Frjálsar Fremsta frjálsíþróttafólk Íslands keppti í Laugardalshöll auk um 30 erlendra keppenda frá sjö löndum.
Frjálsar Fremsta frjálsíþróttafólk Íslands keppti í Laugardalshöll auk um 30 erlendra keppenda frá sjö löndum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Aldrei hafa fleiri erlendir gestir komið hingað til lands í tengslum við Reykjavíkurleikana, RIG, en í ár. Þessi árlega íþróttahátíð var haldin í 12. sinn frá 24. janúar til 3.

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Aldrei hafa fleiri erlendir gestir komið hingað til lands í tengslum við Reykjavíkurleikana, RIG, en í ár. Þessi árlega íþróttahátíð var haldin í 12. sinn frá 24. janúar til 3. febrúar og fer hún vaxandi með hverju árinu, að sögn Önnu Lilju Sigurðardóttur, upplýsinga- og samskiptastjóra Íþróttabandalags Reykjavíkur. Keppendur, þjálfarar og dómarar frá útlöndum voru um 720.

„Við höfum verið að tala um það undanfarin ár að erlendir gestir hafi verið á sjöunda hundrað, en nú erum við komin yfir 700 í fyrsta skipti. Þetta mót hefur fest sig vel í sessi og það ríkir mikil ánægja. Margir erlendir gestir sögðust ætla að koma aftur og taka fleiri með sér næst,“ sagði Anna Lilja í samtali við Morgunblaðið.

Alls var keppt í 18 greinum, en auk metfjölda erlendra keppenda er talið að um 2.000 íslenskir keppendur taki þátt. Íþróttabandalag Reykjavíkur sér um skipulagninguna í samstarfi við sérsambönd ÍSÍ og íþróttafélögin í Reykjavík, en Anna Lilja segir að keppnin sé sífellt að draga að sér aukna alþjóðlega athygli. Það á ekki einungis við hvað keppendur varðar.

„Það hefur líka verið aukinn áhugi á því að sýna frá greinum erlendis. Við höfum til dæmis verið í sambandi við Eurosport og skoðað möguleika á því. Að mótinu sé sýndur slíkur áhugi er gríðarlegur heiður og sýnir að þetta er á réttri leið. Við erum að fá mjög jákvæð viðbrögð erlendis frá.“

Hundruð koma að skipulagi

Anna Lilja segir misjafnt hvernig ferðatilhögun er háttað hvað erlenda keppendur varðar. Margir komi á eigin vegum en öðrum, sérstaklega sterkustu keppendunum, sé ef til vill boðið og í þeim tilvikum standi sérsamböndin þá að skipulagningu. Þrátt fyrir að mótinu í ár sé nýlokið hefst skipulagning fyrir næsta ár mjög fljótlega, enda eru margar hendur sem koma að svona stórum viðburði.

„Það hleypur á hundruðum karla og kvenna sem koma að þessu, það er ekki spurning. Mesta vinnan er hjá sérsamböndunum sem halda hvern viðburð fyrir sig. Þetta er hápunkturinn á árinu í mörgum greinum og fólk leggur sig virkilega vel fram. Ég hitti marga sem voru í forsvari fyrir greinarnar og það var gríðarleg ánægja. Ég skynjaði mjög mikla jákvæðni í loftinu,“ sagði Anna Lilja.

Reykjavíkurleikarnir
» Haldnir í 12. sinn í ár þar sem keppt var í 18 mismunandi íþróttagreinum.
» Um 720 erlendir gestir komu hingað til lands vegna mótsins.
» Mikil ánægja og viðurkenning hvað alþjóðlegur áhugi hefur aukist.
» Farið að huga að keppni næsta árs mjög fljótlega þar sem hundruð koma að skipulagningu.