Sjaldgæft er í seinni tíð að efni eða þættir fjölmiðla fangi athygli svo margra að sá sundurleiti hópur sem Ísland byggir sameinist. Sú er þó raunin um Áramótaskaupið og Eurovision enda eru áhorfstölurnar í hæstu hæðum. Skaupið varð langt fram eftir janúar efniviður umræðna og skoðanaskipta um meintan skepnuskap og ófyndni. Þá er búið að kynna Íslandslögin í Eurovision og ekki klikkaði að strax eftir fyrsta þáttinn hrökk í gang fjörlegt fjas í fólki sem finnst lögin eftir atvikum góð eða vond og allt þar á milli.
Spennuþættirnir Ófærð sem sýndir eru á sunnudagskvöldum eru sömuleiðis dæmi um efni sem flestir horfa á og allir hafa meiningar um. Á kaffistofunni hér í Hádegismóum eru teknar rispur í rökræðu um hver sé sökudólgurinn og fastur í skafli ófærðar. Sumir segjast vera búnir að fatta plottið og aðrir segja sviðsmyndina og söguna ekki trúverðuga.
Hvað sem öllu þessu masi líður er kjarni málsins samt sá að skaupið, Eurovision og Ófærð eru þættir sem landinn sýnir eftirtekt og hefur skoðanir á. Munum að frjáls umræða er súrefni lýðræðisins. RÚV rokkar.
Sigurður Bogi Sævarsson