Ragna Jóhanna Ragnarsdóttir fæddist á Siglufirði 22. júlí 1943. Hún lést á Kanaríeyjum 14. janúar 2019.

Foreldrar Rögnu voru Ragnar Árnason, f. 2.10. 1921, d. 5.11. 1998, og Halla Hafliðadóttir, f. 1.5. 1924, d. 5.9. 2005. Ragna ólst upp hjá móðurömmu sinni og -afa, Jóhönnu Sigvaldadóttur og Hafliða Jónssyni á Siglufirði. Systkini Rögnu sammæðra eru Maríanna, f. 1948, og Guðmunda, f. 1956. Systkini samfeðra eru Sigurður Rúnar, f. 1949, d. 2019, Kolbrún Björk, f. 1954, og Svanhvít Björk, f. 1956.

Fimmtán ára gömul kynntist Ragna eftirlifandi eiginmanni sínum, Emil Helga Péturssyni. Þau hófu búskap 1960 og giftust árið 1963. Börn þeirra eru: 1) Jóhanna Sigríður, f. 6.9. 1961, hennar maður var Guðfinnur Georg Pálmason, f. 1961, d. 2017. Þau eiga saman tvo syni en fyrir átti Jóhanna einn son. 2) Björgvin Ragnar, f. 1963, kvæntur Lindu Jóhannesdóttur, f. 1968, þau eiga einn son hvort frá fyrri samböndum. 3) Hafliði, f. 1964, hann er í sambúð með Otgoo Badam, f. 1967. Hafliði á tvær dætur og tvo syni frá fyrri samböndum og fjögur barnabörn. 4) Þór, f. 1969, hann er kvæntur Árnýju Leifsdóttur, f. 1974, þau eiga tvo syni og eina dóttur.

Fjölskyldan flutti til Þorlákshafnar árið 1973 og hafa þau hjónin búið þar æ síðan. Ragna og Emil hafa síðustu ár haft vetursetu á Kanaríeyjum.

Ragna starfaði lengst af við verslun og var virkur félagi í Kvenfélagi Þorlákshafnar. Hún var einn af fyrstu starfsmönnum leikskólans í Þorlákshöfn en það var kvenfélagið sem stofnaði hann, þar var hún í átta ár. Í 22 ár starfaði hún í apótekinu í Þorlákshöfn en síðustu starfsárin var hún í fiskvinnslu.

Útför Rögnu fer fram frá Þorlákskirkju í Þorlákshöfn í dag, 31. janúar 2019, klukkan 14.

Það var fyrir rúmum tuttugu og tveimur árum sem ég hitti Röggu fyrst, konuna sem átti eftir að skipa svo stóran sess í lífi mínu. Við Þór sonur hennar höfðum verið að hittast í nokkra mánuði og þegar við loksins uppgötvuðum að við værum bæði Siglfirðingar var ekki hægt að bíða með það lengur að hitta verðandi tengdaforeldra. Ég var frekar feimin þegar ég gekk inn um þvottahúsdyrnar á húsinu á Selvogsbrautinni en komst fljótt að því að það var ástæðulaust, mér var tekið eins og týndu dótturinni af þeim hjónum og æ síðan hafa samskiptin verið á þann máta.

Sennilega hefur ekki skemmt fyrir að við áttum sameiginlegan bakgrunn og merkilega mikil tengsl miðað við fólk sem hafði aldrei áður hist og tengingin átti bara eftir að styrkjast.

Við Þór fluttumst til Þorlákshafnar vorið 2005. Á meðan við biðum eftir að fá húsnæði afhent bjuggum við Leifur, elsti sonur okkar, á heimili þeirra Röggu og Emils en Þór varð eftir í Hafnarfirði þar sem hann sótti vinnu. Þann tíma leið mér aldrei eins og ég væri boðflenna, gestur eða ókunnug, heldur eins og við værum fjölskylda.

Þau hjónin hafa ætíð síðan verið okkur innan handar við alla skapaða hluti.

Ragga var aldrei langt undan í stóru viðburðunum í lífi okkar fjölskyldunnar, hún var ásamt mömmu minni skírnarvottur þegar Leifur, elsti sonur okkar Þórs, var skírður, þær komu einnig báðar með mér að velja brúðarkjól fyrir brúðkaupið okkar, skírnarveisla Emils Hrafns var haldin á heimili þeirra hjóna og dóttir okkar, Sæunn Jóhanna, heitir í höfuðið á báðum ömmum sínum. Þá eru ótaldar allar máltíðirnar, utanlandsferðirnar, útilegurnar, spilakvöldin og spjallið við eldhúsborðið.

Ég get ekki minnst Röggu öðruvísi en að nefna þrjóskuna, þrjóskari manneskju hef ég nefnilega aldrei hitt. Ég veit ekki hvort þetta var meðfætt en það er alveg ljóst að það komu tímabil í lífi hennar þar sem þrjóskan gagnaðist henni betur en nokkuð annað, m.a. þegar Emil fékk heilablóðfall rúmlega fimmtugur. Ég er nokkuð sannfærð um að hún hafi átt stóran þátt í því hvað hann hefur náð góðum bata.

Ragga var samt ekki bara þrjósk, hún var líka afskaplega hlý og glaðlynd kona enda vinmörg með eindæmum.

Börnin mín eru svo heppin að eiga góðar minningar um ömmu sína sem sýndi þeim taumlausa umhyggju, passaði þau þegar hún gat og hughreysti ef á þurfti að halda. Ég á líka minningar um þau öll þar sem þau liggja utan í ömmu sinni og mala eins og kettir á meðan hún klórar þeim á bakinu.

Blessunarlega hafa þau öll erft eitthvað af þrjósku og sjálfstæði Röggu ekki síður en hjartahlýjuna.

Við Ragga vorum ekki alltaf sammála, sérstaklega þegar kom að dægurþrasinu, en í stóru málunum, því sem skiptir raunverulegu máli í lífinu, vorum við á sömu blaðsíðu í sömu línu. Hún var ekki bara tengdamóðir mín heldur líka vinkona sem ég sakna sárt.

Það er með trega sem ég kveð þessa góðu konu en samt fyrst og fremst með þakklæti.

Takk fyrir allt, Ragga mín, sjáumst hinum megin.

Árný Leifsdóttir.

Bernskuvinkona mín, Ragna Jóhanna Ragnarsdóttir, ólst upp hjá ömmu sinni Jóhönnu Sigvaldadóttur og Hafliða Jónssyni skipstjóra, sem báru hana á höndum sér. Í litla húsið á Laugarvegi 8 var alltaf jafn gott að koma og einstök gestrisni. „Stelpur mínar, gjörið svo vel að fá ykkur abbelsínur,“ sagði afinn, heppinn að ná í þennan sjaldséða ávöxt handa barnabarninu. Skildi svo ekkert í hlátrasköllunum sem hann fékk að launum. Og amman bakaði eftir pöntun, brúnu lagskiptu tertuna með hvíta kreminu.

Oft vorum við samtímis á sumrum hjá skyldmennum á Akureyri, Ragga hjá Ragnari föður sínum og konu hans á Hótel Akureyri, sem fjölskyldan rak. Sá Ragnar ekki sólina fyrir dóttur sinni. Tíu ára gömlum bauð hann okkur vinkonunum í ógleymanlega tjaldferð í Mývatnssveit. Syntum við lafhræddar í skuggalegu gjótunum við Grjótagjá, fórum í Dimmuborgir og út í Slútnes, ævintýraeyjuna gróskumiklu, sáum ótal sjaldgæfar fuglategundir á vatninu og borðuðum dásamlegan Mývatnssilung á hótelinu.

Rúmum tuttugu árum seinna gistum við sjö æskufélagar um verslunarmannahelgi á Hótel Akureyri. Vináttuböndin sem við bundumst veturinn '58 slitnuðu aldrei, og var eins og við hefðum hist í gær, gamla bus kompaníið, svokallaða. Gegndi Willys-jeppinn hans Þórhalls þar höfuðmáli og allar ferðirnar á honum, öll kvöld, jafnt í færð sem ófærð á vetrum, en skikkuð af foreldrum að halda okkur heima á aðfangadagskvöld, og fannst skítt. Nú hafa fjögur horfið sjónum um stund, Björgvin, Guðmundur (Muggi), Ragga og Þórhallur. Halldóra sem giftist Björgvini og Emil Helgi, eiginmaður Röggu, lifa maka sína.

Sjaldan hef ég séð ástfangnara og glæsilegra par en Röggu og Emil, bæði dökk yfirlitum og falleg. Kornung hófu þau búskap í kjallaraíbúð í Grænukinn í Hafnarfirði ásamt frumburði sínum, Jóhönnu Sigríði. Það var eins og Ragga hefði ekki gert annað en að sinna barnauppeldi og matseld, svo vel fórst henni hvort tveggja úr hendi. Liti ég inn að kvöldlagi var sú stutta steinsofnuð í vöggunni sinni og allt fágað og fínt. Ragga var bráðflink í höndunum, fékk 10 í handavinnu hjá fröken Arnfinnu, og undum við okkur við sameiginlegt áhugamál, hannyrðir. Og mikið gátum við hlegið. Þegar Emil kom heim eftir erilsaman dag á verkstæðinu við að sjá litlu fjölskyldunni farboða, brást ekki að sá góði drengur bauðst til að skutla mér heim í Eskihlíðina, þótt dauðþreyttur væri.

Vorið 1957 fermdust 76 skólasystkin í Siglufjarðarkirkju, samheldinn árgangur 1943. Síðast hittumst við haustið 2017 á Siglufirði í tilefni 60 ára afmælisins. Þeirra daga er nú gott að minnast.

Innilega samúð votta ég Emil Helga, börnum og öðrum ástvinum.

Ólöf Þórey Haraldsdóttir.

Það eru margar leiftrandi minningar sem leita á hugann nú þegar við kveðjum mæta og góða vinkonu til 50 ára. Ég kynntist Röggu þegar mennirnir okkar unnu á bifreiðaverkstæði Egils Vilhjálmssonar og við sem ungar konur með börn á svipuðum aldri heimsóttum hvor aðra og drukkum kaffi saman meðan börnin léku sér. Á verkstæðinu vann hópur ungra manna með mikla jeppadellu, voru því margar frístundirnar notaðar í ferðir inn á hálendi Íslands jafnt sumar sem vetur. Hugurinn fer ósjálfrátt í ferðalag aftur í tímann, strákarnir með höfuðið niðri í húddi á biluðum bíl og við stelpurnar sitjandi uppi í fjallshlíð, sungum hástöfum og kærðum okkur kollóttar þó einhver bíllinn væri óökufær eða þegar tjaldsúlurnar gleymdust heima og tjaldinu reddað með þvottakústum og skrúfjárnum. Þetta var góður hópur sem haldið hefur saman í 38 ár og hist að minnsta kosti einu sinni á ári. Helgin eftir þrettándann er frátekin fyrir þennan fögnuð.

Emil og Ragga voru á Kanarí og ekki með okkur nú síðast, við hringdum þó til þeirra svo þau vissu að þeirra væri sárt saknað, tveimur dögum seinna var Ragga farin.

Það duldist engum að til margra ára gekk Ragga ekki heil til skógar en ævinlega hress og kát og til í allt, aldrei kvartaði hún og ef við spurðum um líðan hennar var svarið „er bara fín, eða þetta er allt að koma“. Verst fannst henni þegar hún hætti að geta dansað, þau hjón dönsuðu mikið og voru einkar glæsileg á dansgólfinu svo eftir því var tekið.

Emil og Ragga voru einkar samrýnd, náin hönd í hönd á ævinnar vegi, saman nutu þau tilverunnar heima í Þorlákshöfn, í Þjórsárdalnum og síðast en ekki síst á eyjunni góðu, Gran Canaria, þar sem sól skín á himni allan ársins hring og allt iðar af lífi. Þar nutu þau sín vel í sólinni og hitanum.

Vinahópurinn er stór og allir voru velkomnir til Emils og Röggu, oft margt um manninn einkum þegar svalakórinn hittist og haldnar voru söngæfingar við mismikinn fögnuð nágrannanna.

Við hjónin dvöldum á Kanarí síðastliðið haust, þar áttum við margar og góðar stundir með Emil og Röggu, það eru okkur mætar minningar.

Við kveðjum góða vinkonu og þökkum samfylgdina.

Þangað til næst,

Birna og Þorgeir.