[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mig langaði að skoða hvernig við getum náð til hópa sem við erum ekki að tala við í dag. Einnig fannst mér mikilvægt að hrista upp í hlutunum með það að markmiði að endurnýja okkur.

Viðtal

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Við höfum að undanförnu haft það að leiðarljósi að opna Borgarleikhúsið enn frekar sem vettvang fyrir lifandi samtal. Í því samhengi má nefna flutninginn á Klausturupptökunum og #metoo-frásögnum kvenna sem og viðtöl við flóttafólk á Stóra sviðinu. Í raun má segja að við séum núna að taka þetta skrefi lengra og innleiða þetta skýrar,“ segir Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri um framtíðarsýn leikhússins sem hún kynnti nýverið á starfsmannafundi í Borgarleikhúsinu samhliða kynningu á komandi leikári.

„Breytt samfélag kallar á nýtt leikhús. Listrænt hlutverk okkar er að hreyfa við ólíkum hópum samfélagsins með því að spyrja spurninga, gagnrýna, vekja gleði og segja hið ósagða. Mig langaði að skoða hvernig við getum náð til hópa sem við erum ekki að tala við í dag. Einnig fannst mér mikilvægt að hrista upp í hlutunum með það að markmiði að endurnýja okkur,“ segir Kristín og bendir á að í mars séu fimm ár síðan hún tók við leikhússtjórastöðunni.

Framsækið alþýðlegt leikhús

„Þegar ég tók við settum við okkur ákveðin markmið sem okkur finnst við vera búin að ná. Í því ljósi er eðlilegt að skoða hvert við stefnum næst og hvernig við ætlum að endurnýja okkur út frá samfélaginu sem við erum að tala við. Ég er mjög spennt fyrir þeirri framtíðarsýn sem nú hefur verið mörkuð og held að þetta sé mjög mikilvægt skref.“ Innt eftir því hvaða markmið þegar hafi náðst nefnir Kristín að hún hafi sett sér það markmið að efla íslenska leikritun.

„Í því skyni var Hrafnhildur Hagalín sérstaklega ráðin til að vera ungum höfundum og höfundum í húsinu til ráðgjafar. Okkur langaði líka til að sviðsetja í auknum mæli heimildarleikhús líkt og við gerðum í Flóð . Svo var markmið hjá okkur að búa til sýningar sem væru í senn framsæknar og alþýðlegar, en Njála er gott dæmi um það. Þar tókst okkur að bjóða upp á mjög róttækt leikhús sem á sama tíma höfðaði til breiðs hóps og þroskaði um leið smekk áhorfenda. Mér finnst mjög spennnandi að vinna með blöndu framsækins og alþýðlegs leikhúss,“ segir Kristín og bendir á að áhorfendamet hafi verið sett í Borgarleikhúsinu fyrir þremur árum þegar 218 þúsund gestir komu í leikhúsið á einu ári. „Sýning ársins á Grímunni hefur síðustu fjögur árin verið í Borgarleikhúsinu,“ segir Kristín og bendir á að rekstrarniðurstaða Borgarleikhúsins hafi aldrei verið betri en síðustu tvö ár. „Staðan er því einstaklega góð og við viljum gera enn betur.

Dirfska, mennska og samtal

Við mótun framtíðarsýnar leikhússins fórum við í gegnum þau gildi sem við viljum standa fyrir, bæði inn á við gagnvart starfsfólki sem snýr að því hvernig við viljum vinna sem fagfólk, og út á við. Lykilorðin þar eru dirfska, mennska og samtal. Út frá því sprettur skýr sýn á það hvernig sýningar við viljum gera. Markmið okkar er að eiga opið samtal, nota margbreytilegar vinnuaðferðir og skapa afgerandi sýningar. Í framhaldinu skoðum við hvers konar verkefni og sýningar við getum búið til út frá þessum markmiðum. Við munum að sjálfsögðu halda áfram að búa til mjög fjölbreyttar sýningar á öllum sviðum, en með framtíðarsýn okkar erum við í raun að stækka rammann okkar. Leiðarljós okkar er að vera meira en leikhús. Við viljum vera í meira lifandi samtali við borgina, samfélagið og áhorfendur – ekki síst nú um stundir þegar við erum að upplifa stórar þjóðfélagslegar breytingar. Samfélagsgerðin er að breytast, sífellt fleiri eiga uppruna sinn í öðrum löndum en Íslandi. Við hljótum því að velta fyrir okkur hvernig við getum talað við þessa hópa og verið leikhúsið þeirra líka. Við hljótum líka að þurfa að takast á við öll stóru pólitísku málin eins og umhverfismálin,“ segir Kristín og tekur fram að framtíðarsýnin muni bæði hafa áhrif á hefðbundið verkefnaval auk þess að vera hrein viðbót við núverandi starfsemi.

Sjö hugmyndir af um fjörutíu til framkvæmda á næsta leikári

Að sögn Kristínar skilaði hugmyndavinnan innan leikhússins að undanförnu um fjörutíu tillögum. „Það er auðvitað miserfitt og miskostnaðarsamt að útfæra þessar hugmyndir þannig að við tökum þetta í nokkrum skrefum. Við reiknum með að sjö tillögur komist til framkvæmda þegar á næsta leikári og stefnum svo að því að innleiða fleiri á næstu árum,“ segir Kristín og bendir á að strax á næsta ári verði sýningar á Stóra sviðinu textaðar á ensku og pólsku. „Markmiðið er að fleiri eigi kost á að koma í leikhúsið og skilja það sem þar fer fram. Vonandi getum við líka textað allar sýningar á minni sviðum hússins frá og með þarnæsta leikári,“ segir Kristín og leggur áherslu á mikilvægi þess að leikhúsið sé fjölþjóðlegra og tali til fleiri hópa samfélagsins.

„Önnur hugmynd snýr að því að opna nýtt svið á þriðju hæð hússins sem við nefnum Umbúðalaust: Stúdíó Borgarleikhússins. Þar er ætlun okkar að gefa ungum leikskáldum, leikstjórum og leikhópum tækifæri til að setja upp sýningar með einfaldri umgjörð. Leikmyndin verður í algjöru lágmarki, enda markmiðið fremur að vinna með innihaldið en umbúðirnar. Þetta verður vettvangur fyrir rannsóknir og tilraunir. Þetta er líka vettvangur fyrir sviðshöfunda að stíga sín fyrstu skref,“ segir Kristín og bendir á að þátttakendur þurfi að vera yngri en 35 ára, en auglýst verður eftir umsóknum strax í næstu viku.

„Ráðgert er að þrjú til fjögur verkefni verði valin til sýningar á næsta leikári,“ segir Kristín og bindur vonir við að yngri áhorfendur skili sér á þessar sýningar, enda verði miðaverði stillt í hóf. „Þetta er því hrein viðbót við þá starfsemi sem hér er fyrir og hugsað sem nýtt krydd í flóruna. Það hefur vantað vettvang fyrir meiri tilraunir og tækifæri fyrir unga sviðshöfunda að spreyta sig.“

Leiksýning sem verði skúbb

Þriðja hugmyndin snýr að því að fá þekkta pólska leikara til að setja upp sýningu í leikhúsinu sem textuð yrði á íslensku. „Við erum í viðræðum um að fá hingað gestasýninguna Óskastundina í leikstjórn Yönu Ross,“ segir Kristín og vísar þar til leikgerðar Ross á Request concert eftir þýska leikskáldið Franz Xaver Kroetz sem upphaflega var sett upp á vegum leikhússins TR Warszawa. „Ég sá þessa sýningu á leiklistarhátíð fyrir nokkrum árum og hreifst af. Pólska leikkonan Danuta Stenka fer með eina hlutverkið í sýningunni,“ segir Kristín.

Fjórða nýjungin á komandi leikári felur í sér flutning fyrirlestra. „Andri Snær Magnason er að vinna að bók sem væntanleg er næsta haust. Þetta verður, líkt og Draumalandið , algjör bomba þegar bókin kemur út,“ segir Kristín og bendir á að margra ára rannsóknarvinna liggi að baki bókinni. „Andri Snær er að tala um loftslagsmálin og þær breytingar sem eru að verða í hafinu, en nálgast þetta á persónulegan og fallegan hátt,“ segir Kristín sem reiknar með að Andri Snær flytji fyrirlestur sinn einu sinni í viku fram eftir vetri.

Í fimmta lagi hyggst Borgarleikhúsið á næsta leikári vinna sýningu í samstarfi við rannsóknarblaðamann. „Við höfum verið í samtali og samstarfi við blaðamenn á Stundinni. Það er stór áskorun fyrir leikhúsið hvernig við getum tekið á málefnum líðandi stundar. Hugmyndin er að rannsaka tiltekið efni og setja upp sýningu sem inniheldur skúbb,“ segir Kristín og tekur fram að sýningin verði aðeins sýnd einu sinni.

Opna hugmyndagátt á vefnum

Í takt við þróunina erlendis ætlar Borgarleikhúsið að opna dyr sínar fyrir vinsælum íslenskum útvarpsþáttum og hlaðvörpum. „Við erum að sjá það erlendis að hlaðvörp eru í auknum mæli að færast inn á leiksviðið,“ segir Kristín og bendir á að sífellt aukin þörf sé fyrir ákveðið mótvægi við hraðann í samfélaginu. „Vera Illugadóttir ætlar að vinna sérstaka þætti af Í ljósi sögunnar sem einungis munu hljóma á sviði,“ segir Kristín og bendir á að Hallur Ingólfsson muni vinna hljóðmynd þáttarins sem flutt verði lifandi á sviðinu. „Þetta verða væntanlega fjórir til sex þættir til að byrja með einu sinni í viku,“ segir Kristín og tekur fram að þótt sjónræna umgjörðin verði í lágmarki verði sýningarnar engu að síður sjónrænt spennandi. „Samstarfið við RÚV fyrr í vetur gafst mjög vel,“ segir Kristín og vísar þar til flutnings heimildarverksins Með gat á hjartanu í laginu eins og Guð sem tekið var upp sem útvarpsleikrit á Nýja sviðinu. „Það er magnað að sitja í sal og upplifa raunverulegt samtal áhorfenda við leikarana.“

Síðasta nýjungin sem Borgarleikhúsið kynnir að sinni er sérstök hugmyndagátt leikhússins sem opnuð verður á vef Borgarleikhússins frá og með næsta hausti. „Markmiðið með hugmyndagáttinni er að fleiri, hvort heldur er innanhúss eða utan, eigi kost á því að koma inn með hugmyndir að sýningum, umfjöllunarefnum og leikritum.“