Auschwitz-Birkenau Útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni eru vinsæll áfangastaður ferðafólks og flokkast sem myrkvaferðamennska.
Auschwitz-Birkenau Útrýmingarbúðir nasista í seinni heimsstyrjöldinni eru vinsæll áfangastaður ferðafólks og flokkast sem myrkvaferðamennska. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Myrkvaferðamennska er tiltölulega nýtt hugtak á sviði ferðamálafræði, en það nær yfir það þegar ferðast er til staða sem á einhvern hátt eru tengdir dauðanum eða fólk hefur upplifað þjáningar.

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Myrkvaferðamennska er tiltölulega nýtt hugtak á sviði ferðamálafræði, en það nær yfir það þegar ferðast er til staða sem á einhvern hátt eru tengdir dauðanum eða fólk hefur upplifað þjáningar. Fólk er hins vegar að verða meðvitaðra um þessa tegund ferðamennsku að sögn Silju Marínar Jensdóttur, sem ásamt Eydísi Önnu Theodórsdóttur tók fyrir hugtakið um myrkvaferðamennsku í lokaverkefni þeirra til BA-gráðu í ferðamálafræði við Háskóla Íslands.

Í ritgerðinni tóku þær Silja og Eydís viðtöl við sex einstaklinga sem ferðast höfðu til staða sem falla undir skilgreiningar myrkvaferðamennsku og áttu að lýsa upplifun sinni. Meðal slíkra staða eru Auschwitz-Birkenau-útrýmingarbúðirnar í Póllandi og akrar dauðans, Killing Fields , í Kambódíu.

„Þetta er frekar nýtt hugtak í ferðamálafræði, sem ný tegund ferðamennsku. Fólk veit því ekki endilega hvað þetta er og áttar sig ekki á því að það sé að stunda einhverja tegund ferðamennsku með því að heimsækja svona staði,“ segir Silja Marín. Hún segir það áberandi hvað viðmælendum í rannsókninni hafi þótt átakanlegt að koma á slíka staði, jafnvel þó að þeir hafi enga beina tengingu við þá atburði sem þar áttu sér stað.

Forvitni, sorg og samúð

„Við bjuggumst ekki við því, að fólk brotnaði alveg niður. Það virðist því vera öðruvísi að mæta á staðina en að heyra af þeim.“

Rannsóknin tók fyrir mismunandi hvata fólks til ferðalaga á staði tengda dauðanum. Einn viðmælandi í rannsókninni hafði gagngert lagt land undir fót til þess að heimsækja stað sem getur flokkast undir myrkvaferðamennsku. Hins vegar var algengara að viðmælendur hefðu komið við á slíkum stöðum á ferðalögum, oft vegna forvitni.

„Fólk var forvitið að komast nær dauðanum, því hann er svolítið fjarlægur í dag. Helstu niðurstöður voru þær að fólk fann fyrir mikilli sorg og samúð, en einnig vaknaði mikil forvitni um að læra meira um sögu staðarins,“ segir Silja. Farið hafi verið grunnt í hugtakið í ferðamálafræðinni í háskólanum, en þær hafi langað að kafa dýpra. Nýleg sjónvarpsþáttasería, Dark Tourist, hafi jafnframt vakið áhuga þeirra á málefninu.

Rannsókn þeirra Eydísar snérist fyrst og fremst um myrkvaferðamennsku út á við. Aðspurð hvort þessi tegund ferðamennsku þekkist hér á landi nefnir Silja dæmi um Þingvelli og Almannagjá þar sem saga tengd dauðanum geti vakið sérstaka forvitni ferðamanna.