Á föstudag skrifaði Sigurlín Hermannsdóttir í Leirinn: „Þótt veður hafi verið fallegt og stillt hér sunnan heiða er víst von á umhleypingum. Þetta er líka árstíð allra veðra“: Okkur nærri nú er þorri nætur styttast sólin lætur.

Á föstudag skrifaði Sigurlín Hermannsdóttir í Leirinn: „Þótt veður hafi verið fallegt og stillt hér sunnan heiða er víst von á umhleypingum. Þetta er líka árstíð allra veðra“:

Okkur nærri nú er þorri

nætur styttast sólin lætur.

Býður allmörg, hátt með hvelli,

hríðarveðrin, þessi tíðin.

Fornar dyggðir fólkið gjarnan

finnur sér í matarkynning.

Vinsælt þema þjappar saman;

þorra að blóta á slíkum mótum.

Ólafur Stefánsson er garðyrkjubóndi svo að eðlilegt er að nýjustu tíðindi úr borginni veki áhuga hans og því segir hann á Leir: „Það verður ekki vandi að lifa af slappa hitaveitu í Reykjavík þegar pálmarnir eru komnir“:

Í kælunni krassar og bítur,

er kominn með hósta og snýtur,

þá svíf ég í anda

til suðrænna stranda,

með sólskin og senjorítur.

Við þessu brást Ármann Þorgrímsson:

Freistingar Óla þó ögri

og undir þeim líkaminn skjögri,

ekkert er falt

allstaðar kalt

andinn er bara á flögri.

Kristján Eiríksson skrifaði: „Pálminn er afskaplega fagurt tré og full ástæða til að skreyta með honum garða borgarinnar og torg enda hafa menn lengi látið heita eftir honum bæði menn og daga á landi voru saman ber þessa gömlu vísu:

Víst pálminn læknar pínu og sorg,

pálminn hár og fagur,

svo pálmum okkar prýðir borg,

Pálmasunnu-Dagur.

Magnús frá Sveinsstöðum orti:

Ofurmenni ýmis sé,

á þá benda má.

Þeim passa betur pálmatré,

en pínulítil strá

Ingólfur Ómar botnaði:

Óráðsíu ekkert tálmar

ennþá bruðlað er með fé.

Ætla mætti að hann Hjálmar

hengdur verði upp í tré.

Sigmundur Magnússon sendi „Ylboð“ með hlýrri kveðju á föstudag:

Lama þanka vetrar völd,

vorsins sílar þráin.

Nístir úti nóttin köld

norpa héluð stráin.

Frýs nú víða foldarból,

fjötur sárra kennda.

Þeim, sem ekkert eiga skjól

ylhjúp vil nú senda.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is