Jónas Elíasson
Jónas Elíasson
Eftir Jónas Elíasson: "Alþjóðasamningar og þrefið um loftslagsbreytingar hafa engu skilað. Engar raunhæfar aðgerðir sem breyta þessu eru til umræðu, CO 2 loftsins eykst bara."

Veröldin er að hlýna. Mælingar sýna hlýnun sem staðið hefur í töluverðan tíma. Hin almenna skoðun er að þetta sé manninum að kenna. Hlýnunin sé komin á hættulegt stig, almenn græðgi og sókn í alls konar óþarfa sé að auka kolsýruna (CO 2 , koltvíildi) svo mikið að hnattrænar hörmungar muni dynja yfir innan fárra áratuga ef fram heldur sem horfir.

Kolsýran í andrúmsloftinu eykst um 2 ppm (partar af milljón) á hverju ári. Þetta hefur legið fyrir í meira en hálfa öld. Alheimsráðstefnur í Kyoto 1997 og Kaupmannahöfn 2009 breyttu engu um það og Parísarráðstefnan 2015 gerir það ekki heldur. Churchill sagði um frækilega vörn breska flughersins gegn þeim þýska í orrustunni um Bretland 1940: „Sjaldan hafa jafn margir átt jafn fáum jafn mikið að þakka.“ Í sama stíl má segja um þessar ráðstefnur: Sjaldan hafa jafn margir talað jafn mikið til jafn lítils gagns.

Orsök hlýnunarinnar

Kolsýran býr til gróðurhúsaáhrif en loftrakinn og skýjafarið eru mun virkari. Sýna má fram á að hlýnunin eykur rakamagnið í loftinu og þar með aukast gróðurhúsaáhrifin enn frekar (positive feedback effect). Þetta gerist með aukinni hlýnun sjávar, sem enn er ekki komin fram að ráði. Þetta gæti endað með ósköpum og breytt jörðinni í hnött eins og Mars eða Venus. Jörðin var á svona leið fyrir 50-200 milljónum ára, en af einhverjum orsökum slapp hún. Í dag eru til spádómar sem ganga út á að við séum á þessari leið núna, hlýnun jarðar er nýjasta heimsendakenning spámanna loftslagsins og má vera að þeir haft meira til síns máls en eldri starfsbræður.

Loftslagsspámenn halda því fram að hlýnun jarðar umfram 1,5-2 gráður sé hættuleg, eftir það verði ekki við neitt ráðið. Mönnum til huggunar má benda á að heildargróðurhúsaáhrifin á meðalhita jarðar eru um 33 gráður, án þeirra væri jörðin óbyggileg. Gróðurhúsaáhrifin eins og þau eru á hverjum tíma sveiflast til með loftslaginu, sem er alltaf að breytast eins og lesa má úr loftslagssögu jarðarinnar. Að gróðurhúsaáhrifin megi ekki aukast nema um 5-6% hljómar ekki sennilega. En auðvitað á að stemma stigu við loftslagsbreytingum af mannavöldum. Nógu slæmt er veðrið samt.

En jörðin getur kólnað aftur eins og hún hefur alltaf gert og ný ísöld skollið á.

Útreikningar og spádómar

Er hægt að segja fyrir um hitastig og veður langt fram í tímann? Stutta svarið er nei. En meðalhiti jarðar er að hækka, ekkert sem bendir til að sú þróun sé að breytast svo auðvelt er að búa til reiknilíkön sem elta mælingarnar og nota þau til að spá um þróun hitastigsins fram í tímann. Þetta gera vísindamenn, og þessar reikniæfingar eru orðnar svo mikil íþrótt að í raun og veru má tala um loftslagsbreytingaiðnað.

Víða eru notuð hnattræn veðurlíkön sem geta innifalið geislunarferla sólarljóssins og áhrif þeirra á hitastig. Þessi líkön hafa verið þróuð áfram af vísindamönnunum sem standa að IPCC (Intergovernmental Panel of Climate Change) sem starfar undir Sameinuðu þjóðunum. Þeir birta niðurstöður sínar í svokölluðum „Assessment Reports“, þær skýrslur mála hnattræna hlýnun æ svartari litum eftir því sem fleiri koma.

En veðurfar er sterkt ólínulegt kerfi sem hvorki getur endurtekið sjálft sig eða staðið í stað eins og Jules Henri Poincaré og fleiri stærðfræðingar, sérfróðir um óreiðukerfi (kaótísk), hafa sýnt fram á. Að reikna út veðrið örugglega mjög langt fram í tímann er ekki hægt og verður aldrei hægt. Og það er ekki bara því að kenna hvað veðurkerfin eru eðlisfræðilega flókin.

Hvað er til ráða?

Minnka verður kolsýruframleiðsluna. Til þess eru ágætis meðöl sem hafa verið þekkt í 50 ár (EPRI: Technically feasible CO 2 reductions). Á árunum 2007-2012 voru fjórar áætlanir lagðar fyrir Bandaríkjaþing sem voru í samræmi við þetta. Ekkert af þeim hefur náð fram að ganga vegna sameinaðrar andstöðu hagsmunahópa í atvinnulífinu og umhverfisverndarsinna. Andstaða þessara síðarnefndu kemur e.t.v. á óvart, en EPRI-tillögurnar innihalda bæði kjarnorku og vatnsafl sem umhverfisverndarsinnar eru heitir á móti, sama hvar í heiminum borið er niður. Tillögurnar innihalda líka þær endurbætur á olíurafstöðvum að auka virkni þeirra í 40% eða meir, en umhverfisverndarsinnar eru ekki hrifnir af því heldur. Þessar tillögur hefðu dugað 2010, en gera það ekki í dag.

Evrópumenn hafa lítið rætt þetta á sínum þjóðþingum en verið þeim mun duglegri í Kyoto, Kaupmannahöfn og París og öðrum kjaftaþingum. Orsökin gæti verið að viðmiðunarárið í kolsýruútblæstri er 1990, og árangur talinn í breytingum frá því. Einmitt þetta ár lagði Evrópa niður kommúnisma, vestrænir tæknimenn komust í orkukerfin í Austur-Evrópu og gátu lagað þá óhóflegu mengun sem þaðan kom, aðallega vegna brennslu á surtarbrandi. Þróun kolsýrulosunar í Evrópu var því jákvæð, þ.e. minnkun fyrstu árin eftir 1990. Enn þann dag í dag er ekki alveg búið að hreinsa til eftir kommúnismann. T.d. er töluverð vinnsla á surtarbrandi ennþá í Slóvakíu.

Nánar þarf að fjalla um Ísland og pólitíkina, en verður ekki gert hér.

Höfundur er prófessor. jonaseliassonhi@gmail.com

Höf.: Jónas Elíasson