Alfa Guðmundsdóttir fæddist 31. janúar 1933. Hún lést 8. janúar 2019.

Alfa var jarðsungin 31. janúar 2019.

Fyrst man ég eftir Ölfu Guðmundsdóttur í Keflavík þegar ég var tólf ára og var á heimili Guðrúnar Ólafsdóttur og Björgvins Þorsteinssonar. Það var um miðjan sjötta áratug tuttugustu aldarinnar, Alfa vann þá í efnalaug Skafta Friðfinnssonar. Þar starfaði afi, nafni minn Ólafur Ormsson. Í efnalauginni hitti pabbi, Ormur Ólafsson, verðandi eiginkonu Ölfu Guðmundsdóttur. Líklega verið ást við fyrstu sýn og ekki leið á löngu þar til þau gengu í hjónaband.

Pabbi og Alfa stofnuðu heimili í húsi við Þverveg í Skerjafirði sem var þá, 1955, nánast úthverfi Reykjavíkur. Faðir minn var starfsmaður hjá Flugfélagi Íslands og stutt að fara yfir á vinnustaðinn.

Ég kom stundum í heimsókn til þeirra. Í minningunni er bjart yfir þeim dögum í Skerjafirðinum. Man ég að hafa hitt þar eitt sinn Sigrúnu systur Ölfu og mann hennar Eggert Ólafsson og var þá glatt á góðri stundu

Svo liðu árin og ávallt var ljúft og gott að koma til Ölfu og pabba. Alfa var listakokkur og hvergi fékk ég betri mat en hjá Ölfu. Hún hafði góða nærveru og lagði gott til mála og var þeim sem til hennar leituðu sannur vinur. Í stuttri minningargrein rifja ég upp það sem mér er efst í huga við andlát Ölfu Guðmundsdóttur.

Minningin um Ölfu Guðmundsdóttur mun lifa með mér og ylja um ókomin ár. Guð blessi minningu Ölfu Guðmundsdóttur.

Ólafur Ormsson.