Beiting samkeppnislaga nr. 44/2005 gengur að miklu leyti út á að koma í veg fyrir að fyrirtæki (mis)beiti efnahagslegum styrk sínum til skaða samkeppni og hagsmuni annarra fyrirtækja og neytenda. Þetta má skýrlega ráða af meginákvæðum samkeppnislaganna. Þannig kann samruni milli tveggja eða fleiri fyrirtækja að verða bannaður ef hann leiðir til umtalsverðar minnkunar á samkeppni, einkum með því að markaðsráðandi staða skapist eða styrkist. Eins leggur 10. gr. samkeppnislaga bann við samningum og samstilltum aðgerðum milli fyrirtækja sem eru til þess fallnar að raska samkeppni en við mat á þessu skiptir máli hvort umrædd fyrirtæki búa yfir efnahagslegum styrk í tilteknum mæli. Loks er misnotkun markaðsráðandi fyrirtækja á stöðu sinni bönnuð samkvæmt 11. gr. samkeppnislaga. Fyrirtæki telst markaðsráðandi ef það býr yfir svo miklum efnahagslegum styrk að það getur hegðað sér að verulegu leyti án tillits til viðskiptavina, keppinauta og neytenda.
Það er algengur misskilningur að einungis mjög stór og fjárhagslega öflug fyrirtæki geti talist búa yfir miklum efnahagslegum styrk. Mat á efnahagslegum styrk hvílir á því hvaða markaði fyrirtæki teljast starfa á. Ef markaður er skilgreindur með rúmum hætti er fyrirfram ólíklegt að önnur fyrirtæki en þau allra stærstu geti talist búa yfir verulegum efnahagslegum styrk á þeim markaði. En sé markaður skilgreindur þröngt, t.d. sem verslun með mjög sérhæfða vöru eða sem lítið og afmarkað landsvæði, geta lítil fyrirtæki með lága veltu talist búa yfir verulegum efnahagslegum styrk. Þau eru stórir fiskar í lítilli tjörn.
Markaður í skilningi samkeppnislaga er alltaf skilgreindur frá a.m.k. tveimur sjónarhornum. Annars vegar þarf að skilgreina markaðinn um þá vöru eða þjónustu sem um er að ræða. Vörumarkaður telst ná til vörunnar sem til athugunar er og allra vara sem geta talist staðgönguvörur hennar (einkum frá sjónarhóli neytenda/viðskiptavina). Mat á staðgöngu getur hins vegar reynst örðugt. Stundum er hægt að bera saman epli og appelsínur og stundum ekki. Samanburður á vörum, í þeim tilgangi að mæla staðgöngu, getur farið eftir nokkrum atriðum, t.d. verði vöru, eiginleikum hennar, hvernig til stendur að nota hana o.s.frv. Niðurstaða um staðgöngumat byggist yfirleitt á heildstæðu mati nokkurra þátta.
Hins vegar, þegar vörumarkaður hefur verið skilgreindur, þarf að finna það svæði þar sem samkeppni á sér stað um sölu á vörunni. Meginviðmið um skilgreiningu landfræðilegs markaðar er að hann taki til afmarkaðs landsvæðis þar sem samkeppnisskilyrði eru sambærileg. Við mat á þessu geta atriði á borð við gagnkvæmni í viðskiptum milli tveggja svæða, flutningskostnað, ferskleika o.fl. skipt máli.
Nefna má ýmis dæmi um niðurstöður markaðsskilgreininga úr réttarframkvæmd samkeppnismála hérlendis og erlendis. Í gömlu máli frá ESB voru bananar taldir lúta aðgreindum markaði frá öðrum ávöxtum vegna þess hve mjúkir og meðfærilegir þeir væru. Máli var talið skipta að banana væri hægt að stappa, ólíkt öðrum ávöxtum, og þeir því hentug fæða fyrir unga, aldna og sjúka. Eftir tilkomu matvinnsluvéla á flest heimili yrði niðurstaðan trúlega önnur í dag. Landfræðilegur markaður fyrir bókaútgáfu var í nýlegu máli Samkeppniseftirlitsins skilgreindur sem Ísland sem þýddi, ásamt með fleiru, að Amazon og aðrar risastórar netverslanir með bækur töldust ekki tilheyra markaðinum. Augljóslega leiddi af þessu að innlendir bókaútgefendur töldust búa yfir mun meiri styrk á markaðnum en ella hefði verið.
Rétt skilgreining markaðar skiptir höfuðmáli þegar meta þarf samkeppnisréttarleg álitaefni. Sé markaður skilgreindur of þröngt kann samkeppnislögum að vera ofbeitt, en vanbeitt sé markaðsskilgreiningin of rúm. Sömuleiðis þurfa fyrirtæki helst að gera sér bærilega grein fyrir þeim markaði sem þau teljast starfa á í skilningi samkeppnislaga, vilji þau hafa augun opin og vaðið fyrir neðan sig í markaðsfærslu sinni.