Halldór Guðmundsson fæddist 16. september 1945. Hann lést 19. desember 2018.

Útför Halldórs fór fram 4. janúar 2019.

Ydda, smíða, lita, öll búum við til okkar eigin mynd, sjálfsmynd. Við hin sem horfum á yddum, smíðum og litum þá mynd sem við horfum á, hver með sínum skilningi og skilgreiningu á lífi og fegurð. Við viljum alltaf fegra allt okkur nákomnara fólk og ástvini, svo eðlilegt, vegna þess að þau skipta máli. Við horfum á sjálfsmyndina, yddum, smíðum og litum til að nálgast þá sem okkur þykir vænt um. Túlkandinn og áhorfandinn eru kannski ekki alveg sammála en sköpunin er á báða bóga. Það eru engar myndir fullkomnar, fullt af litlum örðum, illa frágengnum endum á bakhliðinni eða bara málað yfir. Það gerir sköpunarverkið.

Mín mynd af Halldóri er af ástríkum, skemmtilegum, gjafmildum, skapmiklum höfðingja, hún er falleg og geymist með þakklæti fyrir svo margt og mikið.

Takk kærlega fyrir mig.

Þetta á að vera kveðja, en eins og fjölskyldan er ég svo þrjósk og vil því ekki kveðja endanlega, heldur segja sjáumst seinna. Minningin lifir og orðstír deyr aldregi. Mínar innilegu samúðarkveðjur til Önnu, Kristins, Arnalds, systkinanna og fjölskyldu.

Rúna Þorkelsdóttir,

Amsterdam.