Þórunn Ólafsdóttir fæddist í Reykjavík 5. september 1927. Hún lést 24. janúar 2019.

Hún var dóttir hjónanna Ólafs Kristjánssonar frá Sveinseyri í Tálknafirði og Oddnýjar Sölvadóttur frá Kúgili í Þorvaldsdal, Eyjafirði.

Þórunn var þriðja elst af níu systkinum en auk þess tóku foreldrar hennar að sér fósturdóttur sem ólst upp eins og ein af systkinunum. Eru þau flest látin en eftir lifa Elísabet Kristín, Sigríður Helga og Kolbrún. Fimm ára fluttist hún til Patreksfjarðar með foreldrum sínum vegna atvinnu föður hennar. Nokkrum árum seinna fór Þórunn ásamt Kristjáni elsta bróður sínum í fóstur til afa síns og ömmu á Akureyri, þeirra Kristjáns Kristjánssonar og Þórunnar Jóhannesdóttur. Þar dvaldi hún fram yfir fermingu en flutti þá aftur vestur. Þegar Þórunn var 17 ára fór hún í heimsókn til frændfólks á Akureyri. Þar kynntist hún Sigfúsi Jónssyni, f. 19. júlí 1917, sem fæddur var og uppalinn í Eyjafirði og átti eftir að verða lífsförunautur hennar.

Veturinn 1945-'46 stundaði Þórunn nám við Kvennaskólann á Ísafirði en fór svo aftur til Akureyrar og giftust þau Sigfús 11. júlí 1946. Fyrstu árin bjuggu þau á Hrafnagili en fluttust 1949 til Akureyrar, fyrst í Aðalstræti 13 þar sem þau bjuggu í tvö ár en síðan í Hlíð ofan bæjarins og voru oft kennd við þann bæ. Börn þeirra urðu fjögur: 1) Ragnheiður, f. 1947, maki 1 Óttar Baldvinsson, skildu. Þeirra börn Þórunn, Sigfús, Úlfhildur og Snorri. Maki 2 Þorgeir Jóhannesson og eiga þau þrjár dætur, Kristínu, Hólmfríði og Jóhönnu. 2) Jón Ólafur, f. 1949, kvæntur Öldu Skarphéðinsdóttur og eiga þau fjögur börn, Sigfús, Hrafnhildi, Katrínu Ösp og Elísabetu Þórunni, auk þess sem Jón átti son áður, Þorstein Hlyn. 3) Kristján Þór, f. 1958, kvæntur Ágústu Magnúsdóttur og eiga þau einn son, Magnús Viðar, og auk þess á Kristján einn fósturson, Friðrik Þór. 4) Haukur, f. 1965, maki 1 Jónína Sverrisdóttir, skildu, þeirra dóttir er Sigurbjörg. Haukur er í sambúð með Díönu Björk Olsen sem á tvö börn frá fyrri sambúð.

Árið 1964 flutti fjölskyldan á Skólastíg 9. Þá hóf Þórunn störf við Gagnfræðaskóla Akureyrar þar sem hún vann til 66 ára aldurs.

Þórunn var virk í kórstarfi og söng meðal annars með kirkjukór Glæsibæjarhrepps og kór slysavarnafélagsins. Hinn 1. nóv. 1988 lést Sigfús skyndilega. Eftir það áfall fór heilsu Þórunnar að hraka og veiktist hún alvarlega árið 1992. Árið 1994 flutti Þórunn með Ragnheiði dóttur sinni og fjölskyldu hennar á Ásveg 25. Það sambýli stóð til ársins 2013 þegar Þórunn flutti á Dvalarheimilið Hlíð.

Útför Þórunnar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 31. janúar 2019, klukkan 13.30.

Elsku amma. Þá kom afi og sótti þig í hinsta sinn. Eftir sit ég í peysu af þér, nýt þess að finna ömmulyktina áður en hún dofnar og breytist í lykt af mér sjálfri. Ég kynntist aldrei honum afa, og amma á Króknum átti svo mörg barnabörn að oft fannst mér ég bara eiga þig.

Ég öfundaði vinkonur mínar fyrir að eiga margar ömmur og marga afa. Ég ímyndaði mér að eiga mörg sett af þér.

Ó hvað það hefði verið ljúft. En þar sem það varst bara þú, þá fékkst þú að fylla upp í svo stóran part af hjarta mínu. Þú fylltir upp í öll ömmu- og afahólf og í dag finnst mér ég hafa verið einstaklega heppin.

Ég var alltaf velkomin til þín og það var ótrúlega gott að geta kúrt uppi í hjá ömmu þegar ég vildi gista með frænkum mínum. Ég nefnilega var alveg óþolandi, vildi alls staðar gista, en þorði aldrei þegar á hólminn var komið, því var gott að skríða upp í ömmuholu.

Um nokkurra ára skeið urðum við eins konar „tvennutilboð“ á Bægisá. Það varla leið helgi sem við fórum ekki í sveitina til Hauks, Jónínu og Sigurbjargar Ástu. Þar fannst okkur svo gott að vera. Á sumrin gerðum við ýmislegt og nutum við Sigurbjörg þess að hafa alltaf ömmu með í liði. Það varð fastur liður að fá ömmukoss fyrir nóttina og ömmuknús á morgnana.

Á unglingsárunum eignuðumst við einstakt samband. Ég gat talað við þig um svo margt og leitað til þín með þau spil sem mér voru gefin. Þú sást til þess að mér liði vel, hringdir í mig og bauðst mér í kók og bleika glassúrtertu eða bragga. Það var svo gott að ræða við þig. Ég man að ég vildi fyrst ekki segja þér frá erfiðum hlutum, því ég vildi ekki leggja það á þig. En þú sagðir mér að þú vissir þegar eitthvað bjátaði á. Þá væri miklu betra að tala saman svo þú þyrftir ekki að fylla sjálf í eyðurnar. Það var alveg rétt hjá þér. Þú varst búin að lifa svo mörg ár og þekktir svo vel inn á lífið að þú varst með öll þau svör sem ég þurfti að heyra.

Amma, þú sagðir svo oft að pabbi minn væri með alla góða eiginleika afa. Þeir væru báðir alveg einstaklega góðir menn. Þar hafðir þú rangt fyrir þér. Allt það góða í pabba ert þú. Einlægnin, góðvildin og forvitnin kemur frá þér; þið pabbi eruð eins.

Ég er þakklát fyrir að við Svenni og strákarnir ákváðum að eyða síðasta aðfangadagskvöldi með þér, pabba og mömmu. Það er svo dýrmæt minning. Þú sagðir við mig að ég mætti sko vera stolt af strákunum mínum, þeir væru svo stilltir og prúðir.

Ég á eftir að sakna þín gríðarlega mikið og ég hefði viljað fá fleiri ár, fleiri knús og fleiri samtöl. En þótt ég hafi ekki verið tilbúin varst þú það svo sannarlega.

Þín ömmustelpa

Elísabet Þórunn (Ella Tóta).

Kæra fjölskylda.

Við erum hér saman komin til að kveðja kjarnakonu og eina mest gefandi sem ég hef kynnst. Ég man ekki eftir ömmu öðruvísi en á sífelldum þeytingi, hugandi að þörfum allra annarra en sjálfrar sín.

Jólaboðin frægu á Skólastíg 9 þar sem börn hennar, barnabörn og fleiri ættingjar hittust og áttu góða stund saman. Þessum stundum gleymi ég aldrei svo lengi sem ég hef einhvern til að minna mig á þær þegar ég verð orðinn gamall minnislaus karl.

Ég varði mörgum, mörgum mínútum hjá ömmu sem kjúklingur á meðan mamma lærði sjúkraliðann sem tók hana einnig margar, margar mínútur að læra og var það alveg magnaður tími þar sem amma kenndi mér margt nytsamlegt.

Við fórum snemma morguns í sundlaugina þar sem hún tók sinn sundsprett og kenndi mér svo fyrstu sundtökin. Eftir það var farið heim og fengið sér í svanginn en amma settist við eldhúsvaskinn og kveikti sér í rettu. Hún bakaði oft köku sem var smurð með glassúr sem mér þykir enn í dag ein sú besta sem ég fæ. Svo ef sól skein á svalirnar þá fékk ég stækkunarglerið hennar stóra lánað og brenndi gat á klósettpappír.

Amma gerði heiðarlega tilraun til að kenna mér að syngja og sungum við t.d. sönginn um hinn glaða söngvasvein og fleiri lög en ég hafði ekki hæfileikana með mér í sönglistinni, er svona rétt partífær en það er ekki henni að kenna. Það er einfaldlega ekki á allra færi að syngja þannig að fólk nenni að hlusta á mann.

Í stuttu máli sagt þá var amma þannig manneskja að hún setti sig ávallt í síðasta sæti, einstaklega hjartahlý og góð kona sem ég á eftir að sakna ákaflega mikið.

Að lokum viljum við í Horsens, Danaveldi, votta öllum nærstöddum samúð okkar.

Þinn

Snorri.

Elsku amma okkar. Við biðjum að heilsa afa sem þú hefur nú loksins fengið að hitta aftur eftir öll þessi ár. Við sendum ykkur þetta ljóð, Nú skil ég stráin, sem okkur finnst hæfa endurfundum ykkar vel. Takk fyrir allt.

Nú skil ég stráin, sem fönnin felur

og fann þeirra vetrarkvíða.

Þeir vita það best, sem vin sinn þrá,

hve vorsins er langt að bíða.

Að haustnóttum sá ég þig sigla burtu,

og svo kom hinn langi vetur.

Þótt vald hans sé mikið, veit ég þó,

að vorið, það má sín betur.

Minningin talar máli hins liðna,

og margt hefur hrunið til grunna ...

Þeir vita það best, hvað vetur er,

sem vorinu heitast unna.

En svo fór loksins að líða að vori

og leysa mjallir og klaka.

Ég fann, að þú varst að hugsa heim

og hlaust að koma til baka.

Þú hlýtur að vera á heimleið og koma

með heita og rjóða vanga,

því sólin guðar á gluggann minn,

og grasið er farið að anga.

(Davíð Stefánsson)

Göggu-börn,

Þórunn, Sigfús, Úlfhildur, Snorri, Kristín, Hólmfríður og Jóhanna.

Í dag kveð ég ástkæra frænku mína, hana Tótu. Hugur minn reikar aftur í tímann til barnæsku og minnist ég þess þegar við fjölskyldan heimsóttum Tótu frænku og Fúsa á Skólastíginn. Alltaf var gott að koma á hlýlegt heimili þeirra og vel tekið á móti okkur.

Ég minnist þess einnig þegar ég fór með mömmu í vinnuna en þær systur, Tóta og hún, unnu um tíma í Gagganum við þrif og þegar önnur var búin að þrífa sinn part þá hjálpaði hin við að klára og enduðu þær vinnuna sína saman, enda voru þær systur afar samrýndar.

Þegar móðir mín veiktist alvarlega þá stóð Tóta frænka eins og klettur við hlið hennar og flutti inn til hennar um tíma og sinnti mömmu af alúð. Fyrir það erum við systkinin afar þakklát.

Þegar Tóta frænka var komin á dvalarheimilið Hlíð þá heimsótti ég hana stundum og þá spjölluðum við saman og var fjölskyldan alltaf efst í huga hennar, börnin hennar, barnabörn og barnabarnabörn og svo börnin hennar Boggu systur. Hún vildi vita allt, hvað hver væri að gera og hvernig gengi. Stundum bauð ég frænku á sunnudagsrúnt og einn dag fórum við í ísrúnt til Dalvíkur.

Þegar við vorum komnar á Árskógsströndina þá sagði Tóta frænka mér frá ættingjum okkar sem bjuggu þar en amma Oddný var þaðan.

Þarna fræddist ég um ættina mína og heyrði frásagnir sem ég hafði ekki heyrt áður.

Tóta frænka var viskubrunnur, hún hafði mikinn áhuga á ættfræði og var oft gott að leita til hennar. Ekki er hægt að kveðja frænku án þess að minnast á glæsileika hennar en hún var alltaf svo fín, hlý og yndisleg og söngröddin hennar dásamleg en hún söng um tíma í kór Akureyrarkirkju .

Með hlýhug í hjarta þakka ég frænku fyrir allt.

Ástarfaðir himinhæða,

heyr þú barna þinna kvak,

enn í dag og alla daga

í þinn náðarfaðm mig tak.

Einn þú hefur allt í höndum,

öll þér kunn er þörfin mín,

ó, svo veit í alnægð þinni

einnig mér af ljósi þín.

Anda þinn lát æ mér stjórna,

auðsveipan gjör huga minn,

og á þinnar elsku vegum

inn mig leið í himin þinn.

(Steingrímur Thorsteinsson)

Hvíl í friði, elsku frænka.

Ættingjum og ástvinum Tótu frænku sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Emma Hulda Steinarsdóttir.

Elsku amma.

Fúsi afi hefur loksins komið og náð í þig þegar þú sofnaðir aðfaranótt fimmtudagsins, alveg eins og þú varst búin að tala um og óska þér.

Þú varst búin að bíða lengi eftir þessari stundu, í örugglega 20 ár hefur þú talað um að þú sért alveg að fara að deyja en náðir rúmlega 91 árs aldri. Þú elskaðir Fúsa þinn meira en allt og það var aldrei inni í myndinni að finna nýjan maka þótt þú hafir orðið ekkja rétt um sextugt. Nú eruð þið saman á ný.

Þú hafðir svo gaman af því að fylgjast með fólkinu þínu, spurðir um alla fjölskyldumeðlimi og vildir okkur allt það besta. Með hlýjum orðum hvattir þú okkur áfram og réttir fram hjálparhönd ef hallaði undan fæti. Hlynur fékk að búa hjá ykkur afa einn vetur og sá vetur rennur honum seint úr minni.

Þú varst brúin yfir bilið sem var á milli okkar alsystkinanna og Hlyns. Fyrir það verðum við ævinlega þakklát.

Það var alltaf gaman að segja þér fréttir af komandi erfingjum, brúðkaupum og þess háttar, þá sagðir þú alltaf: „Jæja, ég verð nú að tóra áfram til að geta séð nýjasta erfingjann“ eða „vera með í veislunni“.

Þú varst ávallt stórglæsileg og tilbúin mörgum klukkutímum áður. Þú lést þig að sjálfsögðu ekki vanta í brúðkaupið hjá Ellu Tótu og Svenna í sumar, þá að verða 91 árs og varst eins og drottning.

Þegar við systkinin fórum að ræða þessa minningargrein þá voru sumir hlutir sem komu strax upp í hugann, s.s. súkkulaðibraggi, bleik glassúrterta, örbylgjuostabrauð, við að koma með vini okkar til þín, forvitnin þín, áhugi á fólkinu þínu, söngur, jólin, sögurnar, stuðningurinn og hversu dásamleg amma þú varst.

Við gætum skrifað svo margt um þig og við munum sakna þín svo mikið.

Auðvitað erum við þakklát fyrir öll þau ár sem við fengum með þér en hver vill ekki eina heimsókn í viðbót, eitt samtal, eitt knús...?

Okkar kæra amma, takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir okkur, fyrir hreinskilin svör og endalausa ást. Við erum þakklát fyrir að hafa átt þig að. Við elskum þig og biðjum að heilsa afa.

Þorsteinn Hlynur, Sigfús, Hrafnhildur, Katrín Ösp og Elísabet Þórunn.