Margt mælir með tillögum fernra lykilsamtaka um matvælastefnu fyrir Ísland

Forsvarsmenn fernra helstu lykilsamtaka í íslensku atvinnulífi gengu í gær á fund Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra með tillögur undir yfirskriftinni „Matvælastefna fyrir Ísland“. Í bréfi forsvarsmanna samtakanna fernra, Samtaka iðnaðarins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka ferðaþjónustunnar og Bændasamtaka Íslands, segir að mikil tækifæri blasi við í íslenskri matvælaframleiðslu og það þurfi að endurspeglast í stefnumörkun stjórnvalda til að fyrirtæki í matvælaiðnaði geti nýtt þau.

Samhljómur er með þessum áherslum og leiðaraskrifum Morgunblaðsins bæði hvað snertir sjávarútveg og landbúnað og er full ástæða til styðja tillögurnar samtakanna.

Í greinargerð með þeim er áhersla lögð á þrennt, sjálfbærni, öryggi og heilnæmi og verðmætasköpun.

„Íslensk matvæli, jafnt sjávarafurðir sem landbúnaðarafurðir, eru þekkt fyrir hreinleika og sjálfbærni,“ segir þar. „Lega landsins og veðurfar valda því að notkun varnarefna í landbúnaði er lítil sem engin. Einangrun búfjárstofna hefur í för með sér að búfjárheilsa er hér með því besta sem þekkist og sýklalyfjanotkun hverfandi miðað við það sem víðast er. Nytjastofnar sjávar eru nýttir á sjálfbæran hátt og íslensk stjórnvöld fylgjast grannt með hafinu umhverfis landið. Ennfremur er mengun af völdum örvera, lyfjaleifa og þungmálma í matvælum og fóðri vöktuð og niðurstöður birtar.“

Síðan segir að íslenskir matvælaframleiðendur sameinist um að „stefna að því að verða framúrskarandi á heimsvísu með sérstakri áherslu á sjálfbærni, umhverfisvernd, hreinleika, rekjanleika og öryggi“. Þá þurfi gæðakerfi og innra eftirlit matvælafyrirtækja, jafnt innlendra framleiðenda sem innflutningsfyrirtækja, að sýna fram á að þau starfi í samræmi við þessar áherslur. Að auki þurfi innflutt matvæli að uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til innlendra matvælaframleiðenda. Að lokum er skorað á íslensk stjórnvöld að styðja við „framgang þessara stefnumiða og sjá til þess að íslenskir neytendur og gestir sem sækja landið heim hafi ávallt aðgang að fjölbreyttum og heilnæmum úrvals matvælum“.

Undanfarið hefur sérstaða Íslands í matvælaframleiðslu verið að koma betur og betur í ljós. Yfirgengileg notkun sýklalyfja í landbúnaði hefur leitt til þess að bakteríur, sem eru ónæmar fyrir sýklalyfjum, eru orðnar mjög útbreiddar. Sýklalyfjaónæmar bakteríur gætu valdið miklum skaða. Þegar sýklalyfin komu til sögunnar varð bylting í heilbrigðismálum í heiminum. Það þarf vart að tíunda hvílíkt bakslag það yrði ef ekki yrði lengur hægt að nota sýklalyf gegn algengum sýkingum.

Undanfarið hefur verið sagt frá aðgerðum til að hefta útbreiðslu svínaflensu í Evrópu. Á landamærum Danmerkur er til dæmis verið að reisa girðingu til að koma í veg fyrir að villisvín komist inn í landið frá Þýskalandi. Svínaflensan mun þó ekki vera hættuleg mönnum. Sýklalyfjaónæmu bakteríurnar eru það hins vegar og það er augljóst að leggja verður höfuðáherslu á að verjast þeim hér á landi.

Þær tillögur, sem samtökin leggja fram, krefjast í raun ekki mikilla aðgerða. Ísland nýtur nú þegar sérstöðu í matvælaframleiðslu, hvort sem það er í landbúnaði eða sjávarútvegi. Eins og segir í greinargerð þeirra uppfylla íslensk matvælafyrirtæki allar kröfur Evrópusambandsins um hollustuhætti, dýravernd og matvælaeftirlit. Matvælastofnun sinnir víðtæku eftirliti og birtir reglulega skýrslur um allt frá skimunum vegna smitsjúkdóma í dýrum til hitastigs í lönduðum afla og eftirlits með aflameðferð og löndunaraðstæðum.

Oft vill gleymast þegar borin er saman innlend vara og innflutt að framleiðendur sitja ekki við sama borð. Varnir geta hins vegar kostað sitt. Í greinargerð samtakanna fernra er sérstaklega fjallað um þá heimild sem íslensk stjórnvöld hafa nú fengið til að setja sérstakar viðbótartryggingar vegna salmonellu í kjúklingakjöti, hænueggjum og kalkúnakjöti vegna forvarna. Gagnrýnendur hafa sagt að þetta sé ekkert annað en verndartollur. Það er öðru nær. Íslendingar feta hér í fótspor Svía og Finna og eru samferða Dönum. Spurningin er mun frekar hvort ekki eigi að fara sömu leið til að koma í veg fyrir að afurðir mengaðar kampýlóbakter berist til landsins.

Það vekur athygli hversu víðtækra hagsmuna þau félög, sem standa að tillögunum, hafa að gæta. Þarna eru ekki aðeins Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Bændasamtök Íslands, heldur Samtök iðnaðarins og Samtök ferðaþjónustunnar. Það þarf hins vegar ekki að vekja furðu. Umhverfissjónarmið valda því að kröfur um að flytja þurfi mat sem skemmstan veg til neytandans fara vaxandi. Í ferðaþjónustu sjá menn sér hag í því að geta boðið upp á innlenda framleiðslu. Þá eykur gróskumikil framleiðsla innanlands jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það má gera sér mat úr þessum tillögum.