Vatnsberi Áslaug Arna bar m.a. vatn úr einum af þeim vatnsbrunnum sem reistir hafa verið í Malaví fyrir tilstuðlan þróunarsamvinnu við Ísland.
Vatnsberi Áslaug Arna bar m.a. vatn úr einum af þeim vatnsbrunnum sem reistir hafa verið í Malaví fyrir tilstuðlan þróunarsamvinnu við Ísland.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Ferðin var fyrst og fremst tækifæri til þess að kynna sér það starf sem þarna fer fram og sjá þá uppbyggingu sem hefur skilað sér fyrir þá fjármuni sem Ísland hefur sent þangað síðustu ár,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, en hún og Logi Einarsson, annar varaformaður nefndarinnar, heimsóttu nýverið Malaví, annað af þeim tveimur ríkjum sem Ísland á í tvíhliða þróunarsamvinnu við.

Sviðsljós

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Ferðin var fyrst og fremst tækifæri til þess að kynna sér það starf sem þarna fer fram og sjá þá uppbyggingu sem hefur skilað sér fyrir þá fjármuni sem Ísland hefur sent þangað síðustu ár,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, en hún og Logi Einarsson, annar varaformaður nefndarinnar, heimsóttu nýverið Malaví, annað af þeim tveimur ríkjum sem Ísland á í tvíhliða þróunarsamvinnu við.

Þau Áslaug og Logi hófu ferðalag sitt í Lilongwe, höfuðborg Malaví, ásamt þingmönnum frá Svíþjóð og Danmörku, sem einnig hafa átt í þróunarsamvinnu við Malaví. „Við hittum þar ráðamenn, bæði heilbrigðisráðherra landsins og þingnefndir, einkum á heilbrigðissviðinu og fórum yfir þau verkefni sem þau samtök sem Ísland hefur verið í sambandi við hafa með höndum,“ segir Áslaug og nefnir þar sérstaklega UNICEF og samtökin Gavi, en þau hafa einkum sinnt bólusetningum.

Áslaug vekur athygli á því að nýlega hafi verið samþykkt að verja 120 milljónum króna til Gavi. „Með þeim fjármunum er hægt að bólusetja hundruð þúsunda barna í Malaví,“ segir Áslaug og bætir við að með samvinnu við stjórnvöld þar hafi tekist að bólusetja næstum níu af hverjum tíu börnum þar. Vonin sé að með viðbótarfjármagningu verði hægt að bólusetja fleiri.

Fólksfjölgun ógnar árangri

Áslaug segir stærstu áskorunina vera of mikla fólksfjölgun í Malaví, sem ógni þeim árangri sem náðst hafi í landinu. Hún bendir á að 51% af íbúum landsins sé 18 ára eða yngri, og að 45% þeirra barna sem fæðist í landinu fæðist móður sem er 18 ára eða yngri. „Þannig að barneignir of ungra kvenna, eiginlega barna, eru stórt vandamál.“ Á sama tíma taki þær oft mikinn þátt í erfiðisvinnu innan samfélagsins. Eitt markmiðið sé því að reyna að seinka barneignum kvenna í Malaví og gera þær að virkari þátttakendum í samfélaginu, en helmingur kvenna í landinu giftist fyrir 18 ára aldur.

Áslaug bætir við að þau hafi rætt ítarlega um jafnréttismál við ráðamenn í Malaví, en þau eru rauður þráður í allri utanríkisstefnu og þróunarsamvinnu Íslands. „Við reyndum að koma því til skila út frá sjónarmiði Íslands hversu mikinn árangur samfélög geta náð með jafnréttismálum, ekki síst í efnahagslegu tilliti,“ segir Áslaug.

Menntakerfið skiptir máli

Eftir ferðina til Lilongwe fóru Áslaug og Logi til Mangochi, en það er hérað í Malaví þar sem 1,2 milljónir manna búa. Þar stendur Ísland að byggðaþróunarverkefni í samvinnu við stjórnvöld í héraðinu, þar sem stuðlað er að ýmiskonar félagslegri uppbyggingu samfélagsins, ekki síst í menntakerfinu.

„Þar má nefna uppbyggingu tólf skóla í héraðinu, sem hýsa 25.000 börn, Þar er lögð áhersla á að allir nemendur komist fyrir innandyra, þar sem búið er að byggja húsnæði og kaupa námsgögn, auk þess sem við leggjum áherslu á að börnin fái að borða í upphafi skóladagsins, sem aftur gerir það líklegra að þau haldi áfram í skólanum.“

Áslaug segir að hún og Logi hafi heimsótt skóla sem Ísland kom fyrst að árið 2012, sem nú hýsir 2.000 börn. „Frá þeim tíma hefur fjölgað um næstum helming í skólanum, en það sem skiptir ekki síður máli er að brottfall úr skólanum hefur minnkað úr 25% í 5%.“ Áslaug bætir við að hluti af stuðningi Íslands felist í að mennta kennara sem fari svo á samning hjá skólanum í kjölfarið og þá taki Malaví við að borga þeim laun. „Þannig að í kjölfarið verður skólinn sjálfbær. Þegar við höfum lokið við uppbygginguna í þessum skóla þá getum við sleppt hendinni og farið kannski að gera nýjan skóla eða sinnt öðrum verkefnum.“

Áslaug segir það mikilvægt að treysta stoðir menntakerfisins í Malaví upp á framtíðina. „Við sáum þarna verulegan ávinning, þar sem börn sem höfðu verið að læra undir tré, án skólabóka, sjaldnast með menntaða kennara, og héldust illa í námi, þeirri stöðu hefur algjörlega verið snúið við.“

Kóleru eytt í héraðinu

Áslaug nefnir einnig að í Mangochi hafi Ísland komið að byggingu 550 vatnsbrunna, sem eru þá oft í nágrenni við skóla og heilbrigðisþjónustu. Einn árangurinn sem hlotist hefur af því átaki er að síðastliðin þrjú ár hefur ekki komið upp kólerutilfelli í héraðinu.

Þá hefur Ísland aðstoðað við að láta reisa fæðingarheimili og heilsugæslur fyrir konur og börn í héraðinu. „Það er stór þáttur í jafnréttisáherslunni okkar. Það fæðast mjög mörg börn, og við höfum reynt að draga úr dánartíðni meðal ungbarna og andláti kvenna af barnsförum.“ Þá hefur Ísland látið reisa fjölda fæðingarheimila svo að sú þjónusta sé nær konunum, sem annars þyrftu að fara um langan veg til að fæða börnin. „Svo erum við í þessari viku að opna stóra fæðingardeild sem getur sinnt öllum tilvikum, meðal annars með fullbúinni skurðstofu,“ segir Áslaug. Þá tekur Ísland þátt í að mennta heilbrigðisstarfsfólk sem starfi á heilsugæslunum. „Það var mjög gaman að sjá hversu mikla og góða þjónustu við erum að veita,“ segir Áslaug og bætir við að á því fæðingarheimili sem hún og Logi heimsóttu hafi átta börn fæðst daginn áður.

Sjálfbærni er markmiðið

Áslaug segir að það sem standi upp úr eftir ferðalagið hafi verið að sjá þau áhrif sem Ísland getur haft. „Eins og að sjá hvað hafi raunverulega verið byggt upp fyrir þá fjármuni sem við höfum varið í þróunarsamvinnu við Malaví, en hún nemur 11% af allri þróunarsamvinnu Íslands, og um leið að sjá hvernig þau verkefni geta orðið sjálfbær og hvernig við vinnum í nánu samstarfi við sveitarstjórnina, sem lærir um leið mikið á því samstarfi og hvernig eigi að standa að málum inn í framtíðina,“ segir Áslaug.

Hún segir sjálfbærnina skipta höfuðmáli í þessum efnum. „Það er mjög mikilvægt í allri samvinnu okkar við erlend ríki þar sem við getum gert stóra hluti þó við séum smá, eins og í Mangochi, að við horfum til framtíðar og að markmiðið sé að á endanum getum við sleppt hendinni og stuðlað að því að samfélagið beri sig sjálft.“