Skömmu fyrir áramót keypti verktakafyrirtækið Vinci meirihluta hlutafjár í Gatwick-flugvelli í Bretlandi. Nú hefur fyrirtækið augun á flugvöllum Parísarborgar, Orly og Charles de Gaulle.

Skömmu fyrir áramót keypti verktakafyrirtækið Vinci meirihluta hlutafjár í Gatwick-flugvelli í Bretlandi. Nú hefur fyrirtækið augun á flugvöllum Parísarborgar, Orly og Charles de Gaulle. Víða um heim hefur nefnilega sú stefna verið tekin að skattgreiðendur beri ekki allan þungann og alla áhættuna af uppbyggingu og rekstri þeirra innviða sem tryggja flugumferð milli landa og innan þeirra.

Þetta er ofarlega í huga Innherja nú þegar hann hefur rýnt í farþegaspá Isavia fyrir komandi ár en hún var kynnt með pompi og prakt á þriðjudagsmorgun. Samkvæmt spánni er nú gert ráð fyrir að 8,95 milljónir farþega fari um völlinn í ár en þeir voru 9,8 milljónir í fyrra. Það jafngildir 9% fækkun milli ára. Gangi spáin eftir með þessum hætti verður það í fyrsta sinn í manna minnum sem samdráttur verður í fjölda farþega sem um völlinn fara.

Á sama tíma og þessi miklu umskipti verða á rekstrarhorfum vallarins, sem að fullu og öllu leyti er í eigu ríkisins, standa enn óhögguð áform um að leggja 20 milljarða á ári í nýfjárfestingar á þessu ári, og næstu þrjú árin þar á eftir. Nemur heildarfjárfestingin skv. svörum samgönguráðherra alls 91 milljarði yfir tímabilið. Fjárfestingar þessar byggjast á áætlunum sem gera ráð fyrir áframhaldandi vexti og þessum áfanga framkvæmda við völlinn er ætlað að tryggja að hægt sé að taka við 14 til 15 milljónum farþega á ári hverju. Það eru 6 til 7 milljónum fleiri farþegar en líkur standa til að fara muni um völlinn í ár!

Uppbyggingaráformin eru sannarlega metnaðarfull og vonandi rætast spárnar. Geri þær það ekki, verður kannski við forsvarsmenn Isavia að sakast, en þeir munu ekki sitja uppi með svartapétur. Það munu aðeins skattgreiðendur gera. Mun nær væri að dreifa áhættunni af uppbyggingu og rekstri vallarins. Þar mætti líta til valla á borð við Kastrup, en kanadíski lífeyrissjóðurinn OTPP og danski lífeyrissjóðurinn ATP eiga 59,4% hlut í honum á móti danska ríkinu og öðrum fagfjárfestum. Það er betra að fá fleiri að borðinu sem annt er um þá fjármuni sem leggja þarf í skýjaborgirnar.