Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Ríkisstjórnin þarf að stíga þarna inn af alvöru og þunga og skapa rými fyrir fyrirtækin til að gera þetta. Það þarf að skapa ákveðinn grunn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Ríkisstjórnin þarf að stíga þarna inn af alvöru og þunga og skapa rými fyrir fyrirtækin til að gera þetta. Það þarf að skapa ákveðinn grunn,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins. Fern heildarsamtök í atvinnulífinu, aðallega samtök matvælaframleiðenda, hafa sameinast um áherslur í matvælastefnu fyrir Ísland og kynntu forsætisráðherra og þremur öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar hugmyndir sínar í gær.

Samtök iðnaðarins, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök ferðaþjónustunnar og Bændasamtök Íslands hafa unnið saman að þessu verkefni. Vekja þau athygli á því að mikil tækifæri blasa við íslenskri matvælaframleiðslu á næstu árum og áratugum. Stefnumótun stjórnvalda þurfi að endurspegla þessi tækifæri og gera fyrirtækjum í matvælaframleiðslu kleift að nýta þau þjóðinni til heilla, stendur þar.

Undirstrika mikilvægið

„Við ákváðum að athuga hvort við gætum sameinast um áherslur á þessi sviði. Það tókst. Við viljum lyfta undir og undirstrika að okkur finnst þetta þýðingarmikið,“ segir Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. Hann vekur athygli á því að matvælaframleiðslan sé á starfssviði margra ráðuneyta. Nefnir að nú sé starfandi verkefnisstjórn á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um þetta efni.

Guðrún Hafsteinsdóttir segir að samtökin eigi sameiginlega snertifleti; sjálfbærni, öryggi og heilnæmi og verðmætasköpun. Þeir þurfi að rýma hver við annan. Hún segir að verkefnið hafi verið kynnt Samtökum verslunar og þjónustu og telur hugsanlegt að þau komi síðar að þessari vinnu eða fulltrúar neytenda.

Áhersla á gæði

„Íslenskir matvælaframleiðendur stefna að því að verða framúrskarandi á heimsvísu með sérstakri áherslu á sjálfbærni, umhverfisvernd, hreinleika, rekjanleika og öryggi,“ segir í sameiginlegri stefnu samtakanna.

Gæðakerfi og innra eftirlit matvælafyrirtækja, jafnt innlendra framleiðenda sem innflutningsfyrirtækja, þurfa að sýna fram á að þau starfi í samræmi við þessar áherslur. Lögð er áhersla á að innflutt matvæli þurfi að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til innlendra matvælaframleiðslufyrirtækja.

„Íslensk stjórnvöld munu styðja við framgang þessara stefnumiða og sjá til þess að íslenskir neytendur og gestir sem sækja landið heim hafi ávallt aðgang að fjölbreyttum og heilnæmum úrvalsmatvælum,“ segir einnig í tillögum samtakanna að matvælastefnu. Telja samtökin að þessi stefna geti mætt þeim áskorunum sem íslensk matvælaframleiðsla hefur búið við að undanförnu.