Brexit Theresa May forsætisráðherra á breska þinginu í gær.
Brexit Theresa May forsætisráðherra á breska þinginu í gær. — AFP
Leiðtogar Evrópusambandsins áréttuðu í gær að ekki kæmi til greina að breyta samningnum við bresku ríkisstjórnina um brexit eftir að neðri deild breska þingsins samþykkti tillögu um að stjórnin leitaði eftir breytingu á honum.

Leiðtogar Evrópusambandsins áréttuðu í gær að ekki kæmi til greina að breyta samningnum við bresku ríkisstjórnina um brexit eftir að neðri deild breska þingsins samþykkti tillögu um að stjórnin leitaði eftir breytingu á honum.

Samkvæmt tillögunni á ríkisstjórn Íhaldsflokksins, undir forystu Theresu May forsætisráðherra, að semja við ESB um að fella niður umdeilt samningsákvæði sem á að tryggja að ekki verði tekið upp eftirlit við landamæri Írska lýðveldisins og Norður-Írlands. Ákvæðið felur í sér að Norður-Írland verður í tollabandalagi Evrópusambandsins ef ekki næst samkomulag um annað í viðræðum um framtíðartengsl Bretlands við sambandið eftir brexit. Í tillögunni sem neðri deild þingsins samþykkti í fyrrakvöld er stjórn May veitt umboð til að semja um „annars konar fyrirkomulag“ til að tryggja að ekki þurfi að taka upp eftirlit við landamæri Írska lýðveldisins og Norður-Írlands. Tillagan er þó óljós og ekki kom fram hvers konar fyrirkomulag gæti komið í stað ákvæðisins umdeilda.

Theresa May sagði á þinginu í gær að hún vildi ræða við leiðtoga Evrópusambandsins um nokkra mögulega kosti sem gætu komið í stað ákvæðisins, meðal annars „gagnkvæma viðurkenningu“ á reglum og „tæknilegar lausnir“. Hún kvaðst einnig vilja ræða möguleikann á því að takmarka gildistíma ákvæðisins eða gera Bretlandi kleift að ógilda það einhliða, en leiðtogar Evrópusambandins hafa hafnað slíkum breytingum á samningnum.

May sagði að þingið fengi tækifæri til að greiða atkvæði 14. febrúar um hvað gera ætti ef ekki næst samkomulag í viðræðunum við ESB um breytingu á samningnum.