[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Uppgangur í atvinnulífinu hefur verið afar misjafn á einstökum svæðum landsins á árunum sem liðin eru frá hruni bankanna 2008.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Uppgangur í atvinnulífinu hefur verið afar misjafn á einstökum svæðum landsins á árunum sem liðin eru frá hruni bankanna 2008. Á þremur landsvæðum; Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra, óx framleiðsla meira en annars staðar. Hagvöxtur var 15-18% í þessum hlutum landsins á árunum 2008-2016, langt yfir landsmeðaltali sem var 10%.

Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu um hagvöxt landshluta 2008-2016 sem dr. Sigurður Jóhannesson hjá Hagfræðistofnun HÍ vann í samvinnu við þróunarsvið Byggðastofnunar.

Bent er á að meginskýringin á hagvexti á landinu 2008 til 2016 er vöxtur í þjónustugreinum; verslun, hótelum og veitingahúsum, samgöngum og fjarskiptum. „Allan hagvöxt á höfuðborgarsvæðinu frá 2008 til 2016 og mestallan vöxt á Suðurnesjum og á Suðurlandi má skýra með vexti í „ferðaþjónustugreinum“. Höfuðborgarsvæðið, Suðurnes og Suðurland verða líka fyrir mestu höggi ef bakslag verður í straumi ferðamanna hingað til lands – ef rétt er að tala um högg, því að íslenskur vinnumarkaður ræður illa við að sinna ferðamannafjöldanum núna og húsnæðismarkaður í höfuðborginni varla heldur. Undanfarin þrjú ár hafa útlendingar tekið að sér nær öll ný störf í veitinga- og gistihúsarekstri,“ segir í skýrslunni.

Næst á eftir ferðaþjónustu vex iðnaður mest hér á landi. Hann dafnar um allt land, en mestu skiptir vöxtur í iðnaði á Norðurlandi eystra.

Þegar sjónum er beint að einstökum landssvæðum kemur á daginn að framleiðsla jókst hvergi meira á landinu en á Suðurlandi frá 2008 til 2016, eða um 18%. Langmestur vöxtur þar hefur verið í verslun, gistingu, veitingum og flutningum og bendir Sigurður á að engin atvinnugrein á Suðurlandi hefur dregist saman að nokkru ráði frá 2008.

Á Suðurnesjum er það stóraukin umferð um Keflavíkurflugvöll sem skýrir hagvöxt í landshlutanum að langmestu leyti allt frá 2008 til 2016 en iðnaður og sjávarútvegur hefur einnig dafnað þar.

Í samantekt er vakin athygli á 11% vexti á Norðurlandi vestra, en þar óx framleiðsla lengi einna hægast á landinu. „Framleiðsla virðist vera á uppleið á Vestfjörðum síðustu árin, þótt hún sé ekki miklu meiri 2016 en 2008. Þess ber að gæta að þar hefur laxeldi aukist töluvert eftir 2016. Framleiðsla á Vesturlandi er ekki miklu meiri 2016 en 2008, en hún hefur aðeins tekið við sér seinustu árin. Á Austurlandi virðist framleiðsla fremur fara minnkandi eftir góðan vöxt fyrst eftir að álver tók til starfa í Reyðarfirði,“ segir í samantekt helstu niðurstaðna.

Fram kemur í úttektinni að þegar horft er á öll árin frá 2008 til 2016 megi sjá að í upphafi dróst framleiðsla meira saman á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni, en höfuðborgin sækir á með tímanum. Árið 2016 jókst framleiðsla um 8% á höfuðborgarsvæðinu, en um 5% utan þess.

Höfuðborgin togar enn til sín fólk. Fluttu t.d. að jafnaði tveimur til þremur hundruðum fleiri á ári frá Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum til höfuðborgarsvæðisins en í hina háttina en bent er á að straumurinn hefur heldur minnkað á síðari árum. Ekki missa þó allir landshlutar fólk til höfuðborgarinnar. 2016 og 2017 fluttu rúmlega þúsundi fleiri frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja og Suðurlands en hina leiðina.

Ljóst er af þessari úttekt að þjónustugreinar eru miklu sterkari á höfuðborgarsvæðinu en í byggðum landsins. Fram kemur að yfir 90% framleiðslu á höfuðborgarsvæðinu eru þjónusta af einhverju tagi, auk byggingarstarfsemi. Vörur eru aðeins rúm 8%. „Utan höfuðborgarsvæðisins eru vörur hins vegar um 35% af því sem framleitt er. Sjávarútvegur er þar víðast hvar 10-20% framleiðslunnar – en hann skiptir ekki miklu máli í atvinnulífi höfuðborgarinnar.“

Einstök svæði
» Hvergi á landinu er laxveiði jafnmikilvæg og á Vesturlandi og tekjur af stangveiðum taldar tæp 70% af hagnaði og launakostnaði í landbúnaði.
» Á Vestfjörðum var framleiðsla svipuð árið 2016 og á hrunárinu 2008.
» Rekstrarafkoma í sjávarútvegi á Norðurlandi eystra er með því besta sem gerist.
»M iðgildi atvinnutekna á mann í Fjarðabyggð var tæpum 30% yfir landsmeðaltali 2016.