Efnilegust Berta Rut Harðardóttir var valin efnilegust í deildinni í fyrra.
Efnilegust Berta Rut Harðardóttir var valin efnilegust í deildinni í fyrra. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
14. umferð Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is „Við erum búnar að spila flottan bolta, þó það séu einstaka leikir inni á milli þar sem vantaði aðeins upp á.

14. umferð

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

„Við erum búnar að spila flottan bolta, þó það séu einstaka leikir inni á milli þar sem vantaði aðeins upp á. En þegar við spilum eins og við viljum gera þá getum við unnið öll liðin í þessari deild,“ sagði Berta Rut Harðardóttir, leikmaður Hauka, við Morgunblaðið en hún er í liði umferðarinnar að mati blaðsins eftir 14. umferð Olís-deildar kvenna í handknattleik.

Berta skoraði sjö mörk fyrir Hauka sem vann Stjörnuna á útivelli, 28:23, en Berta er næstmarkahæsti leikmaður Hauka á tímabilinu. Hún hefur skorað 62 mörk í 14 leikjum fyrir Haukaliðið sem er í þriðja sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir toppliði Vals. Haukar töpuðu fyrsta leik á nýju ári en hafa nú unnið þrjá leiki í röð eftir að deildin hafði verið í fríi frá því um miðjan nóvember.

„Þetta var heldur langt frí. Tímabilið var nýbyrjað og búin að vera landsliðspása líka. En við gerðum bara gott úr því og það er fínt fyrir þær sem eru að glíma við meiðsli að hafa tíma til að jafna sig. Okkur gekk vel fyrir áramót en þurftum bara að slípa saman það sem vantaði bæði í vörn og sókn. En liðsheildin er það góð hjá okkur að það vantaði aldrei mikið upp á,“ sagði Berta, en hún er aðeins 18 ára og var valin efnilegasti leikmaður deildarinnar í fyrra.

„Það var mjög skemmtileg viðurkenning eftir að hafa átt mjög gott tímabil. Þetta var fyrsta tímabilið mitt þar sem ég var með hlutverk í meistaraflokki og ég var ekki að búast við þeirri viðurkenningu, enda margir ungir leikmenn sem höfðu verið að spila vel. Þetta var mikil gulrót og ég vildi halda áfram núna því sem ég var að gera í fyrra.“

Enn aum eftir ljótt brot

Berta átti afar gott tímabil með Haukum í fyrra og skoraði 87 mörk í 21 leik þegar Haukar enduðu í fjórða sæti deildarinnar. Í fyrsta leik úrslitakeppninnar gegn Val síðastliðið vor meiddist hún hins vegar illa á rist eftir fólskulegt brot, þurfti í gips og spilaði ekki meira um vorið. Hún jafnaði sig í tæka tíð fyrir heimsmeistaramót U20 ára landsliða í sumar, en viðurkennir að hún sé enn að glíma við afleiðingar meiðslanna.

„Ég var ekki orðin nógu góð á HM, en gat alveg spilað og allt það. Ég var samt ennþá í veseni. Ég næ alveg að æfa á fullu núna, þetta er bara eitthvað sem þarf tíma til þess að jafna sig. Tími er ekki það sem maður hefur mest af samt og ég finn ennþá fyrir þessu, en það stoppar ekki minn leik,“ sagði Berta og þótt brotið sem hún varð fyrir hafi verið ljótt er hugarfar hennar til fyrirmyndar.

„Það er alltaf leiðinlegt að lenda í meiðslum en ég fékk bara tíma til þess að vinna í mér, var að lyfta og svoleiðis. Ég reyndi að nýta þennan tíma í aðra hluti, þó ég vilji alltaf vera að spila handbolta. Ég vissi alveg að ég myndi koma til baka og það heldur hausnum í lagi. Það hvatti mig að halda alltaf áfram, enda margir sem lenda í verri meiðslum þó þetta hafi verið erfitt. Ég hef ekki látið meiðslin stoppa mig heldur fer inn í alla leiki til þess að gera mitt besta.“

Stefnir langt í boltanum

Haukaliðið hefur úr að spila skemmtilegri blöndu leikmanna með reynsluboltum á borð við Ramune Pekarskyte og Mariu Pereira í bland við yngri leikmenn. Berta, sem er aðeins á sínu öðru ári sem lykilleikmaður í meistaraflokki, er mjög ánægð með hópinn.

„Þetta er rosalega flottur hópur með eldri reynsluboltum og svo yngri leikmönnum að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Það er gott að hafa svona blöndu. Okkar markmið er að fara í úrslitakeppni og berjast um alla titla sem eru í boði, enda erum við alveg með liðið til þess. Deildin er mjög jöfn, þú ferð aldrei inn í leik sem þú ert búin að vinna fyrir fram. Það má aldrei slaka á og það er mjög skemmtilegt,“ sagði Berta.

Þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára hefur Berta öðlast mikla reynslu þessi misseri með aðalliði Hauka, auk þess að spila með yngri landsliðum Íslands. Hún stefnir langt í íþróttinni.

„Það er alltaf mikill heiður að fá að spila í landsliðstreyjunni. Ég stefni út að gera eitthvað meira í handboltanum. Það er á mínu plani. Ég er í góðum höndum hjá Haukum, það er frábært lið sem er í kringum okkur. Ég vil verða ennþá betri og sjá hvernig það fer,“ sagði Berta Rut Harðardóttir við Morgunblaðið.