Vinur Cobie Smulders er í tveimur vinaþáttum.
Vinur Cobie Smulders er í tveimur vinaþáttum. — AFP
Það var merkilegt að lesa frétt um að Friends væri vinsælasti gamanþátturinn meðal barna og unglinga samkvæmt árlegri fjölmiðlakönnun Childwise í Bretlandi.

Það var merkilegt að lesa frétt um að Friends væri vinsælasti gamanþátturinn meðal barna og unglinga samkvæmt árlegri fjölmiðlakönnun Childwise í Bretlandi. Fæstir af þeim fimm til sextán ára krökkum sem voru spurðir álits í könnuninni voru fæddir þegar þátturinn var í loftinu í fyrsta sinn, á árunum 1994-2004. Helsti munurinn er að krakkar þá horfðu á vinina sex í beinni í sjónvarpinu en nú horfa þeir á þá í Netflix og mjög líklega í símanum. Ekki þarf heldur lengur að bíða viku eftir næsta þætti heldur er hægt að horfa á heilu þáttaraðirnar í beit.

Önnur þáttaröð af hinum stórskemmtilegu Friends from College er nýkomin inn á Netflix og tók ekki langan tíma að spæna hana upp. Þessir vinir eiga líka heima í New York. Þeir eiga í ansi flóknu sambandi hver við annan og eru stundum fastir í gamla háskólafarinu en þeir eru vinir frá því á námsárunum í Harvard. Eitt aðalhlutverkið er í höndum Cobie Smulders en hún er einnig í aðalhlutverki í öðrum langlífum vinaþáttum, How I Met Your Mother. Sögusviðið þar er líka New York. Vinátta, ástarlíf og stóra eplið virðast vera góð blanda fyrir sjónvarpsþátt.

Inga Rún Sigurðardóttir