Syndahreinsun Helgir hindúar baða sig á mótum helgra fljóta á Indlandi.
Syndahreinsun Helgir hindúar baða sig á mótum helgra fljóta á Indlandi. — AFP
Milljónir hindúa böðuðu sig á mótum helgra fljóta á Indlandi í gær á fjölmennustu trúarhátíð heimsins. Þeir telja að baðið veiti þeim aflausn frá syndum og leysi þá undan hringrás endurfæðinga.

Milljónir hindúa böðuðu sig á mótum helgra fljóta á Indlandi í gær á fjölmennustu trúarhátíð heimsins. Þeir telja að baðið veiti þeim aflausn frá syndum og leysi þá undan hringrás endurfæðinga. Hefð er fyrir því að þúsundir helgra manna, sem nefnast Naga Sadhus , fari fyrir hindúunum, hlaupi naktir í kalt vatnið og veifi lurkum og sverðum.

Hindúarnir böðuðu sig þar sem þrjú fljót, Ganges, Yamuna og Saraswati, renna saman, og baðið er álitið helgasta athöfnin á 48 daga trúarhátíð, Kumbh Mela, sem lýkur 4. mars. Rúmlega 30.000 lögreglumenn voru á staðnum til að hafa stjórn á mannfjöldanum og koma í veg fyrir mannskæðan troðning. Indversk yfirvöld hafa einnig varið jafnvirði tæpra fimm milljarða króna til að loka holræsum, hreinsa sorp og gera ráðstafanir til þess að hindúarnir geti þvegið sér eftir athöfnina svo þeim verði ekki meint af baðinu í menguðu vatni fljótanna.