[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, segir fækkun flugfarþega og ferðamanna munu draga úr hagvexti. Þannig sé útlit fyrir samdrátt á fyrri hluta ársins. Þ.e.a.s. að hagvöxtur verði neikvæður. Á síðari hluta ársins sé hins vegar líklegt að þetta snúist við. Samt sem áður sé ekki útlit fyrir meira en 1-2% hagvöxt í ár en heildaráhrif ráðist m.a. af gengisþróun krónu.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, segir fækkun flugfarþega og ferðamanna munu draga úr hagvexti. Þannig sé útlit fyrir samdrátt á fyrri hluta ársins. Þ.e.a.s. að hagvöxtur verði neikvæður. Á síðari hluta ársins sé hins vegar líklegt að þetta snúist við. Samt sem áður sé ekki útlit fyrir meira en 1-2% hagvöxt í ár en heildaráhrif ráðist m.a. af gengisþróun krónu.

„Af því að samdrátturinn er svo skarpur fyrstu mánuði ársins er afar líklegt að það hafi samdráttaráhrif í landsframleiðslu þannig að við gætum lent í efnahagslægð. Alþjóðlega skilgreiningin á efnahagslægð er samdráttur tvo ársfjórðunga í röð,“ segir Yngvi.

Hann bendir á að samkvæmt nýrri farþegaspá Isavia muni farþegum fækka fyrstu þrjá mánuði ársins sé leiðrétt fyrir árstíðasveiflu en fjölga aftur í sumar. Þá muni farþegum hafa fækkað fimm mánuði í röð á sama grunni.

Spáir Isavia að erlendum ferðamönnum sem fara um Keflavíkurflugvöll muni fækka um 2,4% milli ára og heildarfjöldi farþega um völlinn dragast saman um 8,7%. Fyrra hlutfallið samsvarar 56 þúsund erlendum ferðamönnum og það síðara 850 þús. flugfarþegum.

Meiri líkur á meiri samdrætti

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Landsbankanum, telur meiri líkur en minni á að samdrátturinn verði meiri. Það sé mun líklegri niðurstaða en að farþegar verði fleiri en spáð er, þótt slíkt sé líka möguleiki. Það hafi enda aldrei verið jafn mikil óvissa um farþegaspá Isavia. Ástæðan sé óvissa um WOW air, ásamt því sem Icelandair sé í biðstöðu.

„Icelandair bíður næstu skrefa hjá WOW air og mun örugglega að einhverju leyti bregðast við þeim. Útlitið er nokkuð skýrt fram í febrúar, mars og apríl en þá er mesta fækkun farþega. Á því tímabili fækkar farþegaþotum WOW air og Icelandair verður ekki komið með nýju vélarnar. Félagið á von á sex nýjum þotum í ár sem byrja að koma með vorinu. Icelandair er eina flugfélagið sem eykur framboðið í ár. Spáin um flugumferðina er því háð því hvað Icelandair gerir, og hvernig þeim gengur, og svo auðvitað WOW air.“

Skapar svigrúm til verðhækkana

Sveinn bendir á að verð flugmiða í ár sé mikill óvissuþáttur í þessu efni.

„Þróunin muni ráðast af verði flugmiða. Mín skoðun er sú að ef Icelandair gæti setið eitt að framboðinu á vissum flugleiðum gæti félagið hækkað verð. Félagið mun leitast við að bæta afkomuna í gegnum verð. Slíkt mun koma Icelandair ágætlega en gæti fækkað ferðamönnum til landsins. Hvort það getur hækkað verð er svo annað mál,“ segir Sveinn.

Líklegt sé að hingað komi 2,2 milljónir erlendra ferðamanna með flugi í ár, jafnvel færri, borið saman við rúmar 2,3 milljónir í fyrra. Það yrði um 5% samdráttur. Sú fækkun komi samtímis auknu framboði á hótelgistingu í miðborginni og annarri þjónustu fyrir ferðamenn. Það sé álit margra að ferðaþjónustan verði í varnarbaráttu í ár. „Takist að halda fjöldanum í 2,2 milljónum ættu fjárfestingar á höfuðborgarsvæðinu að bera sig. Reksturinn gæti orðið þyngri úti á landi. Það eru vísbendingar um að Airbnb-gisting í Reykjavík sé að gefa eftir. Það ætti að hjálpa hótelunum. Ferðamenn gætu því leitað aftur í gömlu góðu hótelin. Ferðaþjónustan í heild ætti að spjara sig í ár. Það er ekki fyrr en ferðamönnum fækkar um tveggja stafa tölu sem þetta fer að verða verulegt áhyggjuefni.“

Mun skerða tekjur Isavia

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir aðspurður að samdráttur í fjölda farþega muni skerða tekjur Isavia.

„Á móti þeirri lækkun koma jákvæð áhrif af gengislækkun krónunnar enda er hluti notendagjaldskrár Keflavíkurflugvallar í evrum. Þó er ljóst að EBITDA-afkoma félagsins [hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta] mun lækka. Afkoman verður þó ásættanleg. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að hún muni eftir sem áður standa undir fyrirhuguðum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Samdrátturinn mun ekki hafa áhrif á uppbyggingaráform Keflavíkurflugvallar.

Eins og sakir standa gerum við ráð fyrir að uppbyggingaráformin verði óbreytt.“

Færri sumarstarfsmenn en í fyrra

Guðjón segir að vegna færri farþega gætu sumarstarfsmenn Isavia orðið eitthvað færri í sumar en ella. Síðasta sumar hafi verið um 400 sumarstarfsmenn hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli. Hjá Icelandair fengust þær upplýsingar að það verði að meðaltali um 3.500 stöðugildi hjá félaginu í ár, borið saman við 3.200 í fyrra.

Fyrirspurn var send til WOW air varðandi umsvifin í ár en henni var ekki svarað.

Fækkun gæti kælt fasteignamarkaðinn

Tölur Hagstofunnar benda til að færri gistinætur á höfuðborgarsvæðinu hafi selst á Airbnb-vefnum í fyrra en árið áður.

Elvar Orri Hreinsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir að ef farþegaspá Isavia rætist séu allar líkur á frekari samdrætti. Það geti aftur haft áhrif á fasteignaverð í miðborginni.

„Fækkun íbúða sem notaðar eru í skammtímaleigu gæti þýtt aukið framboð fyrir innlenda markaðinn. Það kæmi til með að kæla markaðinn enn frekar. Undanfarna mánuði hafa heyrst raddir um að framboð nýrra íbúða í miðborginni gæti orðið umfram eftirspurnina. Spurningin er hvort framboðið sé of mikið og of seint. Menn gætu farið að horfa til þess að tímasetja verkefnin í miðborginni betur. Að gæta sín á því að setja ekki of margar eignir á markað í einu,“ segir Elvar Orri sem telur þetta dæmi um mikil efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar.

Spáir meiri samdrætti en Isavia

Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, áætlar að 500 manns muni að jafnaði starfa hjá félaginu í ár. Það þjónustar um 20 flugfélög í Keflavík.

Félagið sagði upp 237 starfsmönnum fyrir áramót vegna endurskipulagningar hjá WOW air, stærsta viðskiptavini sínum. Um 156 starfsmenn voru síðan endurráðnir og fækkaði þeim því um 81.

„Stóra breytingin er WOW air. Við vorum með 700 starfsmenn sl.sumar en verðum með um það bil 500 í sumar. Það er u.þ.b. 30% fækkun,“ segir Sigþór.

Ör vöxtur félagsins

Með þessari fækkun munu álíka margir starfa hjá Airport Associates í sumar og sumarið 2016. Umsvif félagins í Keflavík hafa margfaldast á síðustu árum.

„Það er orðin mjög lítil sveifla í fjölda starfsmanna hjá okkur yfir árið. Skýringin er m.a. að sum flugfélög fækka ferðum yfir sumarið en auka framboðið yfir veturinn. Til dæmis er easyJet með um 200 flug á mánuði yfir veturinn en 65-68 flug yfir sumarið. WOW air heldur hins vegar sjó. Félagið eykur aðeins við framboðið yfir sumarið. Starfsemin verður því tiltölulega jöfn hjá okkur, a.m.k. í ár,“ segir Sigþór Kristinn.

Hann telur aðspurður að meira muni draga úr flugframboðinu í ár en Isavia áætlar í nýrri spá. „Ég held að niðurskurðurinn verði meiri en Isavia spáir en að flugið muni svo rétta mjög hratt úr kútnum. Ég held að strax árið 2020 verði flugumferðin í svipuðu horfi og í fyrra. Það er enda mjög líklegt að WOW air haldi þá áfram að vaxa. WOW air er stóra breytan í þessu núna. Tilfinning mín er sú að þótt nú sé tímabundin niðursveifla verði aukning í fluginu á næstu árum,“ segir Sigþór Kristinn.