[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að verðbólgan í Venesúela hafi numið rúmlega 1,3 milljónum prósenta á liðnu ári og spáir því að hún aukist í tíu milljónir prósenta í ár.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að verðbólgan í Venesúela hafi numið rúmlega 1,3 milljónum prósenta á liðnu ári og spáir því að hún aukist í tíu milljónir prósenta í ár. Efnahagur Venesúela hefur hrunið í valdatíð Nicolás Maduros sem varð forseti landsins eftir að Hugo Chávez lést árið 2013, fjórtán árum eftir að sósíalistaleiðtoginn komst til valda. Efnahagshrunið hefur meðal annars valdið skorti á lífsnauðsynjum og að minnsta kosti 2,3 milljónir manna hafa flúið landið á síðustu árum. Mörg börn eru vannærð, ungbarnadauði hefur stóraukist og heilbrigðiskerfið er í lamasessi.

Venesúela býr yfir meiri ónýttum olíuforða en nokkurt annað land í heiminum og var eitt sinn auðugasta ríki Suður-Ameríku. Hugo Chávez hugðist gera það að draumalandi sósíalista þegar hann komst til valda árið 1999, meðal annars með þjóðnýtingu fyrirtækja.

Maduro hélt forsetaembættinu eftir kosningar í maí á liðnu ári en Bandaríkjastjórn, Evrópusambandið og Samtök Ameríkuríkja hafa ekki viðurkennt þær og sagt að þær hafi ekki verið lýðræðislegar. Meira en 20 lönd hafa lýst yfir stuðningi við Juan Guaidó, forseta þings Venesúela, sem lýsti sig forseta landsins eins og stjórnarskráin heimilar ef það er án lögmæts þjóðhöfðingja.

Maduro nýtur hins vegar stuðnings stjórnvalda í Kína, Rússlandi og nokkrum fleiri ríkjum. Þótt fram hafi komið vísbendingar um vaxandi óánægju meðal hermanna með stjórn sósíalista hefur hún haldið stuðningi yfirmanna hersins.

Óttast fangelsisdóma

Chávez var sjálfur herforingi og stofnaði byltingarhreyfingu innan hersins áður en hann komst til valda árið 1999. Eftir að hann varð forseti stóð hann fyrir pólitískri hreinsun í hernum og skipaði bandamenn sína í yfirstjórn hans til að tryggja að hann styddi sósíalistastjórnina. Hann launaði herforingjum hollustuna með því að skipa þá í valdastöður, meðal annars í ríkisstjórninni, stofnunum, bönkum og ríkisfyrirtækjum á borð við olíu- og gasfyrirtækið PDVSA. Þessu hefur fylgt mikil spilling því að herforingjarnir hafa notað valdastöður sínar til að skara eld að sinni köku og draga sér opinbert fé.

Maduro kom ekki úr hernum en fór að dæmi forvera síns og skipaði herforingja í valdastöður til að tryggja sér hollustu hersins. Til að mynda koma níu af 32 ráðherrum í stjórn hans úr hernum.

„Maduro reiðir sig á herinn og herforingjarnir reiða sig á forsetann, til að auðgast og komast hjá saksókn,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Luis Salamanca, prófessor í stjórnmálafræði í Venesúela.

Talið er að herforingjarnir séu tregir til að snúa baki við Maduro af ótta við að þeir verði sóttir til saka fyrir spillingu eða þátttöku í pólitísku kúguninni í landinu ef stjórn sósíalista fellur. Embættismenn Sameinuðu þjóðanna hafa sakað öryggissveitir í Venesúela um alvarleg mannréttindabrot og segja þær hafa tekið hundruð manna af lífi án dóms og laga undir því yfirskini að þær séu að berjast gegn glæpum. „Þeir óttast að ef stjórnin fellur dúsi þeir það sem eftir er ævinnar í fangelsi,“ hefur fréttavefur breska ríkisútvarpsins eftir Phil Gunson, sérfræðingi í stjórnmálum Venesúela við hugveituna International Crisis Group í Brussel.

Vill ekki forsetakosningar

Maduro sagðist í gær vera tilbúinn til viðræðna við stjórnarandstöðuna en sagði ekki koma til greina að efna til forsetakosninga. Hann kvaðst hins vegar vera hlynntur því að efnt yrði til þingkosninga. Sósíalistar misstu meirihluta á þinginu í síðustu kosningum árið 2016 en bandamenn þeirra í hæstarétti landsins hafa gert löggjafarvald þess óvirkt.