Strandaði Sjöfn SH 707 dró farþegabátinn Austra af strandstað og síðan til hafnar í Stykkishólmi.
Strandaði Sjöfn SH 707 dró farþegabátinn Austra af strandstað og síðan til hafnar í Stykkishólmi.
„Orsök strandsins var óvarleg sigling á viðsjárverðu svæði og örugg siglingaleið ekki tryggð,“ segir í skýrslu siglingasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa um strand farþegabátsins Austra við Skorey, austan Stykkishólms 27. desember 2017.

„Orsök strandsins var óvarleg sigling á viðsjárverðu svæði og örugg siglingaleið ekki tryggð,“ segir í skýrslu siglingasviðs Rannsóknarnefndar samgönguslysa um strand farþegabátsins Austra við Skorey, austan Stykkishólms 27. desember 2017. Nefndin átelur að haffærisskírteini hafi verið útrunnið og lögskráning í ólagi. Í sérstakri ábendingu vegna strandsins ítrekar nefndin að ekki eru öll rafræn siglingakort viðurkennd sem öruggur siglingabúnaður, en í skýrslunni er m.a. fjallað um rafræna kortagrunna og sjókort.

Austri lét úr höfn í Stykkishólmi um kl. 13.10 í skoðunarferð með sjö farþega og ungbarn. Á siglingunni til baka var siglt meðfram og austur fyrir Skorey, austur af Stykkishólmi, þar sem Austri strandaði um kl. 14.15 Við strandið slasaðist einn farþeginn lítillega en sauma þurfti nokkur spor á höfði hans.

Mikill viðbúnaður var vegna strandsins og voru björgunarsveitir á Snæfellsnesi ræstar út ásamt fjölda skipa á svæðinu og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þegar fyrstu aðilar komu á vettvang var leki kominn að bátnum en farþegarnir voru þá komnir í gúmmíbjörgunarbát ásamt skipstjóra.

Farþegaskipið Særún kom fyrst á vettvang og var ákveðið að draga gúmmíbjörgunarbátinn að Arnari SH sem kominn var á vettvang. Sökum þess hversu hátt var upp í það skip var gúmmíbjörgunarbáturinn dregin að Særúnu og fólkið tekið þar um borð. Ekki reyndist þörf fyrir aðstoð þyrlu. Um kl. 15 var allt fólkið, sem var orðið kalt, komið um borð í farþegaskipið Særúnu sem sigldi með það til Stykkishólms þar sem það fékk aðhlynningu og læknishjálp. Um kl. 15.15 dró Sjöfn SH 707 Austra á flot.