Vefsíðan Hver hefur ekki einhvern tíma óskað sér að dagurinn væri bara örlítið lengri?

Vefsíðan

Hver hefur ekki einhvern tíma óskað sér að dagurinn væri bara örlítið lengri? Nokkrar klukkustundir í viðbót og það væri hægt að koma svo miklu í verk, verja meiri tíma með ástvinum, ellegar taka betur á því í líkamsræktinni til að uppskera stóra vöðva og mjótt mitti.

Hvað ef við þyrftum ekki að fórna 7-8 klukkustundum á dag á altari Hypnosar hvern einasta dag?

Vefsíðan Slumber Bear (www.slumberbear.co) er einmitt ætluð þeim sem vilja reyna að fjölga vökustundunum. Raunin er að það hentar ekki endilega öllum best að fara í háttinn síðla kvölds og vakna í morgunsárið, og mögulegt er að beita ákveðnum aðferðum til að hvílast vel en samt sofa minna.

Vefsíðan leiðbeinir notendum hvernig má sofa með mismunandi hætti og útbýr nokkurs konar svefnáætlun. Þannig mætti t.d. bæta ögn meiri tíma við daginn með 6 stunda svefni og 1,5 klst. miðdagslúr.

Annað svefnmynstur, sem sumir ráða hæglega við, er svonefnt „Everyman Cycle“ og felst í um 3,3 klst. svefni og þremur 20 mínútna blundum. Þeir allra hörðustu gætu viljað prófa það sem kallað er „Uberman Cycle“ sem felst í að blunda í 20 mínútur 6 sinnum yfir daginn. Gerir það aðeins 2 tíma af svefni og þá eru 22 tímar eftir af sólarhringnum til að vinna, læra og njóta lífsins. ai@mbl.is