Ómar Ragnarsson
Ómar Ragnarsson
Eftir Ómar Ragnarsson: "Þótt minnihluti Bandaríkjamanna hafi greitt forsetum landsins atkvæði sitt þýðir það ekki að mikill meirihluti þjóðarinnar hafi verið þeim andvígur."

1851 stjórnaði Jón Sigurðsson forseti fyrsta þekkta fjöldahrópinu á Íslandi þegar Þjóðfundurinn, sem var sérstaklega kosið stjórnlagaþing, tók undir með honum: „Vér mótmælum allir!“ Og hverju var verið að mótmæla? Jú, að stjórnlagaþinginu var slitið fyrirvaralaust og þar með rofið það heit konungs, að Íslendingar fengju sjálfir að setja sér eigin stjórnarskrá. 166 árum síðar hefur draumur Jóns Sigurðssonar ekki verið uppfylltur. Danakonungur setti Íslendingum stjórnarskrá upp á sitt eindæmi 1874, meðal annars með 30 greina innganginum, sem átti að friðþægja Danakonungi 1849. Stjórnarskrárnar 1918 og 1944 voru í meginatriðum þær sömu og verið hafði 1874 og þar áður 1849. Svo mjög var sóst eftir drjúgum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944 að 30 greinarnar voru áfram með lágmarksbreytingum – forseti kom í stað konungs auk 26. greinarinnar um málskotsrétt forseta. Á móti var því heitið af leiðtogum þingflokkanna 1944 að gerð skyldi ný stjórnarskrá frá grunni eftir sambandsslitin. Sveinn Björnsson forseti brýndi þingið til þess að efna heitið um íslenska stjórnarskrá samda af Íslendingum sjálfum í nýársávarpi sínu 1949. Eftir það hefur þingið að vísu kosið stjórnarskrárnefndir aftur og aftur án árangurs, enda nefndirnar skipaðar beint af þingflokkunum og nefndarmenn því sótt umboð sitt hver um sig til þingflokks. Þeir sem settust í stjórnlagaráð 2011 töldu sig hins vegar sækja umboð sitt til þeirra kjósenda, sem greiddu þeim atkvæði í stjórnlagaþingskosningunum, og það hefur vafalaust átt þátt í því að ráðið komst að einróma niðurstöðu.

Síbyljan um andstöðu meirihluta landsmanna

Í umræðum um frumvarp stjórnlagaráðs hefur verið þrástagast á því að stjórnarskráin sé „í andstöðu við afstöðu meirihluta landsmanna“. Er sú fullyrðing byggð á því að vegna þess að þátttaka í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá stjórnlagaráðs hafi verið 48,4% „samþykkti aðeins þriðjungur þjóðarinnar þetta uppkast“ eins og það er orðað í Morgunblaðsgrein. Og hnykkt á með því að segja að stjórnarskráin hafi verið í andstöðu við afstöðu meirihluta landsmanna. Það er nefnilega það. Hvernig vita menn hver var skoðun þeirra sem ekki komu á kjörstað? Ef við höldum okkur við skilning greinarhöfundar á hjásetu var aðeins sjöttungur landsmanna í andstöðu við stjórnarskrána. Skoðum dæmi um það hvert svona röksemdafærsla getur leitt. Í forsetakosningum í Bandaríkjunum tekur aðeins um helmingur íbúa á kosningaaldri þátt. Þýðir það að „aðeins fjórðungur þjóðarinnar hafi kosið forsetann“ og að allir forsetar Bandaríkjanna hafi verið kosnir í andstöðu við meirihluta landsmanna? Auðvitað ekki.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1918 um sambandslögin, Ísland frjálst og fullvalda ríki með konungssamband við Dani, var kosningaþátttakan 43,8%

Þýðir það að minnihluti þjóðarinnar samþykkti þessa stjórnarskrá „í andstöðu við afstöðu meirihluta landsmanna“? Að sjálfsögðu ekki.

Nefna má fleiri dæmi eins og það, að í þjóðaratkvæðagreiðslu 1933 var kosið um það hvort afnema ætti lög um vínbann frá 1915. Í sögubókum stendur að afnám bannlaganna hafi verið samþykkt. En ef skilningurinn um „meirihluta landsmanna“ á að gilda var það minnihluti landsmanna, 28%, sem samþykkti afnám bannlaganna gegn andstöðu 72%. Og ef þessi skilningur á að gilda um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt hefur þátttaka erlendis, til dæmis í Sviss, síst verið meiri en var hér 2011. Og á að skilja það sem svo að Brexit skuli að engu haft, af því að minnihluti þeirra, sem voru á kjörskrá, 37%, greiddi atkvæði með útgöngu úr ESB gegn afstöðu 63%? Auðvitað ekki.

Ýmislegt fleira, sem hent er á lofti í andmælum gegn úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2011, orkar tvímælis. Sagt er að stjórnarskráin frá 2011 sé með þeim lengstu á byggðu bóli. Það er rangt. Það var athugað sérstaklega í starfi stjórnlagaráðs og kom í ljós að margar stjórnarskrár í okkar heimshluta eru lengri. Stjórnarskrá stjórnlagaráðs var skoðuð hjá mörgum virtum sérfræðingum við erlenda háskóla og hlaut alls staðar jákvæðar umsagnir. „Hætta á pólitísku þrátefli og óstöðugleika“, sem nefnt er sem niðurstaða Feneyjanefndarinnar, byggðist aðallega á því að hjá stjórnlagaráði var málskotsréttur forseta Íslands látinn halda sér og að forseti geti verið nokkurs konar öryggisventill varðandi löggjöf og dómskerfi. Á síðustu 16 árum hefur komið í ljós að málskotsgrein núverandi stjórnarskrár fellur vel að þeirri viðleitni í stjórnarskrám sem nefnd er „checks and balances“ og miðar að því að sporna gegn skaðlegri og ólýðræðislegri samþjöppun valds en stuðla að heppilegum valdmörkum og valddreifingu. Eru höfð til hliðsjónar meginatriði sem best hafa reynst í norrænum rétti og nýjustu stjórnarskrám á Norðurlöndum og í Evrópu.

Látið er í það skína hjá andmælendum að beint lýðræði sé eitthvað voðalegt, sem Feneyjanefndin hafi haft ímugust á. Það er undarlegt, því að beint lýðræði hefur verið tekið upp í nokkrum nágrannalöndum okkar og gefist vel.

Höfundur var fulltrúi í stjórnlagaráði. omarr@ruv.is

Höf.: Ómar Ragnarsson