[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Einar Rafn Eiðsson , einn af lykilmönnum FH-liðsins í handbolta, verður frá keppni í átta til tíu vikur en hann gekkst í síðasta mánuði undir aðgerð í öxl.

* Einar Rafn Eiðsson , einn af lykilmönnum FH-liðsins í handbolta, verður frá keppni í átta til tíu vikur en hann gekkst í síðasta mánuði undir aðgerð í öxl. Leonharð Þorgeir Harðarson mun fylla skarð Einars á meðan en FH-ingar fengu hann að láni frá grönnum sínum í Haukum í síðustu viku. Hann hefur verið í láni hjá Gróttu á þessu tímabili.

*Spánverjinn Raúl Gonzalez er hættur sem þjálfari karlalandsliðs Makedóníu í handknattleik en hann hefur gegnt starfinu samhliða því að þjálfa stórlið París SG í Frakklandi. Handknattleikssamband Makedóníu skýrði frá þessu í gær en Ísland og Makedónía mætast í undankeppni EM 2020 og fara báðir leikirnir fram í apríl.

* Guðmundur Ágúst Kristjánsson , úr Golfklúbbi Reykjavíkur, skilaði glæsilegu skori á móti á Spáni sem er hluti af Gecko-mótaröðinni sem er lítil mótaröð fyrir atvinnukylfinga. Netmiðillinn Kylfingur.is greinir frá þessu og þar kemur fram að Guðmundur lék fyrsta hringinn á 65 höggum og var á sex undir pari vallarins. Skorkortið var skrautlegt því Guðmundur fékk einn örn á hringnum, sjö fugla, þrjá skolla og sjö pör.

*Ekki var farið rétt með niðurstöðuna í 4x200 m boðhlaupi karla á frjálsíþróttamóti Reykjavíkurleikanna í blaðinu í gær. Íslenska sveitin sem setti Íslandsmet vann ekki greinina, heldur hafnaði í öðru sæti á eftir sveit Bandaríkjanna. Í 4x200 m boðhlaupi kvenna vann hinsvegar sveit Íslands sigur á sveit Bandaríkjanna og setti líka Íslandsmet, 1:37,72 mínúta.

* Alfreð Finnbogason er leikmaður 20. umferðar í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu hjá þýska fótboltatímaritinu Kicker. Alfreð var maður leiksins þegar Augsburg vann 3:0 sigur gegn Mainz í deildinni á sunnudag en hann skoraði öll þrjú mörk sinna manna. Alfreð fékk 1 í einkunn fyrir leik sinn en það er hæsta einkunn sem Kicker gefur.