Jón Torfason
Jón Torfason
Eftir Jón Torfason: "Menningarborgin Reykjavík telur þessari arfleifð gerð best skil með því að koma þar fyrir kjallara lúxushótels."

Í hluta af elsta kirkjugarði Reykvíkinga, Víkurgarði, er fyrirhugað að byggja lúxushótel, en nýta vesturendann sem nokkurs konar anddyri fyrir hótelgestina. Fyrirtækið, sem ætlar að byggja hótelið, segist á heimasíðu sinni leggja mikla áherslu á „heritage“ (arfleifð) og menningartengda ferðaþjónustu. Út á við veifar borgarstjórnin í Reykjavík titlum á borð við „menningar- og bókmenntaborg“, ekki ósvipað og hótelkeðjan. Yfirvöld í Reykjavík hafa hins vegar lengi sýnt sögulegum minjum í Kvosinni og „gamla“ bænum lítinn sóma, þótt niðurrifið hafi verið nánast hömlulaust nú í byrjun þessarar aldar. Hervirkin í gamla kirkjugarðinum eru í samræmi við þessa auðnarstefnu. Hér skal hugað lítillega að örfáum brotum af þeim „menningararfi og minjum“ sem peningaöflin og borgarstjórn Reykjavíkur eru að skófla burtu þessa dagana.

Frá fyrstu tíð stóð kirkjan í garðinum nálægt því sem styttan af Skúla fógeta trónir nú og íbúar í sókninni voru sungnir hér til moldar um aldir. Þegar þéttbýli myndaðist á síðari hluta 18. aldar eftir stofnun Innréttinganna fjölgaði fólki og þar með greftrunum, urðu 10-20 ár hvert, þannig að brátt fór að þrengjast í kirkjugarðinum.

Snemma á 19. öld var garðurinn stækkaður til austurs í átt að Austurvelli, einmitt inn á þá spildu þar sem kjallari lúxushótelsins á að vera. Við úttekt árið 1825 mældist garðurinn 50 álnir á breidd en 82 álnir á lengd meðfram Kirkjustræti en þar var nýlega komin 12 álna löng viðbót. Mældist þannig 57-58 metra frá vestri til austurs.

Nú brá hins vegar svo við að sumir töldu að þessi viðbót hefði ekki verið vígð og vildu ekki láta sína nánustu hvíla í óvígðri mold. Þá var stiftamtmaður hér Pétur F. Hoppe. Hann var við jarðarför í lok maí 1828 og blöskraði umgengnin um garðinn, skrifaði Steingrími Jónssyni biskupi og benti m.a. á að lítið eða ekkert væri grafið í viðbótinni. Upp úr því var viðbótin vígð og mikið notuð enda er strax árið 1831 sagt að garðurinn sé nánast fullsetinn, ef svo má taka til orða.

Hoppe stiftamtmaður þótti ekki atkvæðamikill, en góðviljaður og hafa fáir háembættismenn, að minnsta kosti á síðari tímum, fengið jafn góð eftirmæli og þegar Jónas Hallgrímsson kvaddi hann við brottför árið eftir: „Þökk sér þér vinur, velgjörari... Heill far þú, Hoppe.“ Og nær lokum færist þjóðskáldið í aukana: „Líttu mót vestri, yfir ljósum tind Snæfellsstjörnu blika! Það er orðstír þinn, hvers aðalskin, bíður betri daga.“ Eitt síðasta verk stiftamtmannshjónanna áður en þau stigu á skipsfjöl var að fylgja til grafar ungum syni sínum, sem dó sjö vikna gamall og var jarðsettur 13. júlí 1829.

Árið áður var grafinn hér maður sem kemur líka nokkuð við íslenska bókmenntasögu þótt með óbeinum hætti sé, Lauritz Knudsen kaupmaður, en hann var faðir Knudsensystra, þar á meðal Kristjönu þeirrar sem varð skáldmær Jónasar Hallgrímssonar.

Sumarið 1831 varð sá voðaatburður að danskur kaupmaður skaut sig um borð í skipi sínu á höfninni. Áhöld voru um hvort hann ætti að hljóta leg í vígðum reit, en að fornu voru sjálfsmorðingjar urðaðir utangarðs. En nú bjarmaði af nýjum tímum og biskup og stiftamtmaður veittu leyfi til þess að maðurinn fengi kristilega útför. Hann hét Christian Bergum og má segja að legstaður hans gæti verið til minningar um vaxandi umburðarlyndi og víðsýni í samfélaginu, þ.e.a.s. ef þessum reit hefði ekki verið mokað burtu.

Árið 1836 lést merkur „ættfaðir“ margra Reykvíkinga, Guðmundur Bjarnason, sem átti heima í svonefndum Borgarabæ við Götuhúsastíg í Grjótaþorpi, sonarsonur hans var Guðmundur Þórðarson, einn fyrsti bæjarfulltrúinn úr alþýðustétt, en allt var þetta „ómengað Reykjavíkurfólk“, segir Klemens Jónsson í Sögu Reykjavíkur (I, bls. 175).

Snemma sumars 1834 barst hingað skæð kvefsótt og síðar hettusótt, segir í Árbókum Reykjavíkur, bls. 98. Þessa sá stað í kirkjugarðinum, því þetta ár voru 72 skráðir látnir í Reykjavík en yfir hásumarið létust um 50 manns. Hér hnigu saman til foldar ríkir og fátækir, fyrirmenn og flækingar, ungir og gamlir því dauðinn reiknar „það allt jafn fánýtt“, eins og séra Hallgrímur orðaði það. Suma daga voru jarðaðir 5-8 í einu og hugsanlegt að stundum hafi fleiri en einn farið í sömu kistuna.

Árið 1835 er jarðsett í þessum garði Sólveig Thorarensen, eiginkona Odds þess sem reisti apótekið austan við kirkjugarðinn, aðeins 34 ára að aldri. Síðar sama ár hlaut hinsta hvíldarstað hér Gunnlaugur Oddsson dómkirkjuprestur, sá sem vígði viðbótina árið 1828, og var plata á gröf hans eitt fárra minningarmarka sem voru í garðinum.

Hér hefur aðeins verið brugðið upp örfáum myndum úr sögu elsta kirkjugarðs Reykvíkinga. Svæðið í kring geymir líka forvitnilegar minjar frá fyrri tíð, sem tengjast sögu Reykjavíkur og þeirra kynslóða sem hlutu leg í þessum garði, en menningarborgin Reykjavík telur þessari arfleifð gerð best skil með því að koma þar fyrir kjallara lúxushótels í eigu manna sem virðast taka peningasjónarmið og stundarhagnað fram yfir flest annað.

Höfundur er skjalavörður. grenimelur31@simnet.is

Höf.: Jón Torfason