400 högg Leikstjóri François Truffaut, 1959. Dramatísk gamanmynd. Antoine á stormasöm unglingsár. Skemmtilegast finnst honum að fremja óknytti. Hann lýgur að foreldrum sínum, hann stelur og stingur af. Dag nokkurn kemur lögreglan til skjalanna.
400 högg Leikstjóri François Truffaut, 1959. Dramatísk gamanmynd. Antoine á stormasöm unglingsár. Skemmtilegast finnst honum að fremja óknytti. Hann lýgur að foreldrum sínum, hann stelur og stingur af. Dag nokkurn kemur lögreglan til skjalanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valgerður Þ. Jónsdóttir vjon@mbl.is Nítjánda Franska kvikmyndahátíðin 2019 verður haldin dagana 6. – 17. febrúar í Háskólabíói auk þess sem hún teygir anga sína til Egilsstaða og Ísafjarðar.

Valgerður Þ. Jónsdóttir

vjon@mbl.is

Nítjánda Franska kvikmyndahátíðin 2019 verður haldin dagana 6. – 17. febrúar í Háskólabíói auk þess sem hún teygir anga sína til Egilsstaða og Ísafjarðar. Eins og undanfarin ár standa Franska sendiráðið á Íslandi og Alliance Française í Reykjavík að hátíðinni í samstarfi við Institut français. Sýndar verða tíu kvikmyndir, sem að sögn Renaud Durville, vísinda- og menningarfulltrúa í Franska sendiráðinu, eru sannkallaðar gæðamyndir, sem skipuleggjendur, þar með talinn hann sjálfur, völdu af stakri kostgæfni.

Opnunarmyndina, Að synda eða sökkva í leikstjórn Gilles Lellouche, ber vitaskuld hæst, gamanmynd um átta karla í tilvistarkreppu og kostulega leið þeirra til að koma sér á réttan kjöl í lífinu. Franskir fjölmiðlar ausa hana lofi og hún hefur þegar laðað að meira en fjórar milljónir áhorfenda.

Nýjar myndir og þrjár gamlar

Langflestar hátíðarmyndirnar eru frá því í fyrra og hittifyrra. Gamli tíminn liggur þó ekki óbættur hjá garði, því ein af elstu myndum kvikmyndasögunnar og tvímælalaust elsta vísindakvikmyndin, Tunglferðin , 14 mínútna kvikmynd frá árinu 1902 í leikstjórn George Méliès, verður sýnd á Sólveigar Anspach-kvöldinu 14. febrúar. Gefum Renaud orðið:

„Aðstandendur hátíðarinnar með stuðningi Reykjavíkurborgar, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og kvikmyndaframleiðandans Zik Zak efna núna í þriðja sinn til verðlaunahátíðar til að heiðra minningu Sólveigar Anspach kvikmyndaleikstjóra og hvetja ungar konur til dáða í kvikmyndaleikstjórn. Veitt verða verðlaun fyrir fyrstu stuttmynd konu á frönsku eða íslensku, tungumálunum hennar Sólveigar,“ segir Renaud og upplýsir jafnframt að um 60 umsóknir hafi borist frá Íslandi og víða að úr heiminum.

Af þeim hefur dómnefndin með rithöfundinn Sjón í forsæti valið þrjár í keppnina og verða þær sýndar áður en sigurvegarinn stígur á svið og tekur við Sólveigar Anspach-verðlaununum. Aðgangur á viðburðinn er ókeypis. Renaud er sem lokuð bók þegar hann er spurður um nafn og þjóðerni vinningshafans.

Unga fólkið og frelsið

Annar viðburður á hátíðinni er Klassískt kvöld mánudaginn 11. febrúar, þar sem sýndar verða kvikmyndirnar Núll fyrir hegðun frá árinu 1933 í leikstjórn Jean Vigo og 400 högg frá 1959 í leikstjórn François Truffaut. Sú síðarnefnda er talin ein af upphafsmyndum nýbylgjunnar í franskri kvikmyndagerð.

„Ég sá þessar myndir þegar ég var lítill og trúlega þekkja þær flestir Frakkar, enda mjög fræg meistaraverk. Okkur fannst fara vel á að sýna þær saman á sérstökum viðburði því eitt af markmiðum hátíðarinnar í ár var að velja myndir um ungt fólk og fyrir ungt fólk eins og báðar þessar myndir eru. Truffaut var aldrei nein launung á að hann hefði verið innblásinn af mynd Vigo þegar hann gerði 400 högg , enda eiga þær margt sameiginlegt. Báðar fjalla um ungt fólk í vanda og frelsið,“ segir Renaud.

Sama er uppi á teningnum, en þó með gjörólíkum hætti, í þremur myndum; Swagger , Kennedysyllan og Strákarnir að austan , sem sýndar verða í samstarfi við frönskudeild Háskóla Íslands í Veröld - húsi Vigdísar, dagana 12., 13. og 15. febrúar. „Vonandi hópast nemendur úr framhalds- og háskólum til að sjá þessar myndir, sem eru mjög athyglisverðar. Sérstaklega Swagger , sem er um margt óvenjuleg heimildarmynd um ungt fólk, líf þess, vonir og þrár í fátækustu úthverfum Parísar,“ segir Renaud og vekur athygli á að sýningarnar í Veröld – húsi Vigdísar séu ókeypis.

Einnig verði ókeypis á eina sýningu af þremur á La Chute De L'Empire Américain , eða Fall Bandaríkjaveldis í leikstjórn Denys Arcand. Myndin er frá hinu frönskumælandi Québec-ríki í Kanada og sú eina á hátíðinni sem gerð er utan Frakklands. „Einn aðalleikarinn, Pierre Curzi, heimsækir Ísland í tilefni sýningarinnar, en hún er á vegum Kanadíska sendiráðsins á Íslandi.“

Pólitík í fortíð og framtíð

Renaud segir að La Chute De L'Empire Américain , sem Arcand gerði 1986 hafi fengið mjög góða dóma og verið tilnefnd til Óskarsverðlaunanna. Fall Bandaríkjaveldis eigi að gerast 30 árum síðar í samfélagi þar sem kapítalismi hefur yfirtekið öll önnur gildi.

Renaud nefnir aðra pólitíska kvikmynd á hátíðinni sem honum finnst býsna merkileg, Lýðurinn og konungur hans í leikstjórn Pierre Scholler. Umfjöllunarefnið er uppreisn lýðsins árið 1789 og var myndin verðlaunuð á pólitísku kvikmyndahátíðinni í Porto Vecchio á Korsíku árið 2017.

Renaud, sem er mikill áhugamaður um kvikmyndir, kom einnig að skipulagningu Frönsku kvikmyndahátíðarinnar þegar hann var menningarfulltrúi í Franska sendiráðinu á árunum 2007 til 2009. Hann gekk í sitt fyrra starf í fyrra þegar hann fluttist aftur til Íslands ásamt fjölskyldu sinni eftir næstum tíu ára dvöl í París. Eftirlætismyndir hans á hátíðinni eru Að synda eða sökkva og Barbara en hún fjallar um líf og list frægrar, franskrar söngkonu sem var á hátindi ferilsins á sjöunda og áttunda áratugnum.

Ádeila, pólitík, drama, tónlist, hasar, glæpir, spenna, sagnfræði og ekki síst gaman eru þemu sem saman eða hvert í sínu lagi eru rauðu þræðirnir í kvikmyndunum á Frönsku kvikmyndahátíðinni árið 2019. Hér á opnunni eru hverri þeirra gerð stuttlega skil. Myndirnar Að synda eða sökkva , Lýðurinn og konungur hans og Lovísa missir af lestinni eru með íslenskum texta, hinar með enskum.