Gjafmildi Kristín Gunnarsdóttir sjónfræðingur ásamt þakklátum Tiroabúa sem öðlast hefur nýja sýn.
Gjafmildi Kristín Gunnarsdóttir sjónfræðingur ásamt þakklátum Tiroabúa sem öðlast hefur nýja sýn.
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is Kristín Gunnarsdóttir er sjónfræðingur sem unnið hefur lengstan hluta starfsævinnar í Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Kristín Gunnarsdóttir er sjónfræðingur sem unnið hefur lengstan hluta starfsævinnar í Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta. Hún ferðast um heiminn sem sjálfboðaliði, mælir sjón og útvegar gleraugu handa þeim sem ekki hafa tök á að því sjálfir.

„Þetta byrjaði allt í skemmtiferð til Kúbu 2005. Mér var sagt að vöruúrval væri lítið á Kúbu svo ég tók með mér slatta af lesgleraugum. Þar sem ég sat á veitingastað sá ég að gítarleikarinn á staðnum var með rammskökk gleraugu. Þegar hann var búinn að spila kom hann að borðinu til mín að selja disk og ég vildi fá að laga gleraugun hans, sem ég og gerði. Flautuleikari hljómsveitarinnar sagði mér að hann sæi varla orðið á nóturnar svo ég dró upp úr veskinu mínu lesgleraugu og lét hann máta,“ segir Kristín og bætir við að flautuleikarinn hafi æpt upp yfir sig: „Ég sé, ég sé!“

Kristín segir að á þeim tíma hafi verið hægt að fara í sjónmælingu á Kúbu, en mikill skortur hafi verið á sjónglerjum og efni í umgjarðir.

Að sögn Kristínar heillaðist hún af Kúbu. Hún fór í samstarf við Lions sem safnaði fyrir hana nokkur hundruð gleraugum sem hún fór með til Kúbu ári seinna, veifaði þeim á torgum og gaf.

„Ég lenti í smá vandræðum í tollinum og það tók nokkra daga að leysa öll gleraugun út. Ég ákvað í kjölfarið að ganga til liðs við rúmlega 1.000 manna sænsk samtök, Vision for all, sem fara sjö til níu sinnum á ári til Suður-Ameríku og Afríku að mæla sjón og útbýta notuðum gleraugum,“ segir Kristín sem bendir á að mikið starf liggi í því að hreinsa, mæla upp og merkja gleraugu áður en þau eru afhent.

Kristín hefur farið með gleraugu til Kúbu, Nepal, Síle og Páskaeyju. Á Páskaeyju sem er 164 ferkílómetrar búa fimm til sjö þúsund manns. Eyjarskeggjar eru frekar einangraðir, þar sem einu samgöngur þangað eru fimm klst. flug frá Santíagó einu sinni í viku.

Kristín sem er nýhætt að vinna ætlar að verja tíma sínum í áframhaldandi hjálparstörf og stefnir næst á Perú. Hún segist standa sjálf straum af öllum ferðunum en hafi fengið stuðning og velvilja hjá vinnuveitendum, Blindrafélaginu, Echo heildsölu sem gefið hafi les- og sólgleraugu, Lions sem hafi staðið fyrir söfnun á gleraugunum og Icelandair afhendi henni gleraugu sem gleymast í vélum félagsins og ekki hafi verið vitjað í lengri tíma.