Alfa Guðmundsdóttir fæddist hinn 31. janúar 1933. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Hömrum í Mosfellsbæ 8. janúar 2019.

Móðir Ölfu var Birna H. Þorsteinsdóttir, f. 23. janúar 1914, d. 29. maí 1985, og faðir hennar Guðmundur Maríusson, f. 14. desember 1912, d. 9. desember 1994.

Systir sammæðra var Sigrún Þórmundsdóttir, f. 2.1. 1935, d. 16. júní 1992. Systkini samfeðra: María Jónína, f. 1934, Gíslína Sigurbjörg, f. 1935, d. 2015, og Brynjólfur, f. 1937.

Alfa bjó sem barn og unglingur í Grafarholti í Mosfellsbæ en þar komu hún og móðir hennar til dvalar og myndaðist ævilöng vinátta milli þeirra og fjölskyldunnar í Grafarholti. Alfa og Guðrún Magdalena Birnir frá Grafarholti tengdust fóstursysturböndum og fléttaðist líf þeirra saman alla þeirra ævi.

Eiginmaður Ölfu var Ormur Ólafsson, f. 10. apríl 1918, d. 22. ágúst 2012, en þau gengu í hjónaband 17. október 1954. Synir Orms eru Ólafur, f. 1943, og Ágúst Þór, f. 1951. Ágúst Þór er kvæntur Ingibjörgu Kristinsdóttur og börn þeirra eru 1) Gunnlaugur Óskar, f. 9. jan. 1973, maki Anna Heiður Heiðarsdóttir, börn þeirra eru Kolbrún Birna, Jóhann Darri og Heiðrún Inga. 2) Sveinn Fjalar, f. 9. sept. 1977, maki Jóna Rún Gísladóttir, synir þeirra eru Róbert Sölvi, Bjarki Rafn og Gísli Freyr. 3) Sverrir Rafn, f. 10. sept. 1977, maki Hrefna Fanney Matthíasdóttir, börn þeirra eru Ágúst Þór, Freydís Sara og Gísli Freyr. 4) Freyja, f. 10. maí 1986, maki Tómas Þór Þorsteinsson, þeirra barn er Alfa Fanney.

Auk þess átti Alfa ömmustelpuna Ölfu Magdalenu Birnir, f. 24. febrúar 2004, móðir hennar er Jórunn Elídóttir, dóttir fóstursystur Ölfu sem dvaldi oft hjá Ölfu og Ormi gegnum árin.

Alfa lærði hárgreiðslu á Akureyri ung að árum og útskrifaðist úr Iðnskólanum á Akureyri 1952 og sinnti hún því starfi síðan heima og í heimahúsum þegar hún flutti aftur Reykjavíkur. Hún starfaði lengi á leðurverkstæðinu Víðimel 35 og eftir það á dvalarheimili aldraðra við Dalbraut. Alfa tók í áratugi mikinn þátt í störfum Kvæðamannafélagsins Iðunnar með Ormi og á síðari árum var hún einnig virk í kirkjustarfi Áskirkju í Reykjavík.

Alfa og Ormur bjuggu lengst af í Safamýri en eftir lát Orms flutti hún á Eirhamra í Mosfellsbæ og síðar á hjúkrunarheimilið á sama stað.

Alfa verður jarðsungin frá Seljakirkju í dag, 31. janúar 2019, og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku besta Alfa mín. Tilveran er mikið breytt án þín. Það er skrítið að vera ekki lengur að sinna því sem þú þurftir með og að eiga von á símtali sem oftar en ekki hin síðari ár var tilkynning um byltu eða annað áfall. Þau voru ófá skiptin sem þú brotnaðir og var ég þá eyrun þín í sjúkra- og læknisferðum. Ávallt reistir þú þig við og af óbilandi þrautseigju og kjarki náðirðu þér upp úr hverju áfallinu á fætur öðru. En nú kom það síðasta og þú varst tilbúin að yfirgefa þessa jarðvist, þetta var orðið gott og þú þráðir hvíldina. Ég mun minnast þín sem einnar fallegustu og bestu konu sem ég hef kynnst, ávallt tilbúin að rétta öðrum hjálparhönd og umhyggja þín fyrir fjölskyldunni var takmarkalaus.

Þú gafst af þér án skilyrða, hafðir upplyftandi áhrif á alla sem þú umgekkst og geislaði af þér sú innri gleði sem kom frá hjartanu og skein úr augunum, sem voru græn og þú sagðist sjá í myrkri.

Gústi fær ekki lengur grátsúkkulaði fyrir lánið á mér eftir bæjarstússið að versla í matinn eða allar afmælis- og jólagjafirnar sem var svo gaman að velja með þér. Þú hafðir svo næmt auga fyrir fegurð og svo smekkvís með allt hjá þér. Síðan var endað á því að setjast niður á veitingastað að gæða sér á kræsingum og hafa það huggulegt, því þú kunnir líka að njóta.

Ég vil þakka þér samfylgdina og þína nærandi samveru. Börnin mín hefðu ekki getað fengið betri ömmu. Og svo gaman að fylgjast með hve litlu langömmustýrin veittu þér mikla gleði. Megi almættið umvefja þig blessun og ljósi. Takk fyrir allt.

Þín tengdadóttir,

Ingibjörg (Inga).

Til ömmu.

Gekk ég dimmunni í

nóttin björt og þögul.

Á himninum sáust engin ský

en stjörnurnar skinu skært.

Ég settist niður á grasið

og horfði á himininn

margt var þar fallegt að sjá,

tunglið og stjörnuhrap.

Allt í einu sveif stjarna til mín

varð að skæru ljósi

ég vissi ekki að það var stjarnan þín,

en þú birtist mér.

Í fjólublárri blússu og með varalit

settist þú hjá mér.

Saman horfðum við upp til himna

en sögðum ekki neitt.

Svo sagðir þú mér frá staðnum

þar sem draumar rætast,

bentir út í blámann

og ég vissi að þér liði vel.

Við lögðumst niður og lokuðum augum,

þú tókst mig á fjarlæga staðinn.

Áttum þar gleðistund

og tíminn skipti engu máli.

Þegar ég fór til baka

komst þú ekki með.

Ég horfði upp

og sá stjörnuna þína á himninum.

Alfa Magdalena (Malla).

Vináttan er dýmæt gjöf og vináttan var það fyrsta sem Alfa og mamma mín gáfu hvor annarri þegar þær kynntust á barnsaldri í Grafarholti og þær tengdust upp frá því órjúfanlegum systraböndum sem aldrei bar skugga á. Þær voru hvor annarri stoð og stytta og þakklæti okkar fjölskyldunnar er mikið fyrir að hafa átt hana Ölfu okkar að.

Þegar ég var lítil stelpa krafðist ég þess að Alfa yrði önnur mamma mín og það var sjálfsagt vegna þess að hún var hreinlega ein besta manneskja sem ég þekkti og þar að auki verður að segjast að hún dekraði okkur systkinin töluvert.

Alfa var líka glæsileg kona með sitt svarta hár og grænu augu sem hún sagði vera augu kattarins og þess vegna sæi hún í myrkri, sem mér fannst auðvitað ævintýralegt. Alfa og mamma gátu spjallað um allt milli himins og jarðar tímunum saman og það var alltaf notalegt að sitja á eldhúsbekknum og fylgjast með þeim á meðan Alfa setti rúllur í hárið á mömmu með kaffi í bollum.

Það eru kannski þessar hlýju minningar frá daglegu lífi sem manni þykir vænst um að eiga.

Alfa átti mun auðveldara með að hjálpa öðrum en að þiggja aðstoð, hún talaði ávallt vel um um alla en lét sem hún heyrði ekki þegar henni sjálfri var hælt og henni þótti svo sannarlega sælla að gefa en þiggja.

Ég hef oft í gegnum árin hugsað hvað heimurinn væri miklu betri ef fleiri hefðu til að bera alla góðu eiginleika Ölfu. Ljúfar minningar fylgja okkur alla tíð og með þakklæti í hjarta kveðjum við elsku Ölfu.

Helga Elídóttir.