Sigríður Ingibjörg Þorgeirsdóttir fæddist 29. júlí 1937. Hún lést 28. desember 2018.

Útför Sigríðar fór fram 8. janúar 2019.

Sigríður Þorgeirsdóttir var kennarinn minn frá upphafi grunnskólagöngu minnar í Öldutúnsskóla árið 1972 og allt til loka sjötta bekkjar. Veran í skólastofunni hjá Sigríði er sveipuð hlýjum og björtum ljóma ljúfra minninga um kennara sem lét sér sérlega annt um nemendur sína, menntun þeirra og velferð.

Ég varð löngu síðar þess heiðurs aðnjótandi að fá að kenna með henni í sama skóla sem var einstök upplifun því þá sá ég að hún annaðist nemendur sína af sömu alúð og umhyggju og okkur sem vorum hjá henni áratugum fyrr. Og hún naut einstakrar virðingar og aðdáunar í skólanum sem ekki kom á óvart.

Ég fann sömu hlýju straumana fara um mig þegar við hittumst við kennslu og þegar ég mætti í skólann til hennar daglega alla skóladaga æskunnar. Sem dæmi um það hve vel mér hafði liðið í Öldutúnsskóla þessi fyrstu sex ár skólagöngunnar má nefna að þótt við fjölskyldan flyttum yfir í vesturbæinn, á Hraunbrún og bjuggum þá við hliðina á Víðistaðaskóla, kom aldrei neitt annað til greina í mínum huga en að halda áfram í Öldutúnsskóla. Og þá var ekki verið að skutla börnum hingað og þangað heldur var gengið alla þessa leið alla skóladaga og þaðan í tónlistarskólann og þaðan í íþróttahúsin, út og suður. En það skipti engu. Öldutúnsskóli skyldi það vera.

Sigríður var að mínu mati einstakur fræðari og hreinræktaður mannvinur – sannkölluð fyrirmynd og holdgervingur allra þeirra eiginleika sem prýða hinn fullkomna kennara. Hún lagði sérstaka rækt við móðurmálið og ég man að þar lágu leiðir okkar einstaklega þétt saman því ég hafði mikinn metnað fyrir þeim hluta námsins og ég trúi því að Sigríður hafi verið meðal helstu áhrifavalda minna varðandi ljóðagerð. Það er síðan algjörlega á mína ábyrgð hversu misjafnlega mér hefur tekist upp á þeim vettvangi.

Mig langar þess vegna að láta hér fylgja örlitla tilraun til þess að þakka Sigríði fyrir allar góðar stundir, nú þegar komið er að leiðarlokum, með nokkrum ljóðlínum sem urðu til þegar hún lét af störfum við Öldutúnsskóla eftir 54 ára starf þar árið 2015 og birt var í Fjarðarpóstinum af því tilefni. Það má í raun tileinka um leið öllum góðum kennurum eins og Sigríði sem skilja eftir sig fallegar og góðar minningar um vellíðan og fróðleiksfýsn sem fólk eins og hún vekur meðal nemenda sinna og leiðir af sér viljann til að breyta rétt og vera góður samfélagsþegn.

Þá fróðleiksþorsti fyllir ungar sálir

og fagrar vonir bærast létt í hjörtum:

Vaknar þráin eftir vinarljóðum

í verndarhjúpi ljúfum, sólarbjörtum.

Þar gleðin býr er glitra tærir vetur

og glæðist von um líf í fögrum heimi.

Er mótar gangan börn á menntavegi,

mildi kærleikans ei nokkur gleymi.

Svo dýrmæt þá er dásemd góðra kynna

og djúpt er snortið barn af námsins meiðum.

Við leiðarenda lifna þakkarskuldir

sem lífið allt með breytni okkar greiðum.

(JGR)

Með einlægri þökk fyrir allt og allt.

Jóhann Guðni Reynisson.