[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VIÐTAL Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Barnaleikritið Þitt eigið leikrit – Goðsaga , eftir leikarann og rithöfundinn Ævar Þór Benediktsson, verður frumsýnt í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu í dag kl. 18.

VIÐTAL

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Barnaleikritið Þitt eigið leikrit – Goðsaga , eftir leikarann og rithöfundinn Ævar Þór Benediktsson, verður frumsýnt í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu í dag kl. 18. Ævar hefur skrifað nokkrar bækur með því sérstaka sniði sem nú hefur verið fært á fjalirnar, að láta lesandann stýra framvindu sögunnar. Leikhúsgestir munu ráða hvað gerist næst og nota til þess sérhönnuð tæki. Möguleikarnir eru ótalmargir og því afar ólíklegt að sama sagan verði sögð tvær sýningar í röð en söguheimur verksins er norræn goðafræði með öllum sínum goðum, gyðjum og skaðræðisskepnum.

Samstillt átak

Að æfa og læra leikrit með ótalmörgum möguleikum í framvindu sögunnar hlýtur að vera afar snúið fyrir leikarana og til að átta sig á umfanginu þá tekur um sex klukkustundir að fara yfir allt verkið með öllum sínum mögulegu beygjum og snúningum, að sögn leikstjóra þess, Stefáns Halls Stefánssonar.

En hvernig er hægt að æfa leikrit með svo snúnu formi? „Með samheldni, í rauninni, þetta er bara samstillt átak allra þessara stórkostlegu listamanna sem koma að þessari sýningu,“ svarar Stefán Hallur.

„Í grunninn er þetta dálítið nýtt leikhúsform sem við erum að takast á við þannig að við höfum, að einhverju leyti, verið að finna upp hjólið hvað varðar verkferla. Einföld atriði eins og útlistun á æfingaboðum eru aðeins flóknari en gengur og gerist þegar möguleikarnir eru 1.294 sem þú ert að kljást við. Og við erum búin að læra afskaplega margt af þessu og þetta væri ekki hægt nema með samstilltu átaki frábærs fólks.“

–Þetta hlýtur að vera mjög mikill texti og efni fyrir leikarana að læra?

„Að einhverju leyti en það er aðallega út af möguleikunum, þeir vita í rauninni aldrei í hvaða ævintýri þeir munu lenda á hverri sýningu. Það er stóri óvissuþátturinn, í hvaða leikriti þau eru,“ segir Stefán Hallur sposkur.

Kveikir á fleiri perum

Leikstjórinn er spurður að því hvort verkið reyni á minni leikaranna með öðrum hætti en þeir eru vanir. „Ég myndi halda það, að þetta kveiki á fleiri perum en maður er vanur þegar maður er bara með eitt fyrirfram gefið stykki. Ég held að þetta kveiki á fleiri skilningarvitum,“ svarar hann.

–Hafa leikararnir farið óvart inn um rangar dyr á æfingum, ef þannig mætti að orði komast?

„Það á eftir að koma dálítið í ljós og ég fagna því ef það gerist. Þá er bara brugðist við því, ég fyrirgef fólki ýmislegt þegar kemur að því.“ –Þarf þá kannski að grípa til spuna?

„Að einhverju leyti en allir eru á tánum og 150% að bregðast við hverju því sem kemur upp á.“

Leikarar í verkinu eru fimm, þau Sólveig Arnarsdóttir, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Baldur Trausti Hreinsson, Hilmir Jensson og Snorri Engilbertsson. Stefán Hallur segir að auk leikaranna fimm komi 40-50 manns að uppfærslunni sem er augljóslega tæknilega flókin. „Öll galdratól leikhússins eru nýtt til hins ýtrasta og gott betur, til að skapa þessa ótalmörgu heima sem við erum að kljást við,“ segir hann.

Verkferlar í þróun

Stefán Hallur hefur áður leikstýrt barnaleikriti, Litla prinsinum árið 2015 í Þjóðleikhúsinu og er verk Ævars því annað barnaleikritið sem hann tekst á við og ætti að höfða til allra frá átta ára aldri og upp í 108, eins og Stefán Hallur orðar það.

En hvað hefur reynst honum erfiðast við uppfærsluna sem leikstjóra?

„Ég átta mig ekki alveg á því hvað það er,“ svarar hann. „Eftir að æfingaferlinu lýkur þarf að setjast niður og skrásetja þetta ferli frá a til ö, sjá hvað við lærðum, hvað við gerðum vel og hvar við rákum okkur á. Þetta eru verkferlar sem maður er ekki vanur og hefur þurft að þróa.“

Stefán Hallur segir að ef svipuð leikrit verði sett upp seinna meir, með mörgum mögulegum leiðum, verði gott að hafa handbók til að fara eftir. „En aðaláskorunin er þessi stóri heimur, hvernig maður útfærir hann og sem betur fer hef ég frábært fólk í kringum mig sem hjálpar mér við það. Ég er umsetinn góðu fólki hérna.“

Fjögur tákn í boði

Stefán Hallur er beðinn um að lýsa tækinu sem leikhúsgestir munu nota við valið. „Hvert sæti hefur sína fjarstýringu með fjórum valmöguleikum. Þetta eru ákveðin tákn sem við notum, ekki tölu- eða bókstafir, og á ákveðnum stöðum í verkinu eru áhorfendur spurðir að því hvað þeir vilji velja, allt frá aðalpersónu verksins yfir í að velja búning eða vopn eða í hvaða formi senan sem í hönd fer á að vera leikin, hvort hún eigi að vera leikin á þýsku eða íslensku. Svo bara blikka ljósin á fjarstýringunni og áhorfendur eiga valið,“ segir hann. Valið fer í gegnum tölvukerfi og svo fá gestir að vita hvað varð ofan á og þá í margvíslegu formi, að sögn leikstjórans, í ýmsum birtingarmyndum.

Alltaf jafnlöng

Stefán Hallur segist gríðarlega spenntur fyrir því að sjá viðbrögð leikhúsgesta við verkinu. „Það er oft talað um að áhorfandinn sé hinn óþekkti mótleikari en þarna er hann beinlínis áhrifavaldur,“ segir hann. „Við vitum ekkert í hvaða leikrit við erum að fara og sýningin verður alltaf jafnlöng, sama hvaða leið er valin,“ bætir Stefán Hallur við, „það eru spennandi hlutir að gerast hjá okkur.“

–Hvað stendur til að sýna verkið oft?

„Eins oft og áhorfendur krefjast,“ svarar leikstjórinn. „Ég held og vona að fólk eigi eftir að njóta sýningarinnar.“