Konunglegt Jóakim Danaprins og eiginkona hans, Marie prinsessa, hyggja á flutning til Parísar.
Konunglegt Jóakim Danaprins og eiginkona hans, Marie prinsessa, hyggja á flutning til Parísar. — Ljósmynd/Kongehuset.dk/Kamilla Bryndum
Jóakim Danaprins, yngri sonur Margrétar Danadrottningar og Hinriks heitins Danaprins, flytur ásamt fjölskyldu sinni til Parísar í haust þar sem hann hyggst setjast á skólabekk og gangast undir herþjálfun.

Jóakim Danaprins, yngri sonur Margrétar Danadrottningar og Hinriks heitins Danaprins, flytur ásamt fjölskyldu sinni til Parísar í haust þar sem hann hyggst setjast á skólabekk og gangast undir herþjálfun.

Þetta var tilkynnt á vefsíðu dönsku hirðarinnar í gær. Þar segir að Jóakim, sem er foringi í danska hernum, hafi fengið boð frá franska varnarmálaráðherranum um að þiggja skólavist í franska herskólanum École Militaire í París en námið er ætlað þeim sem hafa þegar komist til nokkurra metorða innan hersins. Prinsinn fékk þetta boð í tengslum við opinbera heimsókn Frakklandsforseta til Danmerkur í fyrra.

Á vefsíðunni segir einnig að Jóakim verði fyrsti danski herforinginn sem fari í þetta nám, en 30 eru teknir inn í það á hverju ári. Flestir þátttakendurnir eru franskir en nokkrir koma frá samstarfsríkjum Frakklands. Námið verður stundað sex daga vikunnar og tekur eitt ár.

Jóakim fæddist árið 1969 og verður því fimmtugur í ár. Hann er giftur Marie prinsessu, sem er frönsk, og eiga þau börnin Hinrik og Athenu og einnig á prinsinn synina Nikolai og Felix af fyrra hjónabandi. Á vefsíðu hirðarinnar segir að þetta fyrirkomulag muni ekki hafa áhrif á starfsskyldur Jóakims og Marie.