Straumsvík Álvinnsla hófst á Íslandi 1970 í Straumsvík og nú eru hér þrjú álver. Fylgst hefur verið með áhrifum álveranna á umhverfi þeirra.
Straumsvík Álvinnsla hófst á Íslandi 1970 í Straumsvík og nú eru hér þrjú álver. Fylgst hefur verið með áhrifum álveranna á umhverfi þeirra. — Morgunblaðið/Þórður
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Mikilvirkustu uppsprettur loftmengunar á Íslandi eru eldgos en þau geta haft tímabundin áhrif á stórum hluta landsins.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Mikilvirkustu uppsprettur loftmengunar á Íslandi eru eldgos en þau geta haft tímabundin áhrif á stórum hluta landsins. Aðrar uppsprettur mengunar eru álver, annar iðnaður og jarðvarmavirkjanir sem hafa fremur staðbundin en viðvarandi áhrif. Þetta kemur fram í skýrslu Sigurðar H. Magnússonar, gróðurvistfræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands (ni.is). Skýrsla hans um vöktun þungmálma og brennisteins í mosa á Íslandi 1990-2015 og áhrif frá iðjuverum og eldvirkni kom út í desember 2018.

Loftborin mengun á Íslandi hefur verið vöktuð frá árinu 1990 með því að mæla þungmálma í tildurmosa á fimm ára fresti. Þessi vöktun er hluti af evrópsku verkefni sem snýst um að kortleggja uppsprettur mengandi efna í andrúmslofti og fylgjast með breytingum. Mosanum hefur verið safnað víða um land og er reynt að endurtaka sýnatöku á sömu stöðum, sé það hægt. Sérstaklega hefur verið fylgst með mosa við álverin í Straumsvík, á Grundartanga og í Reyðarfirði og í litlum mæli við jarðvarmavirkjanir. Sýnatökustöðum var fjölgað 2015 en þá óskaði kísilver PCC á Bakka eftir mælingum á mosa í nágrenni versins. Kísilver United Silicon í Helguvík samþykkti einnig að taka þátt í vöktuninni og sama gerði HS Orka vegna vöktunar við virkjanir fyrirtækisins á Reykjanesskaga. Sigurður kvaðst vona að verkefninu yrði haldið áfram og verður þá næst safnað sýnum 2020.

Vöktunin hefur sýnt að helstu uppsprettur mengunar af völdum þungmálma og brennisteins eru eldgos, áfok af lítt grónum svæðum, annar iðnaður og jarðvarmavirkjanir. Þá berast hingað þungmálmar í fremur litlum mæli með loftstraumum frá útlöndum.

Holuhraunsgosið 2014-2015 olli því að styrkur brennisteins í tildurmosa hækkaði og komu fram skemmdir á mosanum á stórum hluta landsins. Mosi var einnig skemmdur við öll álverin og sums staðar hafði hann horfið með öllu, líklega vegna efnaálags.

Sigurður nefndi að talsverð mengun væri við iðnaðarsvæðið í Hellnahrauni í Hafnarfirði en þar hefur mælst hlutfallslega hár styrkur margra efna. Líklega má rekja uppruna þeirra til málmiðnaðar á svæðinu. Einnig berast efni inn á svæðið í allmiklum mæli frá álverinu í Straumsvík.