Nú í vikunni var Þjóðminjasafninu afhent ljósmynd af svonefndum „fullveldisbörnum þjóðarinnar, 100 ára eða eldri“ sem komu saman í afmælisboð á dvalarheimili Hrafnistu á liðnu sumri til að fagna 100 ára afmæli fullveldis Íslands.

Nú í vikunni var Þjóðminjasafninu afhent ljósmynd af svonefndum „fullveldisbörnum þjóðarinnar, 100 ára eða eldri“ sem komu saman í afmælisboð á dvalarheimili Hrafnistu á liðnu sumri til að fagna 100 ára afmæli fullveldis Íslands. Aldrei áður í sögu þjóðarinnar hafa jafn margir landsmenn sem náð hafa hundrað ára aldri komið saman hér á landi svo vitað sé enda var stundin hátíðleg, segir í frétt frá Hrafnistu.

Í sumar voru alls 64 á Íslandi hundrað ára eða eldri á lífi hér á landi og rúmlega 20 af þeim sáu sér fært að koma í boðið á Hrafnistu. Þar á meðal var Jensína Andrésdóttir, sem varð 109 ára 10. nóvember síðastliðinn. Jensína býr á Hrafnistu í Reykjavík, en á Hrafnistuheimilunum sex eru átta íbúar sem komnir eru yfir öldina í aldri.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri Hálfdan Henrysson, formaður Sjómannadagsráðs, Sigrún Stefánsdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Laugarási, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, framkvæmdastjóri afmælisnefndar aldarafmælis fullveldis Íslands, og Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.