Tæplega tvö þúsund einstaklingar voru atvinnulausir lengur en í hálft ár að jafnaði á seinasta ári.

Tæplega tvö þúsund einstaklingar voru atvinnulausir lengur en í hálft ár að jafnaði á seinasta ári. Fjölgaði nokkuð í þeim hópi frá árinu á undan og voru allir þeir sem höfðu verið lengur en 6 mánuði á atvinnuleysisskrá um 42% atvinnulausra á nýliðnu ári.

Þessar upplýsingar koma fram á nýbirtu yfirliti Vinnumálastofnunar yfir ástandið á vinnumarkaði allt seinasta ár.

4.283 að jafnaði án atvinnu

Alls voru 4.283 manns að meðaltali atvinnulausir hér á landi í fyrra, eða 2,4% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði. Þetta er lítilsháttar fjölgun atvinnulausra frá árinu á undan þegar 3.899 manns vour skráðir án atvinnu að meðaltali.

Atvinnuleysi karla jókst um 0,2 prósentustig í fyrra og mældist 2,2% en atvinnuleysi kvenna breyttist ekki milli ára. Það var 2,5%.

Meðalatvinnuleysi var mest á Suðurnesjum 3,2% og á höfuðborgarsvæðinu 2,5% árið 2018 en minnst á Norðurlandi vestra, 1,2% samkvæmt Vinnumálastofnun.

Fleiri ný atvinnuleyfi gefin út

Gefin voru út í fyrra samtals 705 ný tímabundin atvinnuleyfi samanborið við 690 á árinu 2017. ,,Auk þess voru á árinu 2018 gefin út 550 námsmannaleyfi og 58 þjónustusamningar.

Alls voru 1.107 útsendir starfsmenn (EES-fyrirtæki) skráðir í 115 fyrirtækjum á árinu 2018 en 1.825 útsendir starfsmenn (EES-fyrirtæki) í 125 fyrirtækjum árið 2017.

Alls voru 3.582 starfsmenn skráðir í 41 starfsmannaleigu árið 2018 en 3.205 starfsmenn í 36 starfsmannaleigum árið 2017,“ segir í samantekt Vinnumálastofnunar.

Fram hefur komið að á seinasta ári bárust Vinnumálastofnun 15 tilkynningar um hópuppsagnir alls 864 einstaklinga sem sagt var upp störfum. Fram kemur í samantekt Vinnumálastofnunar að í fyrra fengu 547 einstaklingar greitt úr Ábyrgðarsjóði launa en þeir höfðu verið 252 á árinu 2017.

,,Greiddar voru kröfur launamanna og lífeyrissjóða vegna alls 199 þrotabúa á árinu 2018 en 166 þrotabúa árið 2017.“ omfr@mbl.is