfélagi sínu Stjörnunni, en hún segir að mikið hafi gengið á hjá félaginu á þessu eina og hálfa ári. Þjálfarinn sem fékk hana til liðsins var rekinn eftir nokkra mánuði, sem hjálpaði ekki til við að aðlagast nýju liði í nýju landi.

„Ég var með þrjá mismunandi þjálfara á einu og hálfu ári og mér fannst ég ekki ná að bæta mig jafnmikið handboltalega og ég hefði viljað. Mér leið samt mjög vel þarna, var búin að koma mér vel fyrir og læra norskuna. En það var erfitt að fá alltaf nýja þjálfara, sem voru misgóðir, og þurfa að byrja allt upp á nýtt. Það var því ýmislegt í gangi sem gerði það að verkum að ég vildi fara, þótt það hafi ekki verið auðveld ákvörðun,“ sagði Helena.

Hún minnist á að styrktarþjálfunin í Noregi og umgjörðin hafi þó sérstaklega gert sér gott. „Ég hef lært mikið af því og held að ég hafi náð framförum með landsliðinu einmitt út af því.“

Var ekki spennt fyrst

Helena, sem er 24 ára gömul og á að baki 13 landsleiki, var með samning við Byåsen fram á sumar og flest benti til þess að hún myndi skipta um félag þá. Það sé hins vegar spennandi að skipta um félag á miðju tímabili og fara strax að spila. Helena var þó í fyrstu ekki alveg viss um að þetta væri rétt skref.

„Ég var ekkert mjög spennt fyrir þessu fyrst, aðallega eftir að hafa heyrt af lítilli enskukunnáttu og slíku sem getur verið mikið vandamál, en eftir að hafa heyrt í þjálfurunum var ég rólegri. Þeir voru líka búnir að skoða leiki með mér og sjá fyrir sér hvernig ég kæmi inn í hlutina hjá liðinu. Það hljómaði allt rosalega vel svo mér leist mjög vel á þetta og ákvað að stökkva,“ sagði Helena, en hún semur við félagið út leiktíðina með möguleika á framlengingu. Ákvörðun um það verður tekin í vor.

Dijon er í tíunda sæti af tólf liðum í efstu deild Frakklands. Liðið er fimm stigum frá neðsta sætinu, en aðeins eitt lið fellur. Fjögur stig eru svo upp í áttunda sætið sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni og þangað er stefnan sett.

Sjötta tungumálið

„Æfingarnar eru búnar að vera góðar og mér finnst vera mikill metnaður hérna. Þetta er frekar ungt lið og ég er mjög spennt að byrja að spila. Deildin hefur verið á uppleið síðustu ár og það eru meiri peningar hér en í Noregi. Toppliðin eru að gera góða hluti í Meistaradeildinni, svo deildin er mjög sterk og það verður gaman að fá að spila hérna. Þetta verður sjötta tungumálið hjá mér, en ég kann ekki neitt í frönskunni. Þetta verður krefjandi en spennandi,“ sagði Helena Rut Örvarsdóttir við Morgunblaðið.