Boðar kosningar Juan Guaidó með stuðningsmönnum sínum í Karakas eftir að hann lýsti sig þjóðhöfðingja Venesúela þar til kosningar færu fram.
Boðar kosningar Juan Guaidó með stuðningsmönnum sínum í Karakas eftir að hann lýsti sig þjóðhöfðingja Venesúela þar til kosningar færu fram. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Bretland, Frakkland, Spánn, Þýskaland og fleiri aðildarríki Evrópusambandsins sögðust í gær hafa ákveðið að viðurkenna Juan Guaidó, forseta þingsins í Venesúela, sem lögmætan forseta landsins þar til kosningar fara fram.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Bretland, Frakkland, Spánn, Þýskaland og fleiri aðildarríki Evrópusambandsins sögðust í gær hafa ákveðið að viðurkenna Juan Guaidó, forseta þingsins í Venesúela, sem lögmætan forseta landsins þar til kosningar fara fram. Áður hafði Nicolás Maduro, leiðtogi sósíalistastjórnarinnar, hafnað kröfu ESB-ríkja um að efna til frjálsra og lýðræðislegra kosninga.

Stjórnvöld í Rússlandi gagnrýndu ákvörðun ESB-ríkjanna, lýstu henni sem ólögmætri íhlutun í innanríkismál Venesúela og sögðu þau reyna að „réttlæta tilraun til valdaráns“. Rússar eru á meðal helstu bandamanna sósíalistastjórnar Venesúela og hafa mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta í landinu. Rússnesk stjórnvöld voru í nánum tengslum við forvera Maduros, Hugo Chávez, og hafa aukið samstarfið við sósíalistastjórnina á síðustu árum, m.a. með því að auka vopnasöluna til Venesúela, og framlengt lán. Stjórnmálaskýrendur telja að Rússar hafi veitt Venesúela lán að andvirði 17 milljarða bandaríkjadala, sem svarar rúmum 2.000 milljörðum króna, frá því að Maduro komst til valda árið 2013, eftir að Chavez lést. Rússar óttast að þeir glati þessu fé ef Maduro hrökklast frá völdum.

Vilja aðgang að olíulindum

Eftir miklu er að slægjast því að Venesúela býr yfir meiri ónýttum olíuforða en nokkurt annað land í heiminum. „Þegar við sendum vopn þangað hugsaði enginn um hvernig við ættum að fá skuldina greidda. Ég tel að það sem menn hafi í reynd haft í huga sé aðgangur að olíulindum til vinnslu,“ hefur fréttavefur breska ríkisútvarpsins eftir rússneska hagfræðingnum Andrej Movtsjan. Rússneska ríkisfyrirtækið Rosneft hefur fjárfest í mörgum olíuvinnsluverkefnum í Venesúela og veitt ríkisreknu olíu- og gasvinnslufyrirtæki landsins, PDVSA, há lán.

Þótt rússneskir ríkisfjölmiðlar hamri á því að stjórnvöld á Vesturlöndum hafi gerst sek um ólögmæta íhlutun í málefni fullvalda ríkis hafa nokkrir stjórnmálaskýrendur í Rússlandi gagnrýnt fjárausturinn í sósíalistastjórnina. „Venesúela er svarthol sem hefur gleypt í sig milljarða dollara frá Rússlandi...og ávinningurinn er enginn,“ hefur rússneska blaðið Kommersant eftir Míkhaíl Krútíkín, sérfræðingi í fjárfestingum Rússlands í olíuvinnslu.

Utanríkisráðuneytið í Moskvu segir að rússneska stjórnin sé tilbúin að gera „allt“ til að styðja Maduro í deilunni en stjórnmálaskýrendur telja ólíklegt að Rússar gangi svo langt að beita hernaði til að verja sósíalistastjórnina. „Það væri brjálæði af hálfu Rússa að reyna hernaðaríhlutun,“ hefur BBC eftir Movtsjan. „Venesúela er ekki Sýrland. Kínverjar eru þar og Bandaríkin eru miklu nær Venesúela.“

Bandaríkjastjórn hefur gripið til efnahagslegra refsiaðgerða gegn PDVSA sem á meirihluta í olíuhreinsunarstöðvum í Texas í gegnum dótturfélagið Citko. Rosneft á nú þegar 49% hlut í Citko og á veð í dótturfélaginu, þannig að rússneska fyrirtækið gæti eignast meirihluta í olíuhreinsunarstöðvunum í Texas.

ESB-ríkin ekki samstiga
» Minnst 15 ESB-ríki hafa viðurkennt Juan Guaidó sem þjóðhöfðingja Venesúela: Austurríki, Bretland, Danmörk, Finnland, Frakkland, Holland, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Portúgal, Pólland, Spánn, Svíþjóð, Tékkland og Þýskaland.
» Önnur ESB-ríki, þ.ám. Grikkland, hafa hafa ekki viljað lýsa yfir stuðningi við Guaidó.