Gísli Magnússon fæddist á Eskifirði 5. febrúar 1929. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Gíslason, sýslumaður þar og síðar skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, f. 1884, d. 1970, og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 1897, d. 1965.

Gísli Magnússon fæddist á Eskifirði 5. febrúar 1929. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Gíslason, sýslumaður þar og síðar skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu, f. 1884, d. 1970, og Sigríður Jónsdóttir húsmóðir, f. 1897, d. 1965.

Gísli lauk burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1949 og einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Zürich í Sviss 1953. Hann stundaði framhaldsnám í Róm veturinn 1954-1955.

Gísli starfaði sem píanókennari í Reykjavík 1956-1972 og við Tónlistarskóla Garðabæjar frá 1969 til ársloka 1999 og var skólastjóri síðustu 15 árin.

Hann var um árabil einn mikilvirkasti píanóleikari þjóðarinnar og hélt einleikstónleika víða innan lands og utan; var einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands og tók þátt í kammertónlist af ýmsu tagi. Gísli lék einleik í frumflutningi nokkurra íslenskra píanókonserta og frumflutti mörg verk samin fyrir hann. Gísli var gestur á Listahátíðinni í Björgvin í Noregi 1977 og lék þar einleik í Píanókonsert Jóns Nordals.

Samstarf hans við Gunnar Kvaran sellóleikara var giftudrjúgt og fóru þeir tvívegis í tónleikaferðir; til Norðurlandanna árið 1974 og til Bandaríkjanna 1979. Gísli hélt einnig fjölda tónleika með Halldóri Haraldssyni píanóleikara.

Gísli var í stjórn Félags íslenskra tónlistarmanna 1965-1968, Félags tónlistarkennara 1978-1981 og Íslandsdeildar Evrópusambands píanókennara, EPTA, 1979-1995.

Árið 1955 kvæntist Gísli Þorgerði Þorgeirsdóttur húsmæðrakennara, f. 19.1. 1926, d. 27.11. 2015. Foreldrar hennar voru hjónin Þorgeir Þorsteinsson, bóndi á Hlemmiskeiði á Skeiðum, f. 1885, d. 1943 og Vilborg Jónsdóttir, kennari og húsfreyja, f. 1887, d. 1970. Börn þeirra eru Magnús stærðfræðingur, f. 1956, og Rósa myndlistarmaður, f. 1957.

Gísli lést 28. maí 2001.