Tónleikastaðurinn Nafn Ólafs Arnalds upplýst á skilti Orpheum-leikhússins í Los Angeles.
Tónleikastaðurinn Nafn Ólafs Arnalds upplýst á skilti Orpheum-leikhússins í Los Angeles. — Morgunblaðið/Gunnar Valgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hljómlist Ólafs hafði sýnilega áhrif á fólk því það hlustaði af nærgætni og án venjulegrar farsímaáráttu.

Frá Los Angeles

Gunnar Valgeirsson

gvalgeir@gmail.com

Ólafur Arnalds og hljómsveit hans hafa verið á tónleikareisu um heiminn undanfarið eitt og hálft ár, en það er við hæfi hjá þessum tónlistarmanni sem hefur verið afkastamikill í að semja og flytja tónlist undanfarin fimmtán ár – oft í samvinnu við annað listafólk. Hljómsveitin staldraði við hér í Orpheum-leikhúsinu nálægt miðbæ Los Angeles á föstudagskvöld.

Eins og mörgum lesendum Morgunlaðsins er eflaust kunnugt er erfitt að setja tónlist Ólafs í einhvern ákveðinn flokk. Á nýjustu útgáfu hans frá síðasta sumri – Re:member – tók hann sig til og notaði tónlistarhugbúnað til að tengja píanóleik sinn við tvö önnur píanó. Þessi tækniuppfinning er hluti af sviðsetningu hljómsveitar Ólafs, en hún er vel útsett fyrir áhorfendur sem geta vel séð spilun hljómsveitarmeðlima.

Uppselt var á þessa tónleika og meðan salurinn smám saman fylltist var hægt að hlusta á róleg píanóverk sem sköpuðu viðeigandi stemningu. Það var nauðsynlegt þar sem tónlist Ólafs krefst ákveðinnar þagnar í salnum svo hægt sé að njóta hennar en það getur oft reynst erfitt fyrir yngri tónlistarunnendur hér í bæ. Lunginn af tónleikagestum var í yngri kantinum – frá sjónarhorni sextugs manns – en eftir að Ólafur og hljómsveit hófu leik var alger þögn í salnum.

Hljómlist Ólafs hafði sýnilega áhrif á fólk því það hlustaði af nærgætni og án venjulegrar farsímaáráttu. Að loknu upphafslaginu, „Árbakkinn“, urðu góð fagnaðarlæti, enda hafði fólkið haldið vel aftur af sér.

Ólafur notaði pásuna fyrir næsta lag til að tala við áhorfendur. Hann gerði góðlátlegt grín að Los Angeles-borg, enda bjó hann hér á tímabili þegar hann samdi kvikmyndatónlist. Spaug Ólafs féll í góðan jarðveg enda eiga margir borgarar Los Angeles auðvelt með að gera grín að skemmtanabransanum í Hollywood – sérstaklega þar sem svo margir sem hér búa eru aðfluttir. Tal Ólafs skapaði góðan anda í salnum.

Margir Íslendingar þekkja vel til verka Ólafs, sem sveiflast á milli hægláts píanóleiks sem stundum þróast yfir í fallega hrynjandi þegar hljómsveitin kemur inn í verkið. Blandan af klassískum hljóðfærum og raftónlist virkar mjög vel og augljóst er að hann hefur náð góðum tökum á því sem hann er að gera.

Ólafur lék í tæpar tvær klukkustundir og var honum og hljómsveitinni fagnað geysivel í lokin.

Undirritaður hefur verið viðstaddur marga tónleika íslensks hljómlistarfólks hér í Kaliforníu undanfarna þrjá áratugi og ekki er laust við – þegar maður fer á jafn marga tónleika ár hvert og raun ber vitni – að tekið sé eftir sérstökum íslenskum þræði í tónlist íslensks tónlistarfólks. Það er erfitt að lýsa því í orðum, en tónlist Ólafs fellur vel inn í þennan þráð.