Hönd í bolta! Bolti í hönd! Hversu oft hrópa menn þetta upp yfir sig í miðjum knattspyrnuleik? Inni á vellinum, uppi í stúkunni, á knæpunum og heima í stofu. Og deila svo um þetta dögum saman á eftir.

Hönd í bolta! Bolti í hönd! Hversu oft hrópa menn þetta upp yfir sig í miðjum knattspyrnuleik? Inni á vellinum, uppi í stúkunni, á knæpunum og heima í stofu. Og deila svo um þetta dögum saman á eftir.

Eitt af nýjustu dæmunum er þriðja mark argentínska stormsentersins Sergios Agüeros fyrir Manchester City gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Bernd Leno, markvörður Arsenal, sló þá knöttinn í olnbogann á framherjanum og þaðan hrökk hann í netið. Mark, sögðu sumir. Ómark, sögðu aðrir.

Víkverji er á því að markið hafi átt að standa, eins og það gerði. Agüero fékk boltann bara í sig og gerði enga tilraun til að stýra honum með hendinni. Þess vegna hefði verið strangt að refsa honum. Alltént hefði allt orðið vitlaust hefði varnarmaður fengið knöttinn með þessum hætti í olnbogann og víti verið dæmt.

Sjálfur spilar Víkverji innanhússfótbolta með tveimur hópum og þar er ekki síður deilt um hendi og ekki-hendi en á leikjum í Englandi. Í öðrum hópnum er hendi dæmd ef menn eru að stækka sig, hreyfa sumsé hönd eða hendur frá líkamanum. Séu þeir ekki að „stækka sig“ er látið kyrrt liggja.

Ekki svo að skilja að þetta leysi alltaf málið enda líta menn ekki alltaf sama atvikið sömu augum. Þá er deilt. Og sumir verða reiðari en aðrir. Enda réttlætiskenndin misjöfn. Og sjónin, ef út í það er farið.

Þess vegna getur verið best að hafa þetta eins og í hinum hópnum hans Víkverja, þá er alltaf dæmd hendi fari boltinn í hönd leikmanns. Alveg sama hvort hann er að „stækka sig“ eður ei. Án þess að vita það fyrir víst stafar þessi einfalda en á köflum ósanngjarna regla ugglaust af því að meirihluti leikmanna í hópnum er lögmenn. Það þýðir að verði skrúfað frá málflutningi, rökum með og á móti, í tilefni af því að boltinn fór (hugsanlega) í hönd leikmanns þá yrði ekki meira spyrnt þann daginn.