Bláa lónið hf. er metið á allt að 55 milljarða.
Bláa lónið hf. er metið á allt að 55 milljarða. — Ljósmynd/Garðar P. Vignisson
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Stærstu eigendur fjárfestingasjóðsins Horns II, sem á 49,45% hlut í félaginu Hvatningu, sem aftur á ríflega 39% hlut í Bláa lóninu hf., verjast allra frétta af því hvort þeir hyggist ganga inn í kauptilboð það sem félagið Kólfur gerði í hlut Horns í Bláa lóninu í nóvember síðastliðnum.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is
Stærstu eigendur fjárfestingasjóðsins Horns II, sem á 49,45% hlut í félaginu Hvatningu, sem aftur á ríflega 39% hlut í Bláa lóninu hf., verjast allra frétta af því hvort þeir hyggist ganga inn í kauptilboð það sem félagið Kólfur gerði í hlut Horns í Bláa lóninu í nóvember síðastliðnum.

Tilboðið sem um ræðir var gert af forsvarsmönnum Kólfs í aðdraganda þess að fyrirhugaður líftími fjárfestingasjóðsins Horns II rennur út á þessu ári. Langstærsti eigandi Kólfs, sem nú heldur á 50,55% hlut í Hvatningu, er Grímur Sæmundsen, forstjóri og stofnandi Bláa lónsins.

Samhliða tilboðinu sem Kólfur gerði í Bláa lónið var greint frá því að hluthafar Horns II gætu gengið inn í viðskiptin á sama verði og þau byggðust á og þar með leyst til sín hlut sinn í Hvatningu og gerst beinir hluthafar að félaginu. Frestur þessara aðila til að ganga inn í viðskiptin rennur út í dag.

Þegar tilkynnt var um tilboðið í haust var greint frá því að kaupverðið væri trúnaðarmál. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að til grundvallar tilboðinu liggi verðmat á Bláa lóninu sem hljóði upp á 50 milljarða króna. Það mat byggist á tveimur aðskildum verðmötum, öðru varfærnu upp á ríflega 45 milljarða en einnig verðmati stjórnenda fyrirtækisins sem hljóði upp á 55 milljarða króna.

ViðskiptaMogginn leitaði til stærstu hluthafa Horns II og spurði hvort ákvörðun lægi fyrir á þeirra vettvangi um hvort þeir hygðust halda í eignarhlut sinn í Bláa lóninu. Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður, sem hvor um sig halda á 18,17% hlut í Horni II, sögðu að ákvörðun lægi ekki fyrir um það að svo stöddu. Sömu sögu var að segja af Almenna lífeyrissjóðnum, sem heldur á 4,68% hlut, Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda sem á 5,85% og Frjálsa lífeyrissjóðnum sem fer með 3,22% hlut. Að sögn forsvarsmanna sjóðanna yrði ákvörðun tekin í dag.

ViðskiptaMogginn leitaði einnig til Landsbankans sem fer með 7,66% hlut í Horni II og spurði hvort bankinn hygðist halda í eignarhlut sinn í Bláa lóninu. Upplýsingafulltrúi bankans sagði ekki mögulegt að veita svör við spurningum blaðsins í gær. Þá var ekki mögulegt að fá svör frá tryggingafélaginu VÍS, sem heldur á 5,38% hlut í Horni II, hvort félagið hygðist ganga inn í kauptilboð Kólfs.

Í ársreikningi Horns II fyrir árið 2017 var hlutur sjóðsins í Hvatningu metinn á ríflega átta milljarða króna. Miðað við verðmatið sem liggur til grundvallar tilboðinu sem Kólfur gerir í hlutinn hefur hluturinn vaxið um nærri tvo milljarða á árinu 2018.