Ísland er nú aðeins tengt með tveimur fjarskiptasæstrengjum til Evrópu eftir að bilun varð í Greenland Connect-strengnum, en hann er eina tenging landsins vestur um haf.

Ísland er nú aðeins tengt með tveimur fjarskiptasæstrengjum til Evrópu eftir að bilun varð í Greenland Connect-strengnum, en hann er eina tenging landsins vestur um haf. Nokkur fyrirtæki og stofnanir kaupa sambönd á þessum streng og verða að nota varaleiðir um Evrópu. Á vef Farice, sem rekur íslensku sæstrengina til Evrópu, kemur fram að bilunin skerði fjarskiptaöryggi Íslands nú um stundir.

Austurleið Grænlands, sem liggur um Ísland, hefur verið biluð frá 27. desember. Bilunin er 624 kílómetra suður af Nuuk. Ekki er ljóst hvað veldur biluninni en hún varð ekki vegna fiskveiða, eins og algengt er. Erfitt hefur verið að fá viðgerðarskip og ekki er von á að hægt verði að gera við strenginn fyrr en í apríl í fyrsta lagi.

Annar strengur í sundur

Grænland er í aðalatriðum tengt umheiminum með einum sæstreng til Kanada og öðrum til Evrópu og fer hann um Ísland. Vesturhluti Grænlands tengist umheiminum um Kanada og austurhlutinn tengist Íslandi. Samskipti á milli svæðanna, á milli Qaqartoq og Nuuk, fara um radíókerfi sem hefur litla flutningsgetu og þjónar illa nútímanetnotkun.

21. janúar sl. slitnaði annar sæstrengur Tele Greenland, Greenland Connect North, sem liggur frá Nuuk upp vesturströndina. Talið er að togari hafi slitið hann við Sisimiut. Sömu vandamál eru með viðgerð. Fyrirtækið hefur ekki forgang að viðgerðarskipi og getur orðið bið eftir viðgerð.