Lífsgleði Erlingur hér með afastelpunni Klöru Elea Jansdóttur.
Lífsgleði Erlingur hér með afastelpunni Klöru Elea Jansdóttur.
Íslendingum vegna yfirleitt vel hér í Noregi. Aðstæður að minnsta kosti hér við vesturströndina eru um margt líkar því sem gerist heima á Íslandi, takturinn í mannlífinu svipaður og tungumálin svipuð.

Íslendingum vegna yfirleitt vel hér í Noregi. Aðstæður að minnsta kosti hér við vesturströndina eru um margt líkar því sem gerist heima á Íslandi, takturinn í mannlífinu svipaður og tungumálin svipuð. Í norskunni sem er töluð hér um slóðir eru mörg orð sem einnig bregður fyrir í íslenskum enda er ekki langt héðan á þær slóðir sem íslensku landnámsmennirnir komu frá,“ segir Erlingur Níelsson sem er 57 ára í dag. Hann býr með sínu fólki í þorpinu Seimsfoss sem er við Harðangursfjörðinn í Noregi og þar unir fjölskyldan sér vel.

Erlingur er Akureyringur að uppruna og fór um tvítugt til náms í liðsforingjaskóla hjálpræðishersins í Noregi og þar sköruðust leiðir þeirra Ann Marete Jakobsen. „Við fórum heim til Íslands og bjuggum þar í mörg ár. Þar starfaði ég lengi við fullorðinsfræðslu fatlaðra og á sumrin var ég fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu. Svo ákváðum við Ann að halda á heimaslóðir hennar, flytja til Noregs og taka nokkur ár þar. En við festum fljótt rætur í Noregi og erum ekkert á heimleið,“ segir Erlingur sem fyrstu árin ytra rak verslun, seldi harðfisk og stóð fyrir Íslandsferðum með Norðmenn. Fyrir nokkrum árum gerðist hann framkvæmdastjóri safnaða norsku kirkjunnar í Kvinnherad, á víðfeðmu svæði þar sem eru alls 13.000 íbúar og kirkjurnar alls tólf.

„Þetta er fjölbreytt starf og áhugavert og mér hefur líka alltaf fundist gefandi að taka þátt í kirkjustarfi,“ segir Erlingur. Þau Ann Marete eiga fjögur börn, þrjú tengdabörn og jafnmörg barnabörn – þrennt af hvoru. Svo stór hópur þarf líka pláss og þessa dagana er fjölskyldan að koma í stand einbýlishúsi sem þau keyptu á dögunum. „Afmælisdagurinn fer í málningarvinnu og ég hlakka til,“ segir Íslendingurinn í Seimsfoss. sbs@mbl.is